Tveir lagðir niður, einn nýr stofnaður
Stofnaður hefur verið Facebook-hópur undir heitinu Stöðvum áform um sameiningu MA og VMA. Hópurinn er „ætlaður til skrafs og ráðagerða fyrir þá sem eru mótfallnir áformum um sameiningu MA og VMA, og eins til að deila upplýsingum um leiðir sem hægt er að nota til að koma andmælum um sameiningu skólanna á framfæri,“ eins og segir í lýsingu hópsins. Hópurinn var stofnaður um kvöldmatarleytið í gær og þegar þetta er skrifað hafa 188 manns gengið í hópinn.
Fjölmargir fyrrum nemendur hafa tjáð sig um málið á samfélagsmiðlum frá því að áform um sameiningu voru kynnt á fundi mennta- og barnamálaráðherra í Hofi í gær.
Stofnandi hópsins er Jan Eric Jessen, en hann útskrifaðist frá MA 2008. Hann bendir á hve ólíkir þessir tveir skólar eru. „MA og VMA eru tveir gjörólíkir skólar að svo fjölmörgu leyti. VMA er áfangakerfisskóli sem leggur mikla áherslu á iðngreinanám og sveigjanleika í námsframvindu. MA er bóknámsskóli, byggir tilvist sína á rótgrónum hefðum bekkjakerfismenningar og myndar þannig allt öðruvísi umhverfi fyrir nám og félagslíf nemenda en áfangakerfisskólar gera,“ ritar Jan Eric.
Hann minnir á hefðir eins og þá að fyrrum nemendur komi saman í kringum skólaslit á fimm ára fresti eftir brautskráningu og til að mynda hafi tveir af hverjum þremur sem brautskráðust fyrir 15 árum mætt til Akureyrar í þriggja daga veisluhöld til að halda upp á áfangann.
Ekki framkvæmt í samráði við nemendur
Jan Eric segir alveg ljóst að sameining skólanna verði ekki framkvæmd í samráði við nemendur og bendir á að í könnun sem lögð var fyrir nemendur MA hafi sýnt að 98% nemenda séu á móti sameiningu skólanna.
Hann segir að í raun þýði áformin það að tveir skólar verði lagðir niður og einn nýr stofnaður í staðinn. „Þegar breyta á tveimur gjörólíkum skólum – með ólík námskerfi, námsframboð, námsmenningu, sögu og hefðir – í einn, er í raun ekki verið að sameina þá. Það er verið að leggja niður tvo skóla og stofna á grunni þeirra nýjan skóla. Sérkenni beggja skóla munu þynnast verulega út og jafnvel glatast,“ skrifar Jan Eric og hvetur fólk til að ganga í Facebook-hópinn.