Fara í efni
Framhaldsskólar

Flumbrugangur og samráðsleysi

Einar Brynjólfsson, kennari við MA, gagnrýnir harðlega ýmislegt í vinnubrögðum ráðherra mennta- og barnamála.

Það eru ekki aðeins áform um sameiningu MA og VMA sem fallið hafa í grýttan jarðveg hjá starfsliði, nemendum, fyrrverandi nemendum og fleirum. Vinnubrögðin við skýrslu stýrihóps og kynningu á málinu hafa einnig verið gagnrýnd harðlega.  Mikilvægasti fundur um menntamál í norðlenskri menntasögu í mörg ár boðaður með þriggja tíma fyrirvara og skýrsla opinberuð eftir að fundur hófst til að fólki gæfist ekki ráðrúm til að kynna sér hana og koma með óþægilegar spurningar – þetta eru ályktanir eins ræðumanns á samstöðufundi sem haldinn var á Akureyri í gær.

Hér er vísað í skýrslu stýrihóps undir heitinu Efling framhaldsskóla - Sviðsmynd 1 - Menntaskólinn á Akureyri og Verkmenntaskólinn á Akureyri.

Forkastanleg vinnubrögð ráðherra

Einar Aðalsteinn Brynjólfsson, kennari við MA og fyrrum kennari við VMA, flutti erindi á fundinum og gagnrýndi meðal annars vinnubrögð í tengslum við málið. Einar sagði engan hafa órað fyrir því að starfsfólk og nemendur skólanna stæðu frammi fyrir orðnum hlut í upphafi nýs skólaárs, að ákvörðun um sameiningu lægi fyrir, þó svo að einhverjar vangaveltur um hugsanlegt samstarf eða sameiningu MA og VMA hafi borist úr ráðuneytinu á vordögum.


Fundurinn í Hofi í síðastliðinn þriðjudag var fjölmennur. Mynd af vef Stjórnarráðsins.

Við þessa ákvörðun er ýmislegt að athuga. Í fyrsta lagi vil ég nefna að vinnubrögð ráðherra eru forkastanleg. Í þeim fræðum sem snúa að breytingastjórnun er einn mikilvægasti þáttur stórra breytinga og þetta eru svo sannarlega stórar breytingar að fá fólkið sem málið snertir til að skynja og skilja nauðsyn breytinganna, að fá fólk í lið með sér þannig að allir rói í sömu átt og stefni að sameiginlegu markmiði. Það skortir ansi mikið upp á það í þessu máli. Upplýsingarnar um nauðsyn breytinga eru nefnilega mjög óljósar,” sagði Einar.

Skýrslan unnin í miklum flýti

Einar sagði allt ferlið virðast hvíla á einni skýrslu sem hafi verið unnin í svo miklum flýti að ekki hafi gefist tími til prófarkalestrar, auk þess sem skýrslan sé uppfull af þversögnum og hálfkveðnum vísum. „Vönduð vinnubrögð eru undirstaða allrar velgengni, vönduð vinnubrögð taka tíma. Vönduð vinnubrögð þýða samráð og samstarf þeirra sem málið varðar. Þrátt fyrir fögur fyrirheit var ekkert samráð haft við starfsfólk og það sem meira er, unga fólkið var ekki haft með í ráðum. Sem er reyndar frekar vandræðalegt þar sem menntamálaráðherra er einnig barnamálaráðherra og hefur gumað af verkum sínum sem slíkur.“

Einar rifjaði síðan upp það sem komið hefur fram í fréttum að umboðsmaður barna hafi krafið ráðherra skýringa á því að gleymst hafi að tala við börnin, en það voru einmitt nemendur MA sem bentu umboðsmanni barna á þennan flöt á málinu.

Boðað til fundarins með skömmum fyrirvara

„Flumbrugangurinn var slíkur að starfsfólk skólanna, nemendur skólanna og forráðafólk nemendanna var boðað til einhvers mikilvægasta fundar síðustu ára í norðlenskri menntasögu með tæplega þriggja klukkustunda fyrirvara þar sem ákvörðunin var kynnt. Ég fékk tölvupóst kl. 11:51. Tvær klukkustundir og 39 mínútur voru fram að þeim fundi.“

Einar benti einnig á að umrædd skýrsla hafi verið gerð opinber nokkrum mínútum eftir að fundurinn hófst. „Af hverju skyldi það hafa verið? Jú, við vitum það öll. Svo fundargestir næðu ekki að lúslesa hana, kynna sér efni hennar, koma með ábendingar varðandi efni hennar og kannski síðast en ekki síst, koma með óþægilegar spurningar og hrekja kannski ýmsar þær staðreyndavillur þarna var að finna.“


Ingvar Þóroddsson sagði meðal annars frá löngu og góðu símtali sem hann átti við Jón Má Héðinsson, fyrrverandi skólameistara, að morgni fundardagsins.

Aldrei talað við Jón Má

Ingvar Þóroddsson, stúdent frá MA 2018 og fyrrverandi Inspector Scolae, sagði frá því á fundinum að við vinnslu á skýrslunni hafi aldrei verið haft samband við Jón Má Héðinsson, sem var skólameistari frá 2003 til 2022.

Ingvar kvaðst hafa haft samband við Jón Má í aðdraganda fundarins. „Í morgun átti ég langt og gott símtal við fyrrverandi skólameistara, Jón Má Héðinsson, hann gat því miður ekki verið með okkur á þessum fundi núna. Hann vildi skila kærri kveðju til fundarins og lýsa yfir fullum stuðningi við núverandi nemendur og starfslið skólans,“ sagði Ingvar.


Jón Már Héðinsson við skólaslit MA. Hann var ekki spurður álits við vinnslu skýrslu um framtíð MA og VMA. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

„Það var eitt sem sló mig sérstaklega sem Jón Már bað mig að segja,” sagði Ingvar og minnti á að Jón Már hafi verið skólameistari í 20 ár og aðeins nýlega látið af störfum. „Þessi skýrsla byggir að mjög miklu leyti á gögnum og tölum, það er verið að draga ályktanir um skólann þegar hann var skólameistari, og aldrei var haft samband við hann til að bera eitthvað af því sem var sett þarna inn undir hann, aldrei,” sagði Ingvar Þóroddsson.

Sjá einnig: Mál MA og VMA: „Það er titringur í Framsókn!“ | akureyri.net