Skila sér á heimaslóð eftir læknanám í Slóvakíu
Kynningarsamstarf Menntaskólans á Akureyri við læknadeild háskólans í Martin í Slóvakíu hefur skilað þeim árangri að fjölmargir stúdentar frá norðlenskum framhaldsskólum hafa farið í læknanám í Slóvakíu. Nokkrir fyrrverandi nemendur MA eru komnir aftur heim á norðlenskar slóðir til starfa, eftir nám í Slóvakíu. Þetta segir Jón Már Héðinsson, skólameistari MA, í Morgunblaðinu í dag.
Í Morgunblaðinu kemur fram að af um 1.700 nemum í læknanámi við háskólann í Martin séu 600 erlendir, þar af flestir frá Noregi og Íslandi.
„Farsælt samstarf hefur í rúman áratug verið á milli MA og læknadeildarinnar ytra og hafa þó nokkuð margir nemar við báða framhaldsskólana á Akureyri auk fleiri norðlenskra skóla stundað læknanám í Martin í Slóvakíu. Jón Már Héðinsson, skólameistari Menntaskólans á Akureyri, segir að væntanlegir nemar við læknadeildina þreyti aðgangspróf sem byggist að mestu á grunnatriðum í líffræði og efnafræði og þeir sem standist það fái skólavist. Heimavist er við skólann en margir MA-nemar hafa reynslu af slíku fyrirkomulagi. Um 1.700 nemar eru við Jessenius-læknadeildina, þar af um 600 erlendir, flestir frá Noregi og Íslandi,“ segir í Morgunblaðinu.
„Það hafa þó nokkuð margir fyrrverandi nemendur okkar útskrifast frá læknadeildinni í Slóvakíu og starfa á heilbrigðisstofnunum hér um slóðir. Ég heyri vel látið af þeim, þeir þykja góðir og vel menntaðir starfsmenn.“
Jón Már segir við Akureyri.net að eftir útskrift frá læknadeildinni í Slóvakíu gætu Íslendingarnir skilið eitthvað í pólsku, sem væri gott að hafa í bakhöndinni á Norðurlöndunum þar sem mikið er um Pólverja. „Það er ágætis valkostur við annað námsframboð á þessu sviði að geta boðið upp á námið í Slóvakíu,“ segir Jón Már Héðinsson.
- Upphaflega var haft eftir Jóni, og vitnað í Morgunblaðið, að nemendur hefðu vald á pólsku eftir námið í Slóvakíu. Hann segir það full djúpt í árinni tekið; hann hafi sagt að þeir skildu eitthvað í pólsku. Því hefur verið breytt í þessari frétt.
- Vinnustofa þar sem kynnt verður læknanám við Jessenius-læknadeildina við háskólann í Martin í Slóvakíu verður í Menntaskólanum á Akureyri nk. fimmtudag, 19. ágúst, kl. 14.