Fara í efni
Framhaldsskólar

MA-ingar safna fyrir Pieta samtökin

MA-ingarnir sem léku óskalög í Kvosinni frá því klukkun níu í gærmorgun til fjögur síðdegis. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Árleg góðgerðarvika stendur yfir í Menntaskólanum á Akureyri og að þessu sinni rennur allt fé sem safnast til Píeta samtakanna. Hægt er að heita á nemendur og taka þeir upp á ýmsu í því skyni að safna fé.

Þegar blaðamaður leit við í Kvosinni í MA síðdegis í gær var þar til dæmis hópur tónlistarmanna sem lék óskalög og hafði verið að síðan klukkan níu að morgni. Til stóð að leika til klukkan fjögur, þá þurfti hópurinn að drífa sig niður í Hof á æfingu, en þessir sömu krakkar sjá um tónlistina í Hjartagulli, söngleik sem Leikfélag MA frumsýnir síðar í mánuðinum.

Fyrsta daginn höfðu safnast ríflega 100.000 krónur og eftir að 200.000 króna markinu var náð tóku nokkrir strákar sig til og lyftu samtals 200 tonnum þann daginn! Nefna má að náist 900.000 króna markið hyggst einn nemenda skólans borða kæsta síld að hætti Svía, surströmming, sem sumir álíta ógeðslegasta mat sem hugsast getur! Einhverjir eru kannski tilbúnir að láta fá af hendi rakna bara til að verða vitni að því ...

Náist að safna einni milljón króna stendur svo til að nokkrir vaskir drengir í skólanum rói frá Grenivík til Akureyrar. Hætt er við því að margir voni líka heitt og innilega að það takmark náist!

Þeir sem vilja leggja söfnuninni lið með frjálsum framlögum geta lagt inn á reikning 162 - 26- 2686. Kennitalan er 470997-2229. Einnig er hægt að borga í gegnum AUR í númerið 663 9358.