Fara í efni
Ferðaþjónusta

Verulega vanhugsaður landsbyggðarskattur?

Skemmtiferðaskipin sem koma við á Akureyri eru misjafnlega stór. Fyrirhugað afnám tollfrelsis hefur mest áhrif á komur minni skipanna. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Bæjarráð Akureyrarbæjar leggur þunga áherslu á að gildistöku yfirvofandi afnáms tollfrelsis skemmtiferðaskipa í hringsiglingum við Ísland  verði frestað um tvö ár á meðan mat verður lagt á efnahagsleg áhrif aðgerðarinnar.

Þetta kemur fram í bókun bæjarráðs frá því um miðjan október. Þar tekur ráðið undir kröfur sem fram koma í bréfi þriggja samtaka í þessum geira , Cruice Iceland, CLIA og AECO, til fjármálaráðuneytisins 27. september þar sem fram kemur ákall um að fresta afnámi tollafrelsis og gagnrýni á að ekki hafi farið fram mat á fjárhagslegum afleiðingum afnámsins. 

Bréfritarar benda á að engar upplýsingar hafi fengist frá fjármálaráðuneyti né skattayfirvöldum um hvað afnám tollfrelsis feli nákvæmlega í sér, engar upplýsingar liggi fyrir um framkvæmd við innheimtu, sem er sögð nánast ómöguleg. Þá er einnig gagnrýnt að engin viðbrögð hafi fengist frá stjórnvöldum.

Skemmtiferðaskip við Grímsey; 83,3% þeirra sem koma til Grímseyjar eru í hringsiglingum.

„Cruice Iceland og aðildarfélög hafa varað stjórnvöld við hættunni undanfarna 18 mánuði á fundum og með bréfaskriftum án viðbragða af hálfu stjórnvalda,“ segir meðal annars í nefndu bréfi.

Bókun bæjarráðs er svohljóðandi:

Það er óásættanlegt að afnema tollfrelsi skemmtiferðaskipa í hringsiglingum án þess að mat sé lagt á efnahagsleg áhrif aðgerðarinnar, eða að ákvörðunin byggi á langtíma stefnumótun um mótttöku skemmtiferðaskipa. Bæjarráð leggur þunga áherslu á að gildistökunni verði frestað um tvö ár á meðan sú vinna fer fram, enda gæti verið um að ræða verulega vanhugsaðan landsbyggðarskatt sem muni hafa mikil áhrif á mótttöku skemmtiferðaskipa m.a. á Akureyri, Hrísey og Grímsey.

Afdrifaríkar afleiðingar fyrir ferðaþjónustu á landsbyggðinni

Afleiðingar afnámsins eru sagðar verða afdrifaríkar fyrir ferðaþjónustu á landsbyggðinni og fyrirséð að margar hafnir af 31 höfn sem leiðangursskipin heimsækja í dag muni detta út þegar á næsta ári. Tíminn er naumur og bent á í bréfinu sem dagsett er 27. september að einungis sé um mánuður til stefnu áður en skipafélögin þurfi að taka ákvarðanir um hvort siglt verður til Íslands og með hvaða hætti þær siglingar verði, ef þær fara þá ekki alveg af kortinu. Sá frestur er í raun liðinn þegar þessi umfjöllun birtist. 

Um verulegar upphæðir er að ræða fyrir hafnir sem heyra undir Hafnasamlag Norðurlands samkvæmt upplýsingum frá Pétri Ólafssyni hafnarstjóra.

  • Innan Hafnasamlags Norðurlands voru 65 komur skipa í hringsiglingum, eða 31,8% þeirra skipa sem koma til Akureyrar.
  • Skemmtiferðaskip í hringsiglingum greiddu 143 milljónir króna í hafnagjöld til Hafnasamlags Norðurlands á þessu ári.
  • Farþegar sem komu með þessum skipum voru 27.652.
  • Miðað við að meðaleyðsla á farþega í landi sé 35 þúsund krónur mætti áætla að heildareyðsla þessa farþegahóps í landi á Norðurlandi hafi verið um 1,1 milljarður króna. Eyðsla áhafnameðlima er þá ekki talin með.
  • Skipakomur hafa skipt verulegu máli fyrir þjónustu í Grímsey og Hrísey, svo dæmi sé tekið, þar sem 83,3% skemmtiferðaskipa sem koma til Grímseyjar og 75% þeirra sem koma við í Hrísey eru skip í hringsiglingum.


Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Áhyggjur af skaða vegna illa ígrundaðrar ákvörðunar

Í bréfinu lýsa áðurnefnd samtök og aðildarfyrirtæki þeirra verulegum áhyggjum vegna þess skaða sem þau segja illa ígrundaða ákvörðun stjórnvalda um afnám tollfrelsis á skemmtiferðaskip frá og með áramótum muni valda. 

Þegar ákveðið var að fresta afnámi tollfrelsisins beindi meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis því til stjórnvalda að taka málið aftur til skoðunar í samráði við hagaðila og benti á að brýnt væri að meta fjárhagslegar afleiðingar afnáms tollfrelsisins. 

„Fyrir liggur að hvorugt hefur enn verið framkvæmt af stjórnvöldum, ekkert samráð hefur verið haft þrátt fyrir umleitan hagaðila né hefur verið lagt mat á það tjón sem afnám tollