Fara í efni
Framhaldsskólar

Kaffi daglega en siginn fiskur til hátíðarbrigða

Morgunkaffi alla virka daga. Aftasta röð: Arngrímur Brynjólfsson, Pétur Pálmason, Hörður Guðmundsson, Leifur Þormóðsson, Kristinn Pálsson. Fyrir miðju: Hörður Harðarson, Kristinn Bjarnason, Heiðar Konráðsson. Fremstur er Rúnar Jóhannsson. Mynd af vef Samherja.

Nokkrir fyrrum sjómenn á fiskiskipum Útgerðarfélags Akureyringa og Samherja hittast alla virka daga í morgunkaffi og ræða þar heimsins gagn og nauðsynjar. Reglulega eru svo haldnar heljarinnar matarveislur, þar sem siginn fiskur er á boðstólum.

Frá þessu segir í skemmtilegri grein á vef Samherja í dag.

Fram kemur að síðustu árin hafi þessi hópur komið saman í Bakaríinu við Brúna á Akureyri. „Sumir koma beint úr hressilegu morgunsundi, aðrir láta sér nægja að byrja daginn á kaffinu og taka stöðuna á helstu málefnum líðandi stundar,“ segir í greininni.

„Greinilegt er að allir þekkjast vel eftir öll þessi ár. Flestir eiga það sameiginlegt að hafa verið lengi á sjó og upplifað gríðarlegar breytingar í sjávarútvegi, frá síðutogurum til tæknivæddra fiskiskipa dagsins í dag. Af öllum ólöstuðum er óhætt að fullyrða að Kristinn Pálsson fyrrverandi bátsmaður er driffjöðrin í hópnum og sá eini sem á fast sæti við borðið.“

Síðutogarinn Harðbakur EA árið 1972: Þessar aðstæður þekkja félagarnir í morgunkaffinu vel, segir undir þessari mynd í umfjölluninni á vef Samherja.

Lífgar upp á tilveruna

„Upphafið má rekja til þess að við vorum tveir sem ákváðum að hittast reglulega á Litlu kaffistofunni, sem þá var og hét. Síðan þróaðist þetta bara svona, hópurinn stækkaði og við höfum verið hérna í Bakaríinu við Brúna frá því að Litlu kaffistofunni var lokað. Það er náttúrulega allur gangur á því hversu margir mæta. En þetta er traustur og þéttur kjarni sem flestir eiga það sameiginlegt að hafa verið á skipum Samherja og Útgerðarfélags Akureyringa og komnir á eftirlaun. Svo eru hérna strákar sem hafa slegist í hópinn en tengjast ekki beint sjónum en hafa allir brennandi áhuga á sjávarútvegi. Félagsskapurinn lífgar upp á tilveruna og fjölbreytileikann og reglulega reka inn nefið góðir gestir, sem er virkilega ánægjulegt,“ segir Kristinn.

Skilja alltaf í fullu bróðerni

Aldrei er skortur á umræðuefni, segir í greininni, og að umræðurnar geta orðið ansi líflegar. Pólitíkin hafi eðlilega verið nokkuð áberandi umræðuefni í aðdraganda kosninganna, flestir í hópnum hafi mikinn áhuga á enska fótboltanum og oftar en ekki séu leikir helgarinnar gerðir upp á mánudögum.

Öflugur hópur í hátíðarkvöldverði: Frá vinstri: Kristinn Pálsson, Einar Ingi Einarsson, Brynjar Jacobsen Guðmundsson, Oddur Óskarsson, Pétur Pálmason, Hörður Guðmundsson, Valmundur Pétur Árnason, Guðmundur Karlsson, Leifur Þormóðsson, Vilhjálmur Kristjánsson, Guðmundur Þ. Jónsson, Arngrímur Brynjólfsson.

„Fljótlega eftir kjördag dregur sjálfsagt úr pólitíkinni en ávallt er skeggrætt um sjávarútveg, hvaða skip eru að gera það gott og svo framvegis. Hérna er ýmislegt látið flakka sem fer ekki út fyrir hússins dyr. Við skiljum alltaf í fullu bróðerni, sem er líklega lykillinn að því að þessi félagsskapur hefur lifað svona góðu lífi. Þorsteinn Már forstjóri kíkir af og til á okkur og þá er tækifærið notað til að fá svör við ýmsum spurningum sem brenna á okkur,“ segja þeir félagar.

Sú hefð hefur skapast, segir í greininni, að sá sem á afmæli greiðir fyrir morgunkaffið. „Þetta hefur lengi verið óskrifuð regla, afmælisbarnið splæsir í tilefni tímamóta. Og það þýðir ekkert að skrópa, þá bara borgar einhver í hópnum reikninginn og rukkar svo viðkomandi þegar hann mætir næst,“ útskýrir Kristinn Pálsson.

Hátíðarmatur sem aldrei klikkar

Nokkrum sinnum á ári býður Kristinn hópnum til matarveislu á heimili sínu og matseðillinn hefur verið óbreyttur frá fyrstu tíð: siginn fiskur.

„Með signa fiskinum er hamsatólg, rúgbrauð og annað nauðsynlegt meðlæti. Við höfum verið með þessi matarboð í mörg ár og mætingin er alltaf góð. Siginn fiskur er hátíðarmatur sem aldrei klikkar, ég tala nú ekki um að boða þetta hnossgæti í góðra vina hópi. Þess vegna tölum við gjarnan um hátíðarkvöldverð. Þessi kraftmikli hópur hefur gefið mér mikið og ég hlakka alltaf til næsta fundar,“ segir Kristinn Pálsson.