„Við erum framtíðin og við segjum nei“
Nemendur í Menntaskólanum á Akureyri komu saman til mótmælafundar á Ráðhústorgi eftir hádegi í dag vegna fyrirhugaðrar sameiningar framhaldsskólanna tveggja í bænum, Menntaskólans og Verkmenntaskólans.
Það var skólafélagið Huginn sem boðaði til fundarins. Krista Sól Guðjónsdóttir, forseti skólafélagsins – inspectrix scholae – hringdi á sal þar sem nemendur komu saman og gengu síðan fylktu liði niður á Ráðhústorg.
Krista Sól Guðjónsdóttir, forseti skólafélagsins Hugins – inspectrix scholae – stýrði fundinum á Ráðhústorgi.
Krista Sól las yfirlýsingu sem stjórn Hugins sendi frá sér í gær, eftir fund Ásmundar Einars Daðasonar, mennta- og barnamálaráðherra, með nemendum og starfsmönnum skólanna, þar sem ráðherra kynnti áform sín um að sameina skólana.
„Stjórn Skólafélags Hugins í Menntaskólanum á Akureyri er með öllu mótfallin sameiningu MA og VMA,“ sagði Krista Sól. „Í skólakerfi af þessari stærðargráðu munu nemendur aldrei upplifa sömu nánd við kennara, stjórnendur, stoðteymi eða samnemendur. Nemendur eiga ekki skilið að vera lítill hlekkur í risastórri hagræðingarkeðju ríkisstjórnar. Menntaskólinn á Akureyri er eitt virtasta menntasetur á landinu og hefur lengi vel verið þekktur sem skóli hefðanna. Með sameiningu af þessum toga er vegið að öllum okkar hefðum. Nemendur sækja í MA fyrir einstakt félagslíf.“
Birgir Orri Ásgrímsson, forseti Hugins, skólafélags MA, á síðasta skólaári, og Karl Frímannsson, skólameistari MA, voru á meðal þeirra sem fylgdust með fundinum í dag.
Hún sagði skólann standa fyrir óteljandi viðburðum sem fylgi MA-ingum út í lífið. „Þar má nefna árshátíðina, menningarferðina, júbilantahátíðina og margt fleira. Það er því deginum ljósara að með sameiningu myndu þessar hefðir eiga undir högg að sækja. Því spyrjum við mennta- og barnamálaráðuneytið hvernig þau geta með hreinni samvisku fleygt út um gluggann öllu því sem gerir skólann okkar einstakan? Er hagræðing í menntakerfinu meira virði í augum ráðuneytisins en menning og saga skóla um allt land? Gefið var út í dag á vef stjórnarráðsins að ákvörðun liggi fyrir um sameiningu skólanna tveggja og nú fari ferli af stað með nemendur til hliðsjónar.“
Krista Sól sagði að í vor, þegar fréttir bárust um fyrirhugaða sameiningu, hafi nemendum verið lofað að áður en ákvörðun yrði tekin fengju nemendur að koma sínu á framfæri. Aðgerðir gærdagsins væru þvert á þau loforð sem mennta- og barnamálaráðuneytið gaf út.
„Eftir að hafa lagt könnun fyrir nemendur í Menntaskólanum á Akureyri eru 98% þeirra mótfallin sameiningunni. Við munum ekki standa aðgerðarlaus hjá á meðan að fólk í valdastöðu fer með framtíð okkar eins og þeim sýnist,“ sagði forseti skólafélagsins og bætti við: „Við erum framtíðin og við segjum nei.“
Þá var vel tekið undir á Torginu og nemendahópurinn hóf því næst upp raust sína og söng skólasönginn.