Fara í efni
Forseti Íslands

Þriðjudagsfyrirlestur: Vídeólist og mennska

Þriðjudagsfyrirlestrar Listasafnins á Akureyri halda áfram. Í dag, þriðjudaginn 11. mars kl. 17 - 17.40 er komið að þýsku myndlistarkonunni Angeliku Haak. Fyrirlestur hennar ber heitið Video Art – Video-Portraits og er haldinn á Listasafninu. Aðgangur er ókeypis.

Í fyrirlestrinum, sem fer fram á ensku, fjallar Haak um listsköpun sína þar sem vídeó-portrett skipa stóran sess. Verk hennar dansa á mörkum málverks, ljósmyndar, skúlptúrs og vídeólistar. Fókusinn er á fólk og hugmyndir þeirra, hugsanaferli og hugsjónir. Í verkunum kannar Haak ítrekað uppbyggingu og afbyggingu sjálfsmyndar.

Angelika Haak er fædd 1971 í Stuttgart í Þýskalandi, en býr nú og starfar í Köln. Hún vinnur mest með blandaða tækni, sérstaklega vídeó. Hún hefur tekið þátt í alþjóðlegum sýningum í Þýskalandi og víðar. Haak er menntuð í listum og skúlptúr frá Nürtingen og Düsseldorf. Einnig nam hún heimspeki, þjóðfélagsfræði og mannfræði við Eberhard-Karls háskólann í Tübingen.

Hér er hlekkur á viðburðinn á Facebook.

Fyrirlestraröðin er samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Verkmenntaskólans á Akureyri, Myndlistafélagsins og Gilfélagsins. Aðrir fyrirlesarar vetrarins eru myndlistarkonan Brynja Baldursdóttir og fulltrúar Myndlistarfélagsins.