Baldvin varði titilinn með miklum yfirburðum
Baldvin Þór Magnússon úr Ungmennafélagi Akureyrar varð Íslandsmeistari í 1500 metra hlaup í gær. Meistaramót Íslands fer fram í Kaplakrika í Hafnarfirði um helgina.
Aðstæður voru erfiðar í gær vegna vinds og þrátt fyrir að Baldvin hafi sigrað með yfirburðum var hann langt frá sínu besta. Hann hljóp vegalengdina á 4 mínútum 06,60 sekúndum og kom rúmri mínútu á undan næsta manni í mark. Íslandsmet Baldvins er 3:40,74 en í fyrra varð hann Íslandsmeistari á 4:01,20. Þá fór Meistaramótið fram á Akureyri og Baldvin keppti þá í fyrsta skipti á braut hér á landi. Hann flutti ungur með fjölskyldunni frá Akureyri til Bretlands, eins og margoft hefur komið fram á Akureyri.net, og síðustu ár hefur Baldvin verið búsettur í Bandaríkjunum þar sem hann stundar háskólanám og keppir í frjálsíþróttum.
„Maður var ekkert eftir tíma í dag þar sem það var svo mikill vindur. En ég er sáttur með hvernig hlaupið fór og það var sérlega gaman að fá að keppa á Íslandi í týpísku íslensku veðri. Þetta var fínt hlaup,“ sagði Baldvin við mbl.is eftir keppnina í gær. „Aðaltilgangurinn var bara að taka þátt og sýna sig aðeins á Íslandi.“
Baldvin sagðist hafa verið í basli í sumar vegna smávægilegra meiðsla og Covid. Hann væri því ekki í mkilli æfingu.