Fara í efni
Flokkur fólksins

Norðurorka farin að nýta glatvarma frá TDK

Baldur Viðar Jónsson, staðgengill yfirvélfræðings hjá Norðurorku, Gunnar Gunnarsson, viðhaldsstjóri TDK, og Eyþór Björnsson, forstjóri Norðurorku. Í baksýn má sjá varmaskiptana tvo sem nýtast við föngun glatvarma frá álþynnuverksmiðjunni TDK. Mynd: Norðurorka.

Glatvarmi frá álþynnuverksmiðju TDK í Krossanesi var í fyrsta skipti nýttur inn á kerfi Norðurorku síðastliðinn föstudag og verður varmavinnslan tröppuð upp hægt og rólega. Þetta kemur fram í frétt á vef Norðurorku

Í lok mars í fyrra var undirrituð viljayfirlýsing milli Norðurorku og álþynnuverksmiðju TDK í Krossanesi um nýtingu glatvarma frá verksmiðjunni. Akureyri.net fjallaði einnig um málið í einni af greinum um starfsemi Norðurorku í nóvember í fyrra. 

Glatvarmi er varmaorka sem skapast í framleiðsluferlum og hverfur ónýtt til umhverfisins. Í aflþynnuverksmiðju TDK er miklu magni af sjó dælt inn á kælikerfi verksmiðjunnar til að kæla vélar hennar, en honum svo dælt aftur heitum í hafið án þess að varmaorkan hafi verið nýtt, en nú er orðin breyting á. Í þessu samstarfsverkefni fyrirtækjanna er glatvarminn virkjaður með varmadælum þar sem bakrásarvatn úr hitaveitukerfi Norðurorku er nýtt til kælingar í framleiðsluferli TDK. „Hér er því um dýrmæta nýtingu að ræða á orku sem annars færi til spillis sem og mikilvæga búbót fyrir samfélagið,“ segir meðal annars í frétt Norðurorku.


Verksmiðja TDK Foil Iceland í Krossanesi. Samstarf Norðurorku og TDK um nýtingu glatvarma gæti skilað stórbættri nýtingu á heitu vatni. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Í frétt Norðurorku segir einnig:

Ferlið

Þann 30. mars 2023 var undirrituð viljayfirlýsing milli Norðurorku og álþynnuverksmiðju TDK um nýtingu glatvarma frá verksmiðju TDK. Framleiðsla á álþynnum eða aflþynnum til notkunar í rafeindabúnaði er orkufrek og skilar frá sér miklum varma sem hægt er að nýta til t.d. húshitunar. Í framhaldi af undirritun viljayfirlýsingarinnar var framkvæmd könnun á möguleika Norðurorku á nýtingu varmans. Að svo stöddu er magn bakrásarvatns takmarkandi þáttur í nýtingu innan hitaveitukerfisins en ekki er mögulegt að nota hvaða vatn sem er inn á kerfið vegna hættu á útfellingum og súrefnismengun sem veldur tæringu í lögnum. Verkfræðistofan Efla vann umrædda könnun ásamt starfsfólki Norðurorku.

Könnun Eflu leiddi í ljós að hægt væri að nýta milli 8 og 12MW af varmaafli með núverandi bakrásarkerfi og var lögð til tenging við bakrásarkerfi í Hlíðarbraut og að upphituðu vatni yrði skilað inn á aðveituæð frá Hjalteyri. Þetta var þó háð nokkurri óvissu þar sem uppbygging bakrásarkerfis hefur miðast við nýtingu í kyndistöð við Mímisbraut. Efla vann hönnun og útboðsgögn vegna lagna að og frá verksmiðju TDK og í framhaldi af útboði var samið við lægstbjóðanda Ísref ehf. TDK sá um hönnun lagna og búnaðar innanhúss í verksmiðju. Skrifað var undir samning við TDK 15. júlí 2024. Unnið var við lagnir að og frá TDK frá vori og var lagnahluta lokið í byrjun desember en eftir er ýmis yfirborðsfrágangur sem bíður vors.

Hleypt var á kerfið eftir útskolun þann 13. desember og verður varmavinnslan tröppuð upp hægt og rólega til að fyrirbyggja að upp komi rekstartruflanir og er þá bæði um að ræða kerfi Norðurorku og TDK sem þarf að taka tillit til.

Eftir miklu að slægjast

Hitaveita Norðurorku er um 100 MW að stærð, en um það bil 10MW bætast við með glatvarma frá TDK sem jafngildir 70 til 100 sekúndulítrum af heitu bakrásarvatni. Samstarfið við TDK er því mikilvægur þáttur í öflun á heitu vatni og er um að ræða mikla lyftistöng í rekstri hitaveitunnar.

Hugarfarsbreyting nauðsynleg

Undanfarin misseri og ár hefur Norðurorka ítrekað vakið athygli á því að hitaveitan sé komin að þolmörkum. Þrátt fyrir þessa kærkomnu viðbót frá TDK, er ljóst að einnig þarf að ráðast í umfangsmiklar og fjárfrekar framkvæmdir á næstu árum til að anna aukinni eftirspurn eftir heitu vatni á starfssvæðinu. Mikilvægt er að samhliða þeim framkvæmdum sé unnið með notkunarhliðina, þ.e. að umgengni okkar um jarðhitaauðlindina sé ábyrg og að dregið sé úr sóun. Hér má kynna sér ýmsar leiðir til ábyrgrar heitavatnsnotkunar auk þess sem við minnum á mínar síður þar sem hægt er að fylgjast með eigin orkunotkun.