Fara í efni
Flokkur fólksins

Vér svikarar

Inga Sæland kallar mig svikara. Ég er sammála henni um forsendur alhæfingarinnar. Pólitískt kjörinn fulltrúi fylgir sínum flokki ella víkur hann úr störfum á hans vegum og eftirlætur þau öðrum. Þar með er ég kominn í mótsögn við sjálfan mig og skulda kjósendum skýringar á þeirri ákvörðun minni sitja sem fastast í skipulagsráði Akureyrarbæjar.

Tildrögin að þessari úlfakreppu eru þau að 13. september síðastliðinn lýstu þrjár konur, Málfríður Þórðardóttir (MÞ), Tinna Guðmundsdóttir (TG) og Hannesína Scheving Virgild Chester (HC) því yfir að þær hefðu orðið fyrir kynferðislegri áreitni og andlegu ofbeldi af minni hálfu. Að þeirra sögn hefur þetta einstaklega grófa einelti staðið yfir „frá því snemma í vor.“

Varaformaður Flokks fólksins (Ff), Guðmundur Ingi Kristinsson (GK), er vel að sér í þessu máli en hann staðhæfir að sér hafi ítrekað borist fréttir af þessari „ótrúlega niðrandi og fyrirlitlegu framkomu.“ Og formaður Ff, Inga Sæland, álasar okkur fyrir að hafa „aldrei hlustað á hvað konunum leið illa.“

Þetta er hins vegar ekki rétt hjá formanninum. Við hlustuðum og þetta heyrðum við.

  •  

Þann 11. júní er haldinn fundur norðan heiða. Inga Sæland er viðstödd. Við Brynjólfur Ingvarsson, oddviti Ff á Akureyri, fáum orð í eyra fyrir að hafa ekki staðið okkur þegar kom að skipun í nefndir á vegum bæjarins. Gagnrýnin er réttmæt. Við játum mistök. Fundinum lýkur í mikill eindrægni og sátt. Inga Sæland minnir á að það sé mannlegt að gera mistök.

Ekki orð um meint kynferðislegt áreiti hvað þá svæsið einelti.

  •  

Tveimur mánuðum síðar, eða þann 14. ágúst, stjórnar Jakob Frímann vel heppnaðri skemmtun flokksins í Lystigarðinum. Inga Sæland mætir öðru sinni norður, tekur lagið og allir eru glaðir. Hún skrafar nokkra stund við undirritaðan og enn lengur við Hjörleif nokkurn Hallgríms.

Enginn minnist á kynferðislegt áreiti né heldur svæsið einelti.

  •  

Svo gerist eitthvað þriðjudaginn 6. september. Inga Sæland talar við mig í síma og úthúðar Brynjólfi Ingvarssyni. Fyrir honum vaki það eitt að sundra og grafa undan flokknum, hann sé „andsetinn af Halldóri í Holti“ – hennar orð – en þeir tveir hafi bruggað henni launráð um nokkurt skeið. Í máli sínu kemur hún að því oftar en einu sinni að stjórn Ff muni funda seinna þennan sama dag og þar verði Brynjólfi gerðir tveir kostir, að fara strax í veikindaleyfi annars verði hann rekinn úr flokknum.

En takið eftir: þrátt fyrir að þetta samtal standi drjúga stund og Inga Sæland hafi orðið nær allan tímann, og finni Brynjólfi flest til foráttu, minnist hún ekki einu orði á kynferðislegt áreiti né heldur svæsið einelti sem konurnar þrjár hafa þá mátt sæta í fimm mánuði.

  •  

Þennan sama dag heimta áðurnefndar þrjár konur að við fundum – þetta er vissulega fyrir fram ákveðinn fundardagur – en Brynjólfur getur ekki mætt og ég þykist vita hvað klukkan slær og fer fram á að fundinum sé frestað.

Málfríður skrifar (hún er að vísu í burtu, ef til vill á höfuðborgarsvæðinu, en ætlar að mæta til fundarins á skype): „Á fundinum munum við leggja fram mikilvæga ályktun og því er brýnt að sem flestir mæti.“

Ég svara: „ Ályktun sem snýst um Brynjólf ekki satt?“ Og spyr hvort ég megi sjá ályktunina.

Málfríður svarar: „Ályktunin verður samin í kvöld og þeir sem vilja skrifa undir hana gera það, aðrir ekki.“

Tinna leggur orð í belga: „Gætir þú Jón ekki mætt þó það sé ekki nema hálftími?“

Mér er ofboðið. Konurnar eru harðákveðnar í að koma Brynjólfi í veikindafrí. Eða vilja þær jafnvel reka hann úr flokknum? Ég fer því enn fram á frestun og skrifa: „Gagnrýnum hann [Brynjólf] augliti til auglitis en ekki að honum fjarstöddum, að því er lítill manndómsbragur.“

Við því er ekki orðið en takið eftir. Í þessum skeytum sem þarna fara á milli okkar minnast þær Málfríður Þórðardóttir og Tinna Guðmundsdóttir aldrei á ofbeldið sem þær hafa mátt sæta. Það fellur ekki eitt einasta orð um kynferðislegt áreiti eða ofbeldisfulla hegðun okkar Brynjólfs síðan „snemma í vor.“ Og það sem meira er, ekki verður með nokkru móti lesið úr þessum skeytasendingum að í hlut eigi konur beygðar til hlýðni af ofbeldisfullum karlpungum.

  •  

Seinna í vikunni er enn fundað. MÞ heldur tölu um hvað henni þyki vænt um Brynjólf og hafi miklar áhyggjur af heilsufari hans. Þegar MÞ hliðrar sér ítrekað hjá því að svara spurningu sem snýr að heiðarleika í samskiptum ber undirritaður í borð.

Málfríður Þórðardóttir víkur í ræðu sinni ekki einu orði að kynferðislegri áreitni né einelti. Er þó kominn 10. september og konurnar þrjár mánuðum saman átt í „einstaklega taugatrekkjandi“ samstarfi við mig sem olli „okkur öllum ómældri vanlíðan og kvíða“, segja þær fullum fetum aðeins þremur dögum síðar.

  •  

Hinn 13. september er loks þetta tvennt, kynferðislegt áreiti og lúalegt einelti, orðið það sem okkur „ónefndri karlaforystu“ flokksins á Akureyri er gefið að sök og Guðmundi Inga varaformanni Ff „ítrekað borist fregnir af“ (hans eigin orð).

Við hin „ónefnda karlaforysta“ komum hins vegar af fjöllum. Þessar sakargiftir hafa aldrei verið nefndar í okkar eyru, Inga Sæland aldrei reynt sættir eins og hún vill þó vera láta, hvað þá að varaformaðurinn hafi borið þessar ávirðingar undir okkur áður en hann hleypti þeim í loftið fyrir alþjóð að sjá.

Nú verður hver að dæma fyrir sig en í mig er hlaupin kergja. Ég skil hins vegar gagnrýni Ingu Sæland og er reiðubúinn að víkja ef stjórn flokksins hrindir í framkvæmd eigin samþykkt um að skipa hlutlausa rannsóknarnefnd er fari ofan í kjölinn á þessu máli. Síðan verði haldinn blaðamannafundur í húsakynnum Flokks fólksins þar sem konurnar þrjár, formaður og varaformaður játi mistök, biðjist afsökunar og dragi allan ósómann til baka - því ég er ekki í nokkrum vafa um niðurstöðu slíkrar rannsóknar.

Með þökk fyrir birtinguna

Jón Hjaltason er sagnfræðingur og var í 3. sæti á lista flokksins fyrir bæjarstjórnarkosningarnar í vor.