Fara í efni
Fimleikar

Alfreð Leó og Sandra María best hjá Þór

Rafíþróttamaðurinn Alfreð Leó Svansson og Sandra María Jessen, landsliðskona í knattspyrnu – íþróttakarl og íþróttakona Þórs 2024. Mynd: Þorgeir Baldursson

Sandra María Jessen, landsliðskona í knattspyrnu, og rafíþróttamaðurinn Alfreð Leó Svansson voru kjörin íþróttakona og íþróttakarl Þórs árið 2024. Kjörinu var lýst á árlegri verðlaunahátíð, Við áramót, sem fram fór í félagsheimilinu Hamri í dag.

Á hátíðinni í dag voru Íslandsmeistarar og landsliðsfólk úr röðum Þórsara heiðraðir, látinna félaga var minnst og boðið upp á tónlistaratriði áður en íþróttafólk hverrar deildar var kynnt og heiðrað, og kjöri íþróttafólks ársins hjá Þór síðan lýst.

Kjör íþróttafólks Þórs fer þannig fram að hverri deild er heimilt að tilnefna karl og konu úr sínum röðum en aðalstjórn Þórs kýs þeirra á milli.

Íþróttakonur deilda sem voru viðstaddar í dag. Frá vinstri: Árveig Lilja Bjarnadóttir, Eva Wium Elíasdóttir, Sandra María Jessen og Sunna Valdimarsdóttir. Lydía Gunnþórsdóttir var við keppni í Reykjavík með liði KA/Þórs. Mynd: Ármann Hinrik

Íþróttakonur deildanna voru þessar:

  • Árveig Lilja Bjarnadóttir – rafíþróttadeild
  • Eva Wium Elíasdóttir – körfuknattleiksdeild
  • Lydía Gunnþórsdóttir – handknattleiksdeild
  • Sandra María Jessen – knattspyrnudeild
  • Sunna Valdimarsdóttir – píludeild

Íþróttakarlar deilda sem mættir voru í dag. Frá vinstri: Brynjar Hólm Grétarsson, Alfreð Leó Svansson og Reynir Bjarkan Barðdal Róbertsson. Mynd: Ármann Hinrik.

Íþróttakarlar deildanna voru þessir:

  • Alfreð Leó Svansson – rafíþróttadeild
  • Brynjar Hólm Grétarsson – handknattleiksdeild
  • Igor Biernat – hnefaleikadeild
  • Matthías Örn Friðriksson – píludeild
  • Rafael Victor – knattspyrnudeild
  • Reynir Bjarkan Barðdal Róbertsson - körfuknattleiksdeild

Fyrsti rafíþróttamaðurinn

Alfreð Leó Svansson er fyrsti rafíþróttamaðurinn sem hlotnast sá heiður að vera kjörinn sá besti hjá Þór. Hann varð Íslandsmeistari með Þór og í umsögn rafíþróttadeildar segir að þar með hafi hann unnið allt sem hægt sé að vinna. „Alli er einn af lykilleikmönnum Þórs í Ljósleiðaradeildinni, hann hefur vakið mikla athygli fyrir frammistöðu sína á þessu tímabili, sérstaklega með AWP byssunni, Alli hefur sýnt framúrskarandi hæfileika og nákvæmni, sem hefur gert hann að ómissandi leikmanni í liðinu. Með stöðugri frammistöðu og mikilvægu framlagi i leikjum hefur Alli verið lykilmaður í mörgum sigrum Þórs. Það er ljóst að hann er einn af bestu leikmönnum deildarinnar og framtíðin er björt fyrir hinn síunga Alla og Þórsliðið. Einnig var lið Þórs valið lið ársins í vor. “

Best og markahæst

Sandra María Jessen var algjör lykilleikmaður í liði Þórs/KA á nýliðnu ári og var valin besti leikmaður liðsins á lokahófi í október. „Hún er fyrirliði liðsins, reyndasti leikmaður þess og skoraði langflest mörk allra leikmanna. Hún er fyrirmynd annarra knattspyrnukvenna, yngri sem eldri, innan vallar sem utan,“ sagði í umsögn um Söndru.

Lið Þórs/KA varð í 4. sæti Bestu deildarinnar, efstu deildar Íslandsmótsins, og komst í undanúrslit Lengjubikarkeppninnar og bikarkeppni KSÍ, Mjólkurbikarkeppninnar. Sandra varð lang markahæst í Bestu deildinni – gerði 22 mörk í 23 leikjum – og var kjörin besti leikmaður Íslandsmótsins í árlegu kjöri leikmanna í deildinni. 

„Hún var andstæðingum erfið og sínu eigin liði ómetanleg, skoraði ógrynni af mörkum í öllum mótum og leiddi lið áfram með baráttu, útsjónarsemi og frábærum tlþrifum,“ segir í umsögninni um Söndru Maríu. „Hún tók þátt í öllum leikjum Þórs/KA í öllum KSÍ-mótunum og var í byrjunarliði í öllum þeirra nema einum. Í einum bikarleik kom hún inn sem varamaður eftir leikhlé og skoraði sigurmarkið skömmu síðar.“

Sandra María skoraði alls 33 mörk í leikjum Þórs/KA í KSÍ-mótunum, 22 mörk í 23 leikjum í Bestu deildinni, sem fyrr segir, tvö mörk í þremur leikjum í Mjólkurbikarkeppninni og níu mörk í sex leikjum í Lengjubikarnum. Að auki átti hún tíu stoðsendingar í þessum 32 leikjum. Þá kom hún við sögu í níu landsleikjum.

Ragnar Sverrisson kaupmaður í JMJ ásamt íþróttafólki Þórs í dag. Ragnar gaf glæsilegan verðlaunagrip þegar kjör íþróttamanns Þórs var endurvakið árið 1990 og bætti síðan öðrum við þegar kjörið varð kynjaskipt árið 2014. Ragnar mætir jafnan á hátíðina Við áramót og afhendir verðlaunagripina. Mynd: Ármann Hinrik