Fara í efni
Flugsafn Íslands

Matarkistan Pollurinn og Niðursuðuverksmiðjan

Myndir: Minjasafnið á Akureyri

SÖFNIN OKKAR – XXVII

Frá Iðnaðarsafninu á Akureyri_ _ _

Akureyri.net heldur áfram að opna dyr safnanna í bænum lesendum til fróðleiks og skemmtunar. Það er gert vikulega, á fimmtudögum.

Pollurinn, innsti hluti Eyjafjarðar, var oft kallaður matarkista Akureyrar ekki síst vegna síldarinnar sem þangað gekk og hægt var að moka upp í flæðarborðinu. Á Oddeyrartanga var slíkur fiskur verkaður og lagður í stórum stíl í dósir um áratuga skeið í Niðursuðuverksmiðju K.Jónssonar &Co.

Fyrirtækið var stofnað 13. nóvember 1947 af Jóni Kristjánssyni og sonum hans Kristjáni, Mikael og Jóni Árni ásamt Hjalta Eymann, verkstjóra. Kristján var frá upphafi stjórnandi og stjórnarformaður þess. Á síðari stigum komu Samherji og Sæplast á Dalvík inn í rekstur K.Jónssonar.

Aðdragandinn var þó lengri. Jón var vanur maður úr síldarsöltun, hafði verið verkstjóri hjá Ottó Tulinius og víðar, en einnig rekið eigin söltunarstöð á Akureyri. Jón hafði kynnst lagmetisiðnaðinum í gegnum kunningja frá Norðurlöndunum sem höfðu með sér mikið af dósamat í heimsóknum til Akureyrar. Þetta vakti forvitni Jóns sem sá í þessu tækifæri. Synir hans fóru á 4. áratugnum til Svíþjóðar, Danmerkur og Þýskalands til að vinna í niðursuðuverksmiðjum þar til heimsstyrjöldin braust út. Hugmyndin beið betri tíma. Haustið 1947 höfðu Jón og synir hans leigt húsnæði á Oddeyrartanga og lagt niður 1000 tunnur af kryddsíld sem seld var til Bandaríkjanna. Þrátt fyrir efasemdaraddir varð ekki aftur snúið.

Í verksmiðjunni á Oddeyrartanga var í fyrstu soðin niður smásíld og sardínur við frumstæðar aðstæður en starfsemin óx jafnt og þétt í takt við uppganginn í síldveiðum. Byggt var reykhús, og árið 1960 var verksmiðjan stækkuð og keyptar fullkomnar vélar með það að markmiði að selja framleiðsluna á erlendan markað, einkum til ríkja í Austur-Evrópu. Þar var mikilvægasti markaðurinn í Sovétríkjunum (Rússland). Frá 1963 til 1990 fór hver skipsfarmurinn af öðrum af gaffalbitum til Rússlands þar til markaðurinn lokaðist.

Þegar síldin hvarf af Íslandsmiðum seint á 7. áratugnum var hún flutt inn sem hráefni. Framleiðsluvörurnar urðu einnig fjölbreyttari. Árið 1976 hófst framleiðsla á niðursoðinni rækju og síðar frystri, sem einkum var ætluð á Þýskalandsmarkað.

Fjölbreytnin jókst enn frekar í framleiðslunni með niðursoðnu grænmeti, fjölbreyttum tegundum af síld, reyktri loðnu, kavíar (grásleppuhrognum), fiskbúðingi og fiskibollum í dós. Breyttir neysluhættir og aukið framboð af ferskmeti ásamt síldarbresti gerðu reksturinn erfiðan og þegar markaðir í Austur-Evrópu lokuðust var útséð um starfsemi fyrirtækisins sem hætti starfsemi 12. mars 1993.