Fara í efni
Framhaldsskólar

„Ég hvet ykkur öll til að elta draumana ykkar“

Andrea Margrét Þorvaldsdóttir, nýútskrifaður rafvirki, flutti ávarp fyrir hönd brautskráningarnema. Mynd: Hilmar Friðjónsson

„Ég var haldin mikilli skólafælni en ákvað að stíga út fyrir þægindarammann og skella mér í þetta frábæra nám,“ sagði Andrea Margrét Þorvaldsdóttir þegar hún hélt ávarp í Hofi í gær, fyrir hönd brautskráningarnema úr Verkmenntaskólanum á Akureyri. Þar brautskráðust 140 nemendur frá skólanum.

Óhætt er að segja að Andrea Margrét, sem útskrifaðist af rafiðnbraut, var ekki hefðbundinn nemandi í VMA enda hafði hún orð á því sjálf.

„Ég er sennilega elsti nemandinn sem er að útskrifast hér í dag. Allavega í efri skalanum. Ég var 47 ára þegar ég ákvað að sækja um skólavist í Verkmenntaskólanum og varð fimmtug 17. maí síðastliðinn,“ sagði hún og bætti við: „Einn góður vinur minn sagði að það væri ótrúlegt að það væri fréttnæmt að ég fimmtug kjerlingin væri að útskrifast út Verkmenntaskólanum og bæri sennilega góðan vott um gáfnafar mitt þar sem flestir klára þetta í kringum 19 ára aldurinn.“

Þrjóska, eljusemi, metnaður

„Það var áskorun að byrja að læra að læra aftur. En með ákveðni, þrjósku, eljusemi og gríðarlegum metnaði þá tókst þetta og ég er að klára núna með prýðilega góðar einkunnir. En ég gerði þetta svo sannarlega ekki ein. Ég fékk mikla aðstoð frá samnemendum mínum og verð ég að nefna þá Atla Dag og Ævar sérstaklega sem og alla hina frábæru bekkjarfélaga mína og kennara sem hafa stutt mig og hvatt til dáða.“

Andrea Margrét að árin þrjú í skólanum hefði kennt henni margt, „bæði að það er ALLT hægt og svo það að aldur er bara tala. Ég hef eignast mikið af góðum vinum hér í skólanum, bæði á meðal nemenda og kennara. Ég mætti alltaf í skólann full tilhlökkunar og gleði.“

Síðan sagði Andrea Margrét: „Ég hvet ykkur öll til að elta draumana ykkar, ekki taka pásu frá náminu sé þess nokkur kostur. Það getur verið gríðarlega erfitt að byrja aftur í skóla. Ef þið fetið braut sem á ekki við ykkur þá breytið þið bara til og farið aðra leið í náminu. Við erum ekki tré og getum fært okkur til eins og þurfa þykir. Þið sem eldri eruð hér í salnum og eruð að velta því fyrir ykkur hvort þið eigið að fara í eitthvert nám, þá segi ég hiklaust við ykkur, ekki spurning! Skellið ykkur, það er enginn tími betri en annar og lífið bíður svo sannarlega ekki eftir okkur.“

Smellið hér til að lesa allt ávarp Andreu Margrétar Þorvaldsdóttur