Fara í efni
Forseti Íslands

Takk fyrir, Guðni og Eliza – MYNDIR

Forsetahjónin, Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid, við upphaf opinberrar heimsóknar til Akureyrar 26. ágúst 2013. Ljósmynd: Daníel Starrason

Guðni Th. Jóhannesson lætur af embætti forseta Íslands á miðnætti eftir átta ár á Bessastöðum. Halla Tómasdóttir, sem kjörin var forseti 1. júní síðastliðinn, verður sett í embætti við hátíðlega athöfn í Alþingishúsinu á morgun.

Guðni Th. var kjörinn forseti lýðveldisins árið 2016 og endurkjörinn 2020. Hann hefur í forsetatíð sinni komið til Akureyrar og nágrennis í nokkur skipti, einn síns liðs eða með Elizu Reid eiginkonu sinni. Sá sem þetta ritar hefur gjarnan hitt forsetann á ferðum hans og fylgt  um stund, fyrstu árin fyrir Morgunblaðið og síðan Akureyri.net. Í tilefni tímamótanna er við hæfi að birta nokkrar myndir úr ferðum Guðna eða þeirra hjóna á síðustu átta árum og þakka um leið fyrir einstaklega ánægjuleg samskipti.

2016
Kosningaskrifstofa Guðna var opnuð á Akureyri 1. júní. Þau Eliza brugðu sér norður af því tilefni.

Myndir: Skapti Hallgrímsson

2017
Forseti Íslands var viðstaddur hátíðardagskrá í Samkomuhúsinu 19. apríl í tilefni aldarafmælis Leikfélags Akureyrar. Hér er hann ásamt fjórum leikhússtjórum LA; frá vinstri: Signý Páls­dótt­ir, Magnús Geir Þórðar­son, Jón Páll Eyj­ólfs­son, þá­ver­andi leik­hús­stjóri, Viðar Eggerts­son og Guðni Th. Jó­hann­es­son.

Mynd: Skapti Hallgrímsson

2018
Forsetinn sótti Akureyri heim um miðjan febrúar. Hann var viðstaddur samkomu verkalýðsfélagsins Einingar-Iðju í tilefni útkomu bókar um sögu félagsins eftir Jón Hjaltason sagnfræðing. Sama dag skoðaði hann Sjúkrahúsið á Akureyri í fylgd forstjóra og annarra stjórnenda og var viðstaddur þegar Hollvinasamtök Sjúkrahússins afhentu stofnunni að gjöf svokallaða ferðafóstru, sjúkraflutningatæki fyrir börn. Á myndinni er Guðni ásamt Bjarna Jónassyni forstjóra SAk, til vinstri, og Jóhannesi Gunnari Bjarnasyni, formanni Hollvina.

Mynd: Skapti Hallgrímsson

2020
Forsetahjónin, Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid, buðu til opins fundar í Lystigarðinum sunnudaginn 14. júní þar sem þau ræddu við gesti um árin á Bessastöðum og framtíðarsýn sína. Guðni tilkynnti í áramótavarpi að hann hygðist gefa kost á sér áfram og kosningar fóru fram 27. júní. Eftir fundinn í Lystigarðinum skaust Guðni í Minjasafnið á Akureyri og skoðaði m.a. sýninguna Tónlistarbærinn Akureyri í fylgd Haraldar Þórs Egilssonar safnstjóra.

2021
Forseti Íslands skoðaði í lok september sýninguna „Tímahylkið í tíð kórónuveirunnar“ á Safnasafninu á Svalbarðsströnd. Á sýningunni voru verk unnin út frá upplifun á áhrif Covid-19 á daglegt líf; um var að ræða samstarfsverkefni nemenda og kennara í leikskólanum Álfaborg og grunnskólanum, Valsárskóla.

