Fara í efni
Framhaldsskólar

Skólanefnd MA vill fresta málinu

Skólanefnd Menntaskólans á Akureyri samþykkti í gær ályktun þess efnis að hugmyndum ráðherra um samruna framhaldsskólanna tveggja á Akureyri, MA og VMA, verði frestað „á meðan haldbær rök liggja ekki fyrir“ eins og segir í ályktun sem samþykkt var samhljóða á aukafundi nefndarinnar.

Bókun skólanefndar er svohljóðandi:

„Skólanefnd Menntaskólans á Akureyri leggur til að hugmyndum ráðherra um samruna MA og VMA verði frestað á meðan haldbær  rök um ábata liggja ekki ljós fyrir. 

Nefndin leggur til að ráðist verði í ítarlega fýsileikakönnun um kosti og galla samruna skólanna. Fýsileikakönnun þurfi að sýna fram á með óyggjandi hætti að samruni efli bæði gæðastarf og námsframboð en komi einnig til móts við félagslegar þarfir nemenda á fjölbreyttan máta. Nefndin telur nauðsynlegt að til að unnt sé að ná breiðri sátt um framhaldið þurfi sú vinna að liggja fyrir áður en lengra er haldið.“