Fara í efni
Flugsafn Íslands

Fjölbreytt, skemmtileg og falleg Akureyrarvaka

Fallegt er það! Fjöldinn á valdi Emmsjé Gauta á Ráðhústorgi í gærkvöldi. Mynd: Hilmar Friðjónsson

Falleg stemning var og fjölmenni saman komið á Ráðhústorgi í gærkvöldi þegar Akureyrarvaka, prýðileg afmælishátíð höfuðstaðar Norðurlands, náði hámarki með aldeilis frábærum tónleikum. Hnjúkaþeyr hafði strítt bæjarbúum allan daginn með mikilli mengun af þurru hálendinu; hávaðarok úr suðri, sá hlýi og þurri vindur sem blæs af fjöllum, en meira að segja hann staðnæmdist og lagði við hlustir í margmenninu. 

Bubbi Morthens og hljómsveit hans ráku smiðshöggið á frábæra tónleika á Ráðhústorgi. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Hver viðburðurinn rak annan frá morgni til kvölds og þeir síðustu sem stóðu vaktinu voru norðlenska hljómsveitin Skandall, og gæða listamenn sem bar norður með sunnanáttinni – Skítamórall, Una Torfa, Emmsjé Gauti og Bubbi kóngur Morthens, sem rak smiðshöggið á frábæra tónleika ásamt hljómsveit sinni.

Akureyrarvöku lýkur í dag; víkingar sem lögðu MA-túnið vestan Lystigarðsins undir sig í gær eru þar enn og í kvöld verður boðið upp á áhugaverðan ljóðajazz í Hofi. Þar leiða saman hesta sína Einar Már Guðmundsson, einn þekktasti rithöfundur Íslands, og danski saxafónleikarinn Dorthe Höjland og bjóða upp á verkið Augnablikið og eilífðin sem þau hafa unnið að saman.
 
  • Meira síðar um Akureyrarvöku

Einn fjölmargra viðburða „úti í bæ“ – tónleikar í garðinum að Ásvegi 29. Mynd: Hilmar Friðjónsson

Rökkurró – setningarathöfn Akureyrarvöku í Lystigarðinum á föstudagskvöld. Mynd: Hilmar Friðjónsson