Fara í efni
Framhaldsskólar

Félagslíf í lágmarki en ná að leika á veiruna

Formenn nemendafélaga framhaldsskólanna: Ína Soffía Hólmgrímsdóttir úr MA, til vinstri, og Anna Kristjana Helgadóttir, úr VMA, með hæfilegt Covid bil á milli sín. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Lífið gengur sannarlega ekki sinn vanagang í framhaldsskólunum á Akureyri um þessar mundir frekar en annars staðar, vegna kórónuveirufaraldursins.

Félagslíf nemenda skipar jafnan stóran sess í skólahaldinu en er nú í algjöru lágmarki, eins og gefur að skilja, og segja formenn nemendafélaga MA og VMA margs að sakna. Nemendur séu þó staðráðnir í að standa saman og komast út úr kófinu.

Anna Kristjana Helgadóttir formaður Þórdunu, nemendafélags Verkmenntaskólans, er á fjórða ári í rafeindavirkjun og í fullu staðarnámi. „Allt bóknám hefur verið í fjarnámi frá því í haust og hluti verknámsins, en við í rafeindavirkjuninni gátum mætt lengi vel; við erum 14 saman í hóp, alltaf í sömu stofunni og vel var gætt að sóttvörnum og bili á milli fólks.“

Fyrir skemmstu var skólanum hins vegar lokað eftir að nemandi greindist smitaður af Covid, sem varð til þess að stór hluti nemenda og kennara fóru í sóttkví.

Leika á veiruna!

Vert er að geta þess að Leikfélag Verkmanntaskólans náði þrátt fyrir allt að snúa fimlega á veiruskrattann, í bili að minnsta kosti. Búið er að velja í hlutverk söngleiksins Grís, sem stendur til að frumsýna í febrúar, og samlestur leikhópsins er hafinn á netinu – á Zoom-fjarfundi. Meðfylgjandi mynd er af slíkum fundi og ekki annað sjá en mannskapurinn sé glaður í bragði.

Leikfélag MA hefur einnig náð að halda sínu striki eins og framast er unnt. Félagið setur í vetur upp frumsaminn söngleik, Hjartagull, sem byggður er á tónlist hljómsveitarinnar 200.000 naglbíta. Leik-, dans- og söngprufur verða rafrænar á næstunni og fólk valið til ýmissa starfa við uppsetninguna.

Allir verða í fjarnámi að minnsta kosti til 17. nóvember. „Þá verður mögulega einhverju breytt en allt er rosalega óljóst,“ segir Ína Soffía Hólmgrímsdóttir formaður Hugins, nemendafélags MA. Hún er á mála- og menningarbraut, í 3. og síðasta bekk.

Hún segir stjórn Hugins stefna að því að að halda nokkra, litla rafræna viðburði á næstunni í samstarfi við önnur undirfélög, til dæmis rafræna kvöldvöku. „Svo er stefnt að útgáfu Munins, skólablaðs MA, í byrjun desember en ekki hefur verið ákveðið hvernig dreifingu á blaðinu verður háttað. Það hefur vanalega verið gert með því að hópa nemendum skólans saman í Kvosina en litlar líkur eru á að það verði hægt í desember.“

Fólk þyrstir í félagslíf

Í Menntaskólanum var sá háttur hafður á í haust að nemendur skiptust á að vera í staðarnámi og fjarnámi. „Fyrstu þrjár vikurnar í haust var 1. bekkur suma daga í skólanum, 2. bekkur líka en 3. bekkur var ekkert í skólanum,“ segir Ína Soffía. „Svo var því breytt þannig að 1. bekkur var alltaf í staðarnámi en 2. og 3. bekkingar skiptust á að mæta í skólann því við erum svo mörg að ekki var hægt að uppfylla metersregluna. Þegar tekin var upp tveggja metra regla hefði þurft að endurskipuleggja svo mikið að ákveðið var að hafa eingöngu fjarnám. Húsnæði skólans er samt opið þeim sem vilja læra þar en passað er vel upp á sóttvarnir og fjarlægð á milli fólks. Húsverðir er á staðnum og einhverjir kennarar nýta aðstöðu sína til að vinna.“

Ína Soffía segir breytingar á skólahaldi vissulega fara misvel í fólk, ekki síst óvissan með námið. „Ég finn líka að fólk þyrstir í að taka þátt í félagslífi og halda í hefðir, mæta á söngsal, kvöldvökur og þess háttar, en allir eru með sama markmið, að þrauka þangað til þetta vesen verður búið.“

Anna Kristjana tekur í svipaðan streng, segir erfitt fyrir marga sem skráðu sig í staðarnám að þurfa að vera í fjarnámi, „en ég upplifi ástandið þannig að allir vilji leggja sitt af mörkum til að klára þetta.“

Óhefðbundin móttaka nýnema

MA-ingar náðu einungis að halda brotabrot af hefðbundinni nýnemamótttöku í haust, eins og Ína orðar það. „Við vorum með nýnemagöngu, þar sem öllum 1. bekkingum eru sýndir ýmsir staðar sem MA-ingar þurfa að þekkja, en urðum að sleppa samkomu sem alltaf er í skólanum. Þá hefur árshátíðinni, sem átti að vera 27. nóvember, verið frestað þangað til í apríl á næsta ári.“

Svipaða sögu er að segja úr VMA. „Hér hefur alltaf verið nýnemaball, hátíð og ferð úr bænum en í staðinn var stuttur nýnemadagur þar sem Þórduna gaf þeim poka með ís og nammi, við vorum með gjafaleik á Instagram og gáfum svo öllum nemendum skólans pakka með fjölnota grímu, spritti og fleiru,“ segir Anna Kristjana Helgadóttir.