Fara í efni
Fimleikar

Tvöfalt hokkí heima, handbolti fyrir sunnan

Þrjú Akureyrarlið verða í eldlínunni í dag, tveir hokkíleikir í Skautahöllinni á Akureyri og einn handboltaleikur fyrir sunnan. Karla- og kvennalið SA fá SR-inga í heimsókn norður í Toppdeildunum í íshokkí og KA/Þór sækir Víkinga heim í Grill 66 deild kvenna í handknattleik.

Topplið Grill 66 deildar kvenna í handknattleik, KA/Þór, heldur suður í dag og mætir liði Víkings í Safamýrinni í 7. umferð deildarinnar. KA/Þór er með tveggja stiga forystu á toppi deildarinnar með 11 stig úr sex leikjum, en Víkingur er í 7. sætinu með fimm stig úr sex leikjum.

Leikurinn í dag er þriðji leikur KA/Þórs á sjö dögum. Liðið vann FH á heimavelli síðastliðinn sunnudag í deildarkeppninni, tapaði fyrir Stjörunni á heimavelli á miðvikudag í bikarkeppninni og mætir Víkingum á útivelli í dag. 

  • Grill 66 deild kvenna í handknattleik
    Safamýri kl. 16:00
    Víkingur - KA/Þór

Tvíhöfði í Skautahöllinni

Bæði hokkílið SA taka á móti liðum Skautafélags Reykjavíkur í dag. Karlaliðin hefja leik kl. 16:45 og þar eiga Akureyringar í höggi við Íslandsmeistara undanfarinna tveggja ára.

SR-ingar eru efstir í Íslandsmóti karla, Toppdeildinni, eru með níu stiga forystu á SA. SR-ingar hafa náð sér í 15 stig í sex leikjum, en SA með sex stig úr fjórum leikjum og situr í 3. sætinu. Liðin hafa þegar mæst tvisvar á þessu keppnistímabili og báðir leikirnir unnist á heimavelli. SA vann 4-2 á Akureyri í lok september, en SR vann 4-3 í Laugardalnum í október. 

  • Toppdeild karla í íshokkí
    Skautahöllin á Akureyri kl. 16:45
    SA - SR

Kvennalið Skautafélags Akureyrar og Skautafélags Reykjavíkur mætast í seinni leik tvíhöfðans í kvöld og hefst leikurinn kl. 19:30. 

Liðin hafa nú þegar mæst þrisvar á þessu keppnistímabili. SA vann 4-1 sigur á Akureyri í lok september og svo 5-0 sigur í Laugardalnum í október. Þriðji leikurinn fór í framlengingu og þar vann SA 2-1 í Skautahöllinni á Akureyri. Það er eina stigið sem lið SR hefur náð sér í á tímabilinu. SA er í 2. sæti Toppdeildarinnar með 11 stig úr sex leikjum, en SR í 3. sætinu með eitt stig.

  • Toppdeild kvenna í íshokkí
    Skautahöllin á Akureyri kl. 19:30
    SA - SR