Fara í efni
Framhaldsskólar

Skorar á ráðherra að endurskoða vinnuna

Ingibjörg Isaksen, fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis og formaður þingsflokks Framsóknar, telur að staldra þurfi við og breyta uppleggi vinnu við hugsanlega samvinnu eða sameiningu framhaldsskólanna tveggja á Akureyri, Menntaskólans og Verkmenntaskólans. Hún hefur skorað á samflokksmann sinn, Ásmund Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, að endurskoða vinnuna og markmiðin.

„Ég hef verið hörð á því frá upphafi að markmið með þeirri vinnu sem lagt var upp með yrði að vera til þess að efla nám og svæðið í heild,“ segir Ingibjörg í samtali við Akureyri.net í dag.

Nám verði eflt í breiðu samráði

Margir hafa gagnrýnt vinnubrögðin og eru jafnvel alfarið á móti sameiningu skólanna. Síðast í dag greindi Karl Frímannsson skólameistari MA frá því í grein sem birtist hér á Akureyri.net að hann og Sigríður Huld Jónsdóttir, skólameistari VMA, hefðu farið þess á leit við ráðherra að haldið yrði við upphaflegt verkskipulag svo hægt væri að inna af hendi nauðsynlega vinnu innan skólanna sem ákveðið hefði verið að fara í áður en ákvörðun yrði tekin.

Ingibjörg er sama sinnis.

„Í ljósi þeirrar gagnrýni sem fram hefur komið á skýrslu nefndarinnar tel ég einsýnt að staldra við, hægja á okkur og breyta uppleggi vinnunnar,“ segir hún.  „Ég hef skorað á menntamálaráðaherra að endurskoða vinnuna og markmið með það að leiðarljósi að efla nám framhaldskólanna í breiðu samráði. Það verður að gefa svigrúm til þess að umræðan geti átt sér stað á málefnalegum grundvelli, með það að endamarkmiði að framhaldsskólasamfélagið á Akureyri verði það öflugasta á landinu.“

Vantar meira fjármagn

Ingibjörg leggur áherslu á að ein af forsendum þess að hægt sé að slaka á vinnunni eða breyta áherslum er sú að fjármagn inn í málaflokkinn aukist. „Ég treysti því að allir þingmenn hér í kjördæminu styðji tillögur um aukið fjármagn inn í málaflokkinn svo hægt sé að hægja á þessari vegferð.“

Ingibjörg Isaksen segir þetta mál í forgangi hjá sér og mjög mikilvægt að ná góðri lendingu. „Nú er mikilvægt að gefa starfsmönnum, nemendum og heimafólki á svæðinu svigrúm og tækifæri til að móta sameiginlega framtíðarsýn um þróun framhaldsskólastarfs á svæðinu í takt við samfélagsbreytingar og áskoranir. Við verðum að hlusta á fólkið og leyfa því að taka þátt í vinnunni.“