Fara í efni
Framhaldsskólar

Leynist jólakjóllinn í Laugarborg á kjördag?

Kvenfélagið Iðunn var stofnað 11. desember árið 1932. Kvenfélagskonur standa fyrir kjólasölu í Laugarborg á laugardaginn sem þær kalla „Úr mínum skáp í þinn". Þar verður einnig boðið upp á vöfflukaffi og kökubasar. Myndir: Aðsendar

Á laugardaginn, sjálfan kosningadaginn, verða opnar dyr víða í Eyjafjarðarsveit. Það er því upplagt að fá sér bíltúr um sveitina þegar búið er að kjósa og ná sér í jólagjafir, matvöru, handverk eða gamlan kjól.

HÉR má sjá lista yfir þau fyrirtæki og félagasamtök sem bjóða fólk velkomið í aðventustemmingu í Eyjafjarðarsveit á kosningadaginn milli kl. 13 og 17, en meðal þeirra er Kvenfélagið Iðunn sem verður með kökubasar, kosningakaffi og kjólasölu í félagsheimilinu Laugarborg. Að sögn Jóhönnu Báru Þórisdóttur, formanns kvenfélagsins Iðunnar hafa konur í kvenfélaginu grafið djúpt í skápa sína, systra sinna og vinkvenna eftir kjólum sem liggja þar ónotaðir. Þeir verða síðan boðnir til sölu og er verðið frjálst.

Við höfum safnað um 60 kjólum. Þetta eru alls konar kjólar, sparikjólar, skokkar, sumarkjólar og vetrarkjólar. Fólk borgar það sem það getur fyrir kjólana, verðið er valkvætt.“ 

Leynist jólakjóllinn kannski í Laugarborg í Eyjafjarðarsveit? Jóhanna Bára formaður kvenfélagsins bregður á leik og sýnir kjól sem verður til sölu á laugardaginn. 

Sumarkjólar, sparikjólar, skokkar

Jóhanna Bára segir að kvenfélagið Iðunn steli þessari kjólahugmynd frá öðru kvenfélagi sem safnaði kjólum úr sínu nærumhverfi og bauð þá til sölu. Hugmyndin fannst kvenfélagskonum í Iðunni góð, enda um að gera að endurnýta hlutina og láta gott af sér leiða í leiðinni. Flestar konur eiga ónotan kjól inn í skáp sem gaman sé að gefa nýtt líf.  „Við höfum safnað um 60 kjólum. Þetta eru alls konar kjólar, sparikjólar, skokkar, sumarkjólar og vetrarkjólar. Fólk borgar það sem það getur fyrir kjólana, verðið er valkvætt,“ segir Jóhanna Bára og bætir við að konur í Eyjafjarðarsveit þurfi ekki að leita langt yfir skammt að jólakjólnum í ár, mögulega leynist hann í Laugarborg. Allur ágóðinn bæði af kaffisölunni, kökubasarnum og kjólasölunni rennur í hjálparsjóð kvenfélagsins en kvenfélagið, sem er 92 ára gamalt hefur styrkt ýmsa starfsemi í sveitinni eða inn á Akureyri eins og fæðingardeild FSA, Hrafnagilsskóla og Hjálparsveitinni Dalbjörgu.


Er ekki um að gera að skella sér í gamlan kjól á jólunum í ár? Alls konar kjólar verða í boði á kjólasölunni. Verðið er valfrjálst en allur ágóði rennur til góðra málefna.