Flugeldasýning LMA í Hofi
Leikfélag Menntaskólans á Akureyri frumsýndi í gær, föstudag, rokksöngleikinn Heathers, Heiðarnar, við gríðarlegan fögnuð og langvarandi undirtektir áhorfenda. Einu sinni enn hefur Leikfélag MA sett mark sitt á leiklistarsögu Akureyrar. Enn einn stórsöngleikurinn hefur verið frumsýndur af þvílíkum metnaði og færni að fáir gætu trúað að þarna væru saman komnir á stærsta sviði bæjarins unglingar á aldrinum 15-20 ára. Og eins og tíðkast hefur um árabil er allt þetta verk nemenda sjálfra ef frá er talin leikstjórnin ein og aðstoð við ljós og hljóð.
Heathers er innsýn í bandarískan menntaskóla þar sem ríkir yfirgangssöm klíka þriggja stúlkna sem allar heita Heiður. Fjórða stúlkan, Veronika, reynir að hefja sig upp úr lágstétt nemendanna með því að vingast við Heiðarnar, með alvarlegum afleiðingum, svo ekki sé fastar tekið í árinni. Kynni hennar við Jasmin, stúlku úr annarri átt, setja hana í afdrifaríka klemmu og leikarnir æsast og enda í grimmd og vonleysi. Og þarna er tæpt á mörgum alvarlegum kvillum sem hrjá unglinga á skólaaldri og hafa orðið fréttnæmir og eru langt frá því að teljast til fyrirmyndar. Í heild má segjast að í sögunni séu skin og skúrir, sorg og gleði.
Langmest mæðir á Veroniku (Birtu Karen), Jasmin (Jónu Margréti) og Heiðunum þremur (Rebekku Hvönn, Örnu Rún og Mollý Carol) leikur þeirra og ekki síst söngur af þvílíkum gæðum, krafti og innlifun að vart verður betur gert, að ógleymdum söng Mörtu (Ísabellu) í seinni hluta verksins. Og þó að ég nefni þessi nöfn má ekki gleyma hinum, strákarnir Þröstur og Stormur voru ógleymanlegir rétt eins og hinir sem mynduðu hópinn. Dansarnir voru afar sterkir og samhæfðir og undirstrikuðu stemminguna. Hljómsveitin var frábær hvort sem hún var á lágstemmdari nótunum eða í kraftmiklum atriðum. Þarna nýtur LMA þess að fjölmargir nemendur skólans eru meðfram menntaskólanáminu í dansskólum og í tónlistarnámi.
Í sýningunni eru á sviði sautján leikarar og söngvarar auk tíu manna hljómsveitar og tíu dansara. Að auki er baksviðs og í öðrum störfum stór hópur fólks svo LMA-hópurinn er í allt um 70 manns. Leikstjóri er Elísabet Skagfjörð, hljómsveitinni stjórnar Jóhanna Rún Snæbjörnsdóttir en auk hennar hefur Hugrún Lilja Pétursdóttir útsett tónlistina, sem er ekki einvörðungu leikur undir söng heldur undirtónn í ýmsum senum. Dansana hafa samið og þjálfað þær Birta Ósk Þórólfsdóttir og Bjarney Viðja Vignisdóttir og setja mikinn svip á sýninguna og virkja allan leikhópinn, ekki eingöngu þennan glæsilega og fima tíu stúlkna danshóp.
Oft hefur maður komið út af sýningum LMA og hugsað með sér og jafnvel sagt upphátt að þetta verði nú ekki toppað. Einhvern veginn hefur félaginu tekist að komast lengra en nokkurn óraði fyrir – og samt er þetta ekki fastur leikhópur til langs tíma, þarna eru krakkar að stíga fyrstu skref sín á sviði innan um „reynsluboltana“ sem í nútímaskóla hafa í mesta lagi komið á svið tvisvar áður. En hvað sem öðru líður og í ljósi stórsöngleikjasýninga LMA í áratug eða svo verð ég að segja að Heathers er með þeim glæsilegri og örugglega kraftmestur þeirra allra og skartar fleiri söngstjörnum en ég minnist áður. Takk fyrir mig.
Sýningar í Hofi hefjst klukkan 20.00. Önnur sýning er laugardaginn 12. mars, sú þriðja sunnudaginn 13. mars. Tvær sýningar verða svo í næstu viku, 17. og 18. mars. Miðar fást á www.mak.is og í miðasölu Hofs. Leikskrána með nánari upplýsingum má finna á www.mak.is