Fara í efni
Framhaldsskólar

Opið bréf stjórnar Hugins til ráðherra

Krista Sól Guðjónsdóttir, forseti Hugins, ásamt öðrum úr stjórn, lesa opið bréf til ráðherra á myndbandi sem birt er á Facebook-síðu Hugins, skólafélags Menntaskólans á Akureyri. Skjáskot úr myndbandinu.

Stjórn Hugins, skólafélags Menntaskólans á Akureyri, hefur sent frá sér opið bréf til mennta- og barnamálaráðherra þar sem farið er yfir atburðarás í tengslum við kynningu á áformum og ákvörðun um að sameina MA og VMA og ýmislegt í aðdragandanum, kynningunni og áformunum gagnrýnt. Spurt er hvort við sem þjóð ætlum aftur að leyfa menntamálaráðherra að umturna framhaldsskólakerfinu þvert á barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, eins og gert var með styttingu framhaldsskólans.

Bent á þversagnir hjá ráðherra

Opna bréfið er í formi tæplega níu mínútna myndbands sem félagið hefur birt á Facebook-síðu sinni. Þar er meðal annars bent á þversagnir í málflutningi ráðherra á kynningarfundinum í Hofi og svo í viðtali við Vísi. Þá er bent á að á fundinum hafi ráðherra sagt sameininguna ekki snúast um fjármagn og heldur sagt:

Ef ég ætlaði að gera þetta allt saman fyrir peningana og ætlaði að sýna fjárhagslega niðurstöðu af því á þessu tímabili þá hefði ég pínt ykkur til að sameinast eftir sex mánuði,því þá hefði hann mögulega getað sýnt fram á ávinning, en síðan hafi hann verið í mótsögn við sjálfan sig í viðtali á Vísi þremur dögum síðar þar sem hann hafi sagt ástæðu þess að sameining væri til skoðunar væri fjárskortur. Þetta sé ekki eina þversögnin sem finna megi í gögnum og viðtölum tengdum sameiningunni.


Skjáskot úr myndbandinu þar sem vitnað er í orð mennta- og barnamálaráðherra á kynningarfundinum í Hofi 5. september.

Bent er á að eftir framsögur ráðherra og skólameistara beggja skólanna hafi verið tekið við spurningum úr sal, en ... þar sem skýrslan sem sameiningin byggir á hafði ekki verið birt fyrir fundinn var erfitt fyrir viðstadda að spyrja út í smáatriði hennar. Á sama tíma og fundurinn hófst var tilkynning um sameiningu MA og VMA birt á vef stjórnarráðsins. Ljóst var að ráðherra ætlaði sér að ráðast í framkvæmdir til hagræðingar á kostnað nemenda.

Í framhaldinu er farið yfir fjölda nemenda og skortur á fjármagni til rekstrarins gagnrýndur. En eins og áður kom fram er ríkið ekki að greiða fyrir alla þá nemendur sem MA tekur við. Því spyrjum við: Á að fjármagna menntastefnu ráðherra með niðurskurði í skólanum? Á að búa til fleiri pláss í kerfinu á kostnað menntunar?

Dregið úr valkostum nemenda

Bent er á fleiri atriði sem ekki standist í málflutningnum, eins og til dæmis að með sameiningu yrði dregið úr starfshlutfalli sálfræðinga í sameinuðum skóla miðað við það sem nú er, dregið yrði úr vali nemenda á Norðurlandi því með sameinuðum skóla með fjölbrautakerfi hefðu nemendur í landshlutanum ekki val um bekkjarkerfi hér á svæðinu og yrðu að leita á suðvesturhornið ef þeir hefðu áhuga á að komast í skóla með bekkjarkerfi – það væri þó ekki auðvelt vegna húsnæðismála.

Þá er farið yfir að sameingin og stærð skólans myndi bitna á félagslífi og hefðum þar sem til dæmis yrði skortur á nægilega stóru húsnæði fyrir viðburði.

Samráðsleysi brot á barnasáttmálanum?

Gagnrýnt er að ekkert samráð hafi verið haft við nemendur skólans þegar áform um sameininguna voru kynnt þann 5. september. Stjórn Hugins setti sig því í samband við umboðsmann barna til að kanna mögulegt brot á barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem leiddi til þess að umboðsmaður sendi erindi til ráðherra og leitaði eftir upplýsingum um það hvernig mennta- og barnamálaráðuneytið hafi lagt mat á bestu hagsmuni barna við ákvarðanatöku um sameininguna.

Er það of mikið að ætlast til þess að mennta- og barnamálaráðherra þekki þá sáttmála og þau lög sem hann stendur fyrir. Við sem þjóð höfum einu sinni leyft þáverandi menntamálaráðherra að umturna framhaldsskólakerfinu á Íslandi, með styttingu framhaldsskólans, þvert á barnasáttmálann. Ætlum við virkilega að leyfa leiknum að endurtaka sig?

Myndbandið má finna á Facebook-síðu Hugins – sjá hér.

Stjórn Hugins minnir jafnframt á að í kvöld lýkur söfnun undirskrifta gegn sameiningu skólanna – sjá hér