Íslandsmót hjá Fimleikafélaginu
Íslandsmót í áhaldafimleikum fer fram í dag í sal Fimleikafélags Akureyrar við Giljaskóla. Hér er um að ræða mót fyrir keppendur í 1.-3. þrepi í áhaldafimleikum karla og kvenna en von er á um 90 keppendum frá níu félögum.
Þrep í fimleikum gefa til kynna kröfur til keppanda þar sem 1. þrep er erfiðasta þrep fimleikastigans. Þegar 1. þrepi er lokið öðlast keppendur rétt til að keppa í frjálsum æfingum sem líkja mætti við meistaraflokk. Þar sem þrepið er bundið við erfiðleikastig æfinga getur aldur keppenda í hverju þrepi verið breytilegur en flestir keppendur um helgina eru á aldrinum 11-14 ára.
Í áhaldafimleikum kvenna er keppt á fjórum áhöldum, þ.e. gólfæfingum, stökki, tvíslá og jafnvægisslá. Í áhaldafimleikum karla er keppt á sex áhöldum, bogahesti, hringjum, stökki, tvíslá, svifrá og gólfæfingum.
Dagskrá mótsins er sem hér segir:
- 08.40 – 3. þrep kvenna
- 13.00 – 1.-2. þrep kvenna og 1.-2. þrep karla
- 14.20 – 3. þrep karla
„Áhugafólk um fimleika er hvatt til að koma og njóta þess að sjá þetta unga og hæfileikaríka fimleikafólk. Miðaverð er kr. 2.000 fyrir 16 ára og eldri,“ segir í tilkynningu frá fimleikafélaginu.