Bríet Sunna Grétarsdóttir og Bjarni Heiðar Stefánsson sýna forsetanum hluta sýningarinnar. Til hægri er Hanna Sigurjónsdóttir, deildarstjóri á leikskólanum Álfaborg. Myndir: Skapti Hallgrímsson

Eyrún Dröfn Gísladóttir í hlutverki leiðsögumanns forsetans.

„Ég sá þig í sjónvarpinu,“ sagði Nökkvi Rafn Ingþórsson þegar hann vatt sér að forsetanum á sýningunni. Þeir ræða þarna saman en á myndinni eru líka Elísabet Ásgrímsdóttir starfsmaður Valsárskóla, Unnur Dúa Sigurðardóttir, Björg Erlingsdóttir sveitarstjóri og Lilja Jakobsdóttir.

Myndir: Skapti Hallgrímsson.

2022
Guðni Th. Jóhannesson kom í óopinbera heimsókn til Akureyrar 12. og 13. febrúar. Hann var m.a. viðstaddur frumsýningu Leikfélags Akureyrar á Skugga Sveini, hitti Ásthildi Sturludóttur bæjarstjóra að máli í Listasaafninu á Akureyri þar sem þau gengu um sali og skoðaði Hælið í Kristnesi - setur um sögu berkla. Þá fylgdist forsetinn með leik KA og Stjörnunnar á Íslandsmótinu í handbolta þar sem lærisveinar Patreks bróður hans töpuðu fyrir KA-mönnum.

Leikarar með forseta Íslands að lokinni frumsýningu Leikfélags Akureyrar á Skugga Sveini. Standandi frá vinstri: Vala Fannell, Vilhjálmur B. Bragason, Jón Gnarr, Guðni Th. Jóhannesson, Sunna Borg og Björgvin Franz Gíslason. Krjúpandi frá vinstri: Árni Beinteinn, Þórdís Björk Þorfinnsdóttir og María Pálsdóttir. Mynd: Skapti Hallgrímsson.


Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, og forseti Íslands, á Listasafninu. Mynd: Skapti Hallgrímsson

María Pálsdóttir, eigandi Hælisins, lengst til hægri, foreldrar hennar Anna Guðmundsdóttir og Páll Ingvarsson, Ólafur Ingimarsson, eiginmaður Maríu, og Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands. Mynd: Skapti Hallgrímsson.


Forseti Íslands og María Pálsdóttir, eigandi Hælisins, setja sig í spor þeirra sem fóru í ljósameðferð á árum áður. Mynd: Skapti Hallgrímsson.


Páll Ingvarsson, faðir Maríu Pálsdóttur, myndar dóttur sína og forseta lýðveldisins þegar hann hélt brott af Hælinu. Mynd: Skapti Hallgrímsson


Guðni Th. Jóhannesson, bróðir Patreks Jóhannessonar þáverandi þjálfara handboltaliðs Stjörnunnar, fylgist með KA-mönnum kyrja sigursönginn að leikslokum! Guðni stendur á milli Ingvars Más Gíslasonar, þáverandi formanns KA, og eiginkonu hans, Hildu Jönu Gísladóttur. Fyrir framan þau eru foreldrar KA-mannsins Dags Gautasonar sem þá lék með Stjörnunni, Gauti Einarsson og Hafdís Bjarnadóttir. Mynd: Skapti Hallgrímsson.

Bræður að leikslokum í KA-heimilinu; Patrekur Jóhannesson, þjálfari Stjörnunnar, og Guðni Th., forseti lýðveldisins. Mynd: Skapti Hallgrímsson

2022
Í apríl þáði Guðni boð Leikfélags Hörgdæla og sá söngleik Péturs Guðjónssonar, Í fylgd með fullorðnum, á Melum.


Guðni Th. ásamt öllum sem komu að sýningu Leikfélags Hörgdæla á Melum. 

2022
Forsetinn var aftur á Akureyri 4. júní þegar Flóra menningarhús var opnað á Sigurhæðum. Þar flutti hann ávarp eins og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri. 

Á Sigurhæðum. Kristján Ingimarsson leikari, Halla Björk Reynisdóttir þáverandi forsæti bæjarstjórnar á Akureyri og Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.

