Fara í efni
Framhaldsskólar

Íslandsmet og ágætur árangur UFA í Gautaborg

Tobias Þórarinn Matharel á verðlaunapalli í Gautaborg, en hann vann langstökkið með stökki upp á 6,66 metra, sem er jöfnun á Íslandsmeti í flokki 15 ára.

Ungmenni úr röðum Ungmennafélags Akureyrar (UFA) stóðu sig með prýði á Gautaborgarleikunum á dögunum, en það er líklega eitt sterkast unglingamót í frjálsum íþróttum á Norðurlöndunum. Keppt er í flokkum 12 ára og eldri. Tobias Þórarinn Matharel náði bestum árangi UFA-keppenda, en hann jafnaði Íslandsmet í langstökki í flokki 15 ára og vann þá grein með stökki upp á 6,66 metra.


Tobias Þórarinn Matharel heldur áfram að gera það gott í frjálsum íþróttum. Hann vann langstökkið með jöfnun á Íslandsmeti á Gautaborgarleikunum nýverið.

Hópurinn frá UFA var líklega sá fjölmennasti til þessa, en félagið sendi út 28 keppendur ásamt því að 36 foreldrar og þjálfarar voru með í för. UFA reynir að fara hópferð á þetta mót annað hvert ár og nýtur ferðin vaxandi vinsælda sem fjölskylduferð í bland við keppnina sjálfa. Keppnisdagarnir eru þrír, en ferðin sjálf stóð í viku með verslunarferðum, heimsókn í skemmtigarð og fleiru. Keppt var á Slottskogvallen í Gautaborg.


Guðrún Hjartardóttir náði 6. sæti í hástökki. 

Hér er stiklað á stóru yfir besta árangur keppenda úr röðum UFA

  • Tobias Þórarinn Matharel jafnaði Íslandsmet Þorsteins Ingvarssonar úr HSÞ í 15 ára flokki með stökki upp á 6,66 metra í langstökki og vann þá grein. Hann náði 4. sæti í þrístökki, náði stökki upp á 12,66 metra og 5. sæti í 80 metra grindahlaupi á tímanum 11,12 sekúndur í flokki 15 ára.
  • Róbert Mackay náði 4. sæti í 400 metra hlaupi í flokki 19 ára á tímanum 51,28 sekúndur.
  • Pétur Friðrik Jónsson komst í úrslit í 100 metra hlaupi í flokki 17 ára á tímanum 11,40 og endaði í 12. sæti.
  • Arnar Helgi Harðarson náði 6. sæti í 300 metra hlaupi í flokki 15 ára á tímanum 37,80 sekúndur.
  • Guðrún Hanna Hjartardóttir náði 6. sæti í hástökki í flokki 15 ára og stökk 1,52 metra.


Keppendur, þjálfarar og aðstandendur frá UFA á Gautaborgarleikunum. Mynd: UFA.is.

Nánar er sagt frá ferðinni og mótinu í máli og myndum á vef UFA.