Fara í efni
Framhaldsskólar

Sveltur til sameiningar?

Stytting náms til stúdentsprófs fól í sér miklar áskoranir fyrir þá framhaldsskóla sem byggja fyrst og fremst á bóknámi. Væri ekkert gert til mótvægis mátti búast við að nemendum myndi fækka um allt að fjórðungi og framlög til skólanna að sjálfsögðu skerðast mjög verulega. Ég ákvað að skoða hvernig 7 stærstu bóknámsskólunum hefur vegnað og gera samanburð á þróun ársnemenda (heimild skólanna til að taka inn nemendur samkvæmt fjárlögum) annars vegar og fjárheimildum, eins og þær birtast í ársreikningum skólanna, hins vegar. Gerður er samanburður á milli ársins 2018 annars vegar og ársins 2022 hins vegar. Fjárheimildir eru reiknaðar á föstu verðlagi með vísitölu neysluverðs.

Samanburðurinn er sláandi. Í ljós kemur að Menntaskólinn á Akureyri hefur farið verr út úr ferlinu heldur en nokkur annar skóli hvað varðar nemendafjölda og fjárveitingar. Skólinn hefur misst fjórðung nemenda og tíunda hluta fjárveitinganna.

Hver er ástæðan fyrir þessari sérstöðu MA? Það er ljóst að hinir skólarnir hafa, í mismiklum mæli reyndar, náð að bæta sér missinn vegna tapaða árgangsins með því að fjölga innrituðum nemendum. Með þessu hefur þeim tekist að að halda mun betur í fjárveitingarnar. Hvers vegna hefur MA ekki farið þessa leið? Svarið er að MA reyndi vissulega að fara þessa leið en ólíkt því, sem virðist nokkuð greinilega hafa gerst hjá hinum skólunum, þá hefur MA verið settur stóllinn fyrir dyrnar. Skólinn hefur ekki fengið heimild til að fjölga nemendum. Þrátt fyrir nægilega aðsókn.

Síðasta aldarfjórðung eða svo hefur framhaldsskólunum verið úthlutað fjárheimildum á grundvelli reiknireglna sem í fyrstu hétu reiknilíkan og var fylgt úr hlaði með fögrum yfirlýsingum um að með þessu yrði stuðlað að auknu gagnsæi og meira réttlæti í skiptingu fjárveitinga. Reiknilíkan fyrir framhaldsskóla hefur síðan tekið miklum breytingum en grunnhugsunin er vonandi sú sama og var í upphafi. Þess vegna kemur mjög á óvart að sjá svo sláandi ólíka útkomu hjá þessum skólum sem verða að teljast fremur einsleitir hvort sem litið er til innri gerðar og starfsemi eða ytri aðstæðna. Það geta komið upp sveiflur í rekstri framhaldsskóla af ýmsum ástæðum en alla jafna má búast við stöðugleika. Þetta er ekki sambærilegt við veiðar á loðnu eða grásleppu.

Menntaskólinn á Akureyri reyndi að bæta sér upp missinn á árganginum með því að fjölga nemendum en fékk ekki. Hvers vegna? Er hér um að ræða eitthvert óhapp í ráðuneytinu við meðhöndlun á brothættu reiknilíkani eða er þetta meðvituð pólitík? Er verið að hanna atburðarás? Það er mikið gert úr rekstrarörðugleikum MA í skýrsluviðauka Pricewaterhouse Coopers. Þessir örðugleikar væru varla til staðar ef MA hefði fengið að bæta við nemendum líkt og hinir stóru bóknámsskólarnir.

Samkvæmt málflutningi Mennta- og barnamálaráðherra veltur framhald áforma hans um sameiningu framhaldsskólanna á Akureyri mjög á því hvort og hvernig takast muni að fá aukið fé inn í málaflokkinn. Ef ég skil hann rétt mun synjun um aukið fé kalla á hröðun sameiningarferlisins. Mér sýnist að hin sérstaka og mjög svo óréttláta meðhöndlun á Menntaskólanum Akureyri, sem ofangreindar tölur gefa til kynna, sé fullt tilefni til að endurskoða heimild skólans til að taka inn nemendur og jafnvel bæta honum skaðann sem þessi meðhöndlun hefur trúlega valdið honum síðustu árin.

Þetta er skjót leið til að leysa hinn bráða „rekstrarvanda“ MA og gefur gott ráðrúm til að veita öllum þeim, sem erfiði og þunga eru hlaðnir vegna þeirrar makalausu atburðarásar sem sameiningarhugmyndir ráðherra hafa hrundið af stað, kærkomið hlé og næði til að sinna sínum daglegu störfum og skyldum.

Upplýsingarnar sem liggja að baki myndritinu eru sóttar í fjárlög viðkomandi ára og ársreikninga skólanna sem eru birtir á vefnum rikisreikningur.is. Ársreikningar MS og VÍ fyrir 2022 eru óbirtir og stuðst er við ársreikninga frá 2021 í tilvikum þeirra.

Höfundur er kennari og fyrrum aðstoðarskólameistari við Verkmenntaskólann á Akureyri.