Fara í efni
Framhaldsskólar

LMA býður upp á splunkunýjan söngleik

Leikhópurinn í upphitun á æfingu í Leikfimishúsi MA.

Leikfélag Menntaskólans á Akureyri hefur á undanförnum árum sett á svið stóra söngleiki, jafnvel verk sem ekki höfðu áður verið sýnd hér á landi en einnig verk sem hafa verið vinsæl hérlendis. Í bland við söngleikina voru lengst af flutt annars konar leikrit, bæði gamanleikir og alvalegri verk. Segja má að núverandi söngleikjatímabil hafi byrjað með Vorið vaknar, vorið 2014, en Leikfélag Akureyrar sýndi það verk síðan á síðasta starfsári. Auk þess má nefna Konung ljónanna, Rauðu mylluna, Love Star, Útfjör og Inn í skóginn.

Viðfangsefnið þetta árið er splunkunýr söngleikur, Hjartagull, sem Aron Martin Ásgerðarson hefur sett saman úr efni í söngtextum hljómsveitarinnar 200 000 Naglbíta, en bræðurnir Vilhelm Anton og Kári Jónssynir og Axel Árnason voru allir nemendur í MA á sínum tíma. Hjartagull verður sýnt í Hofi og frumsýning er áætluð 19. mars. Söngleikurinn er ekki um hljómsveitina eða sögu hennar heldur hefur höfundur sett saman persónugallerí sem hrærist í efni sem fram kemur í textum og lögum Naglbítanna. Aðalpersónan er Míó, listræn stúlka og skáld sem er að glíma við ýmsan vanda í eigin lífi og sýnt er hvernig henni vindur fram í lífinu. Spennandi að sjá hvernig það verður spunnið.

Að sögn Eikar Haraldsdóttur, formanns LMA, eru hlutverkin í Hjartagulli um það bil 20 en alls vinnur 70 manna hópur að sýningunni, auk leikaranna dansarar og 13 manna hljómsveit. Eins og undanfarin ár er sýningin sett upp og stjórnað af nemendum MA ef undan er skilinn leikstjórinn Aron Martin og aðstoðarleikstjórinn Egill Andrason. MA nýtur þess hve margir nemendur eru einnig í námi í tónlist. Nemendur hafa útsett tónlist í sýningum, stjórnað hljómsveitum og leikið á öll hljóðfærin. Í þetta sinn eru tónlistarstjórar og hljómsveitarstjórar þær Íris Orradóttir og Jóhanna Rún Snæbjörnsdóttir. Dönsum og sviðshreyfingum stýrir Sunneva Kjartansdóttir.

Auk leikara, söngvara, dansara og hljómsveitar eru starfandi nefndir sem sjá um búninga, svið, förðun, greiðslu og aðstoð á sviði auk þeirra sem afla styrkja, stjórna kynningum, gera leikskrá og þannig mætti lengi telja. Að baki leiksýningu eru margfalt fleiri en þeir sem standa á sviði.

Leikfélag MA stendur á gömlum grunni, fyrstu sýningar þess voru veturinn 1936-37, en þá sýndu nemendur leikrit í nokkur ár til að safna fé til þess að skólinn gæti eignast útivistarskála, Útgarð, í Hlíðarfjalli. Síðan hefur verið leiklistarstarsemi í skólanum með nokkrum stuttum hléum og Hjartagull verður 72. viðfangsefni LMA.

Það verður spennandi að sjá splunkunýjan, frumsaminn söngleik byggðan á efni sem varð til meðal annars þegar höfundarnir voru nemendur í MA.

Sverrir Páll

  • Á neðri myndinni er Aron Martin Ásgerðarson, leikstjóri.