Halla Björk Reynisdóttir, bæjarfulltrúi, fangaði bráðfyndið augnablik þegar Flóra menningarhús var opnað á Sigurhæðum á dögunum. Ljósmyndarinn Sindri Swan var í þann mund að smella mynd af fimmmenningunum þegar hann bakkaði aðeins of langt og datt aftur fyrir sig inn í runna. Honum varð ekki meint af, svo auðvelt var að gantast með atvikið eftir á. Á myndinni eru, frá vinstri, Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri, Kristín Þóra Kjartansdóttir, verkefnisstjóri, Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, Þórarinn Blöndal, sem hannaði sýninguna á Sigurhæðum, og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.

2023
Forseti lýðveldisins skoðaði Smámunasafn Sverris Hermannssonar í Sólgarði í Eyjafjarðarsveit í mars. Sigríður Rósa Sigurðardóttir, safnstýra, sýndi Guðna Th. það ævintýri sem safnið er og einnig Saurbæjarkirkju, sem er steinsnar frá Sólgarði.

Sverri Hermannssyni var veitt fálkaorðan á sínum tíma. Henni ber að skila við andlát orðuhafa en forsetaembættið gaf sérstakt leyfi til þess að orðan yrði til sýnis á Smámunasafninu. Myndir: Skapti Hallgrímsson


Sigríður Rósa Sigurðardóttir, safnstýra Smámunasafnsins, Guðni Th. Jóhannesson.


Snjór hindraði för að Saurbæjarkirkju. Ríkarður Már Ríkarðsson forsetabílstjóri vippaði sér fimlega yfir grindverkið og tók til óspilltra málanna vopnaður skóflu eftir að Sigríður Rósa Sigurðardóttir hafði mokað frá hliðinu hinum megin.


2023
Í júní var Guðni Th. Jóhannesson viðstaddur útskrift úr árlegum Vísindaskóla unga fólksins í Háskólanum á Akureyri.

Fjölmennt var við útskrift úr Vísindaskóla unga fólksins í Háskólanum.

Tveir nemenda Vísindaskóla unga fólksins, Benedikt Már Þorvaldsson og Bríet Laufey Ingimarsdóttir, spurðu forseta Íslands spjörunum úr. Sigrún Stefánsdóttir skólastjóri til hægri.

Irena Rut Jónsdóttir söng tvö lög við athöfnina.


Margir nemenda Vísindaskóla ungu fólksins fengu mynd af sér með Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, að útskriftarathöfninni lokinni.

2023
Forsetahjónin komu síðan í opinbera heimsókn til Akureyrar í fyrsta skipti 25. og 26. ágúst, á Akureyrvöku.

Opinber heimsókn forsetahjónanna til Akureyrar hófst að morgni föstudags. Börn úr elstu deildum leikskólanna Hólmasólar og Iðavalla sungu þá nokkur lög fyrir hjónin við fánastöngina stóru efst í Listagilinu áður en Heimir Örn Árnason, formaður bæjarráðs, dró fána að húni. Myndir: Skapti Hallgrímsson

Forsetahjónin og Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri syngja með börnunum.

Guðni Th. heilsar börnum í Naustaskóla Mynd: Daníel Starrason.

Forsetinn kemur í Verkmenntaskólann á Akureyri. Sigríður Huld Jónsdóttir skólameistari til hægri. Myndir: Hilmar Friðjónsson.

Forsetahjónin og Jón Þór Sigurðsson, verkefnastjóri FabLab Akureyri sem er til húsa í VMA, veifa í vefmyndavél sem er beint til annarra FabLab starfstöðva á Íslandi og víðar. Til hægri er Árni Björnsson tæknifulltúi og starfsmaður FabLab.


Forsetahjónin heimsóttu hjúkrunar- og dvalarheimilið Hlíð. Þar ræddu þau við starfsfólk og íbúa, og snæddu hádegisverð í matsalnum. Mynd: Þorgeir Baldursson

Forsetinn í Iðnaðarsafninu á Akureyri. Mynd: Þorgeir Baldursson

Forsetahjónin heimsóttu Skógarlund, miðstöð virkni og hæfingar, þar sem Ragnheiður Júlíusdóttir, forstöðumaður miðstöðvarinnar, kynnti þeim starfsemina sem felst m.a. í stuðningi við fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Mynd: Daníel Starrason

Forsetahjónin í heimsókninni í Skógarlund, miðstöð virkni og hæfingar. Mynd: Þorgeir Baldursson

Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands og Halla Björk Reynisdóttir forseti bæjarstjórnar Akureyrar vígðu leikskólann Klappir formlega með því að klippa á borða. Nemendurnir Helgi Þór Einarsson og Fríða Nótt Einarsdóttir hjálpuðu til með því að halda í borðinn. Ljósmynd: Daníel Starrason


Mynd: Skapti Hallgrímsson


Arna Líf Reynisdóttir, nemandi á leikskólanum Klöppum, færði forsetahjónunum mynd að gjöf eftir að Guðni tók þátt í að vígja skólann formlega. Mynd: Skapti Hallgrímsson


Forseti lýðveldisins stóðst ekki mátið að fara eina ferð niður þessa flottu rennibraut á Klöppum. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Forsetinn ásamt fríðu föruneyti í Slippnum - Akureyri. Mynd: Daníel Starrason.


Guðni Th. Jóhannesson og Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri. Forseti Íslands færði Akureyrarbæ þessa glæsilegu ljósmynd að gjöf; myndin er frá heimsókn Sveins Björnssonar, fyrsta forseta lýðveldisins, til Akureyrar árið 1944. Forsetinn afhenti gjöfina við setningu Akureyrarvöku í Lystigarðinum á föstudagskvöldið. Ljósmynd: Þorgeir Baldursson


Forseti Íslands setti Akureyrarvöku í Lystigarðinum á föstudagskvöldinu á viðburði sem kallaður var Rökkurró. Myndir: Skapti Hallgrímsson


Forsetinn fór út að skokka í bítið á laugardeginum og fjöldi fólks hljóp með honum. Mynd: Þorgeir Baldursson

Mynd: Daníel Starrason

Forsetahjónin fóru í sögugöngu um Innbæinn að morgni laugardags. Hér eru þau ásamt hópi fólks í garðinum við Laxdalshús þar Hörður Geirsson frá Minjasafninu fræddi þau um húsið og ýmislegt annað í Innbænum. Myndir: Skapti Hallgrímsson

Í sögugöngunni vígðu forsetahjónin hvort sinn „söguljósastaur“ þar sem fræðast má um sögu bæjarhlutans. Hér er Eliza við Aðalstræti 6, sögufrægt hús þar sem Vilhelmina Lever tók þátt í opinberum kosningum, fyrst íslenskra kvenna – bæjarstjórnarkosningunum 1863.


Forsetahjónin litu við og brugðu á leik í Garðinum hans Gústa – körfuboltavelli sem komið var upp við Glerárskóla í minningu Ágústs H. Guðmundssonar körfuboltaþjálfara hjá Þór. Myndir: Skapti Hallgrímsson

Forsetahjónin með þremur af vinum Ágústs heitins sem komu að gerð vallarins. Frá vinstri: Björn Sveinsson, Guðmundur Ævar Oddsson, Guðni Th. Jóhannesson, Eliza Reid og Jón Ingi Baldvinsson.

Listagilið var síðasti viðkomustaður forsetahjónanna í heimsókninni. Haldið var upp á 30 ára afmæli safnsins á Akureyrarvöku og forsetinn flutti opnunarávarp þegar fimm sýningar voru opnaðar. Hlynur Hallsson, safnstjóri Listasafnsins á Akureyri, Eliza Reid og Guðni Th. Jóhannesson. Mynd: Þorgeir Baldursson