Fara í efni
Flugsafn Íslands

80 ár í dag síðan Fairey Battle fórst

Fairey Battle - vél úr sömu flugsveit og sú sem fórst á Vaksárjökli, milli Öxnadals og Eyjafjarðar, 26. maí 1941.

Í dag eru 80 ár síðan Fairey Battle flugvél breska hersins fórst á Vaksárjökli, milli Öxnadals og Eyjafjarðar. Á Flugsafni Íslands á Akureyri eru til sýnis ýmsir munir sem fundust í flaki vélarinnar þegar hún kom í leitirnar síðsumars 1999, tæpum 60 árum eftir slysið – eftir 20 ára leit og þrautseigju Harðar Geirssonar, flugmanns og safnvarðar Minjasafnsins á Akureyri, sem nú er einmitt formaður stjórnar Flugsafnsins.

Fairey Battle flugvélin var hönnuð og smíðuð á árunum fyrir seinni heimsstyrjöldina fyrir Konunglega breska flugherinn – Royal Air Force (RAF), og var fyrsta vélin í flugflota Breta sem var nánast öll smíðuð úr málmi, að því er segir á heimasíðu Flugsafns Íslands, þar sem fjallað er ítarlega um vélina og slysið.

Þar segir að við upphaf styrjaldarinnar hafi Fairey Battle verið send til orrustu í Frakklandi en reynst úrelt, fyrst og fremst vegna þess hve hægfleyg hún var og illa vopnum búin. RAF tók hana úr fremstu víglínu og flugsveitirnar voru flestar sendar til Samveldislandanna, einkum Kanada og Ástralíu, þar sem Fairey Battle var helst notuð til að þjálfa flugmenn.

18 vélar til Íslands

Ein flugsveit var send til Íslands, alls 18 Fairey Battle vélar, og komu þær til landsins 27. ágúst 1940. Hlutverk flugsveitarinnar var að verjast flugvélum Þjóðverja sem gætu reynt að gera árásir á landið, auk þess að sinna eftirliti.

Flugvélin sem fórst á Vaksárjökli var m.a. notuð til að leita að orrustuskipinu Bismarck er það sigldi norður fyrir Ísland, og dagana áður en flugmaðurinn, Arthur Round, fórst ásamt þremur öðrum, fór hann í leitarflug meðfram allri suðurströnd Íslands, austur fyrir land og allt norður í haf, norður af Langanesi, en án árangurs.

Forsaga slyssins er að 13. maí 1941 fóru nokkrar Fairey Battle flugvélar frá Kaldaðarnesi við Selfoss í hópflugi til Akureyrar með Curtis hershöfðingja, nýjan yfirmann breska heraflans hér á landi. „Eftir lendingu á Melgerðismelum í Eyjafirði var mannskapnum ekið til Akureyrar á opnum herjeppum. Á þeirri leið voru margar beygjur og þröngar brýr á þeim tíma og valt einn herbílanna með þeim afleiðingum að nokkrir af flugliðunum slösuðust, enginn þó alvarlega. Voru þeir sem meiddust fluttir á spítalaskipið Leinster sem þá lá við Akureyrarhöfn.“

Aldrei fæst skýring á slysinu

Það var síðan 26. maí 1941 sem þessi flugvél og Arthur Round flugmaður hennar fóru í þessa afdrifaríku ferð til að sækja félaga sína, og koma þeim suður á Kaldaðarnes.

Round hóf sig á loft frá Kaldaðarnesi að morgni dags og flaug sem leið lá norður til Eyjafjarðar „og komst með því að fljúga alveg niður við jörð niður í Eyjafjörð og lenda á Melgerðismelum um hádegisbil. Með honum í þessari ferð var Reginald Hopkins. Þeir stoppuðu stutta stund án þess að drepa á mótornum, rétt til að tveir félagar þeirra gætu hoppað um borð, það voru þeir Keith Garret og Henry Talbot.“

Flugvélin hóf sig á loft til norðurs og flaug út fjörðinn allt til Akureyrar „þar sem hún tók til við að hringa sig upp í ský. Þetta er gert til að ná hæð á þekktum stað, síðan er hæðinni er náð er kompásstefna notuð til að fljúga rétta leið til Kaldaðarness.“

Á vef Flugsafnsins kemur fram að aldrei verði hægt að segja til um það með vissu hver orsök flugslyssins var, hins vegar sé hægt að geta í eyðurnar. „T.d. sést á staðsetningu flaksins að vélin var á réttri flugstefnu, svo hann var ekki að villast. Á brotlendingarstefnu flaksins sést að flugmaðurinn hefur verið í nauðbeygju til hægri er hún skall í jörðina. Ekkert af því sem fundist hefur getur greint frá því hvað gerðist nánar.“

Þrautseigja Harðar

Árið 1980 hóf Hörður Geirsson að leita að flugvélinni, sem enginn hérlendis vissi þá að hefði í raun fundist nokkrum dögum eftir slysið. „Eftir samtöl við marga einstaklinga sem voru kunnugir á svæðinu hóf Hörður fyrstu leit sína, sem stóð yfir í viku. Leitaði hann í dölunum á móts við Bakkasel í Öxnadal en fann ekkert. Aðal ástæðan var sú, að hann fór of snemma sumars og að jöklar á Íslandi voru í sögulegu hámarki á þessum tíma.“

Hörður fór fjölmargar ferðir á næstu tveimur áratugum. Það var svo 1999, þegar Friðþór Eydal var að safna efni í stríðsárabók sína í Public Record Office í London, að kona Friðþórs, Hrefna Kristjánsdóttir, fann í skjalabunka skýrslu leitarflokksins sem fann vélina í lok maí 1941. „Þar með var komin staðsetning á flakinu og þá var bara að bíða haustsins, og fannst brotlendingarstaður vélarinnar 21. ágúst 1999. Þeir sem fundu vélina voru Arnar Össur Harðarson, Örn Arnarsson, Skúli Árnason og Hörður Geirsson.“

  • Að ofan: Hörður Geirsson, sem leitaði að flugvélinni í tvo áratugi.

Heimasíða Flugsafns Íslands

Liðsmenn 98. flugsveitar konunglega breska flughersins (RAF) eftir komuna til Kaldaðarness.

 

Það vakti töluverða athygli þegar Fairey Battle vélin fannst árið 1999. Að neðan: úrklippur úr bresku dagblöðunum Daily Express og The Sun, og NZ Herald á Nýja-Sjálandi.