Fara í efni
Framhaldsskólar

Sinfóníur á Norðurlandi

Það er ekki á hverjum degi – ekki einu sinni á hverju ári og jafnvel ekki á hverjum áratug sem frumflutt er nýtt sinfóníutónverk á Íslandi. Þetta gerðist samt í Hofi á Akureyri 29. maí, þegar Sinfóníuhljómsveit Norðurlands flutti Sinfóníuna SOS, í fimm þáttum, eftir Jón Hlöðver Áskelsson tónskáld og fyrrum skólastjóra undir styrkri stjórn Bjarna Frímanns Bjarnasonar, en Arngímur Jóhannsson flugmaður og loftskeytamaður lék einleik á morse-tæki. Eins og margt annað hafði þurft að fresta þessum tónleikum hvað ofan í samt út af pestinni.

Sinfónían SOS á sér nokkurn aðdraganda, en Jón Hlöðver segist meðal annars hafa heillast af því þegar Arngrímur morsaði fyrir hann setninguna „ljósið skín í myrkrinu“ á gagnmerku Norðurslóðasetri sínu, sem því miður er ekki lengur hér. Hugmyndirnar hlóðust upp og urðu að þessu verki þar sem í fyrsta og lengsta kaflanum er unnið með neyðarkallið SOS á mjög fjölbreyttan og tilfinningaslunginn hátt. Í öðrum þættinum fjallar tónskáldið um ljósið og myrkrið og baráttu þess. Þriðji þátturinn er byggður í kringum morsaða tilvitnun í Jóhannesarguðspjall, um ljósið sem skein í myrkrinu. Fjórði þátturinn hverfist um þjóðlagastefið „Ljósið kemur langt og mjótt“ og er sérlega viðkvæmt og leikið á hörpu, celestu, klukknaspil og víbrafón. Og í fimmta þættinum er hljómsveitin öll í þessum vangaveltum um ljósið langa og mjóa sem logar á fífustöngum. Verkinu lýkur svo á einleik á morsetækið, á bæn um frið og visku um alla veröld. Og veitir ekki af.

Jón Hlöðver er oft afar viljugur til að fara eigin leiðir með ómstríðum útsetningum og oft flóknum. Fyrsti og lengsti kaflinn var svolítið í þá áttina – og þó. Kannski var hrynurinn mikli með fjölskipuðu slagverki það sem skildi mest eftir. Að öðru leyti leyfi ég mér að segja, vegna þess að við Jón Hlöðver sungum lengi saman, að meginhluti þessa mikla tónverks er óvenju hljómfagur og líður blítt með manni. En það var oftar tekið til slagverksins og það setti mikinn blæ á verkið í heild og hljóm þess. Mér fannst hljómsveitin spila þetta firnavel og inngripið með morstækinu var bæði skemmtilegt og meiningarfullt. Það hefur áður verið leikið með óvenjuleg tól í tónlist, ég minnist þess að djasshljómsveit hafi leikið við taktinn úr gamalli tvígengisdráttarvél og allir þekkja ritvélarlagið eftir Leroy Anderson. En hér var ekki bara sleginn taktur. Hér flutti morsarinn okkur texta og boðskap. Það var gott hjá gamla flugkappanum.

Eftir hlé lék Sinfóníuhljómsveit Norðurlands Fimmtu sinfóníu Beethovens, sorgar- eða örlagasinfóníuna, sem stundum er svo nefnd. Í aðdraganda tónleikanna var bent á að fyrstu fjögur slögin í sinfóníunni - stutt, stutt, stutt, langt – væri morsetáknið fyrir V og V væri sigurtákn, (e. Victory). Það er skemmtileg tilviljun og viðeigandi á þessum tónleikum, jafnvel þó að morsið hafi verið fundið upp nokkru eftir að Beethoven hvarf úr heimi hér.

Ég ætla mér ekki þá dul að reyna að lýsa fimmtu sinfóníunni, aðrir hafa betri kunnáttu til þess og hún reyndar lýsir sér sjálf. Þetta er svo fjölbreytt og áhrifamikið og dadada daaaa skreytir verkið nánast til enda. Og þarna eru fleiri kunnuglegar hendingar eins og þær, sem langafi minn hefur trúlega fengið að láni hjá Lúðvík, þegar hann samdi „Ég vil elska mitt land“.

Hitt verð ég að segja og hef gert það áður. Ég hef aldrei heyrt Fimmtu sinfóníu Beethovens leikna eins og í Hofi hjá SN. Útsetning hins unga og djarfa hljómsveitarstjóra, Bjarna Frímanns Bjarnasonar, var að mínum dómi stórkostleg, hvernig hann spilaði á hljómveitina, lét hana óma lágt og blítt á viðkvæmum köflum og þandi hana upp í magnaðan styrk þar sem það átti við. Svona mikil blæbrigði þóttu mér gefa þessu meistaraverki nýjan lit og Bjarni var ekkert að slá taktinn, hann stjórnaði sinni Fimmtu. Það var flott. Ég vil óska honum og hljómsveitinni og þeim félögum Jóni Hlöðver og Arngrími til hamingju með þennan merka viðburð. Satt að segja hef ég verið að bíða eftir því að stóru landsfjölmiðlarnir birtu umsögn um þessa einstöku tónleika, en það er engu líkara en þetta sé dæmi um það sem þeir eiga við að stríða sem búa utan höfuðborgarsvæðisins. Þeir eru ekki alltaf taldir með.

Sverrir Páll