Fara í efni
Ferðaþjónusta

Vestnorden verður á Akureyri á næsta ári

Frá Vestnorden ferðakaupstefnunni á Akureyri árið 2018.
Vestnorden ferðakaupstefna, mikilvægasti vettvangur viðskipta í ferðaþjónustu á Norður – Atlantshafssvæðinu, verður haldin á Akureyri í september á næsta ári.
 

„Á kaupstefnunni koma saman ferðaþjónustufyrirtæki frá Íslandi, Færeyjum og Grænlandi til að kynna vöruframboð sitt fyrir erlendum ferðaþjónustuaðilum sem sækja kaupstefnuna. Kaupstefnan er samstarfsverkefni Íslands, Færeyja og Grænlands undir hatti NATA, North-Atlantic Tourism Association,“ segir á vef Markaðsstofu Norðurlands í kvöld.

Vestnorden var síðast haldin á Akureyri árið 2018, en kaupstefnan er haldin annað hvert ár á Íslandi og hin árin til skiptis í Færeyjum og á Grænlandi. Gera má ráð fyrir um 600 gestum, en þeir eru ferðaþjónustuaðilar frá löndunum þremur og endursöluaðilar sem koma frá yfir 30 löndum víðsvegar um heiminn.

Venjan er að tilkynnt sé um næstu staðsetningu í lokakvöldverðinum og það var einmitt gert í kvöld í Færeyjum. „Markaðsstofa Norðurlands var þar með tvo fulltrúa, þau Arnheiði Jóhannsdóttur og Halldór Óla Kjartansson sem kynntu allt það sem norðlensk ferðaþjónusta býður upp á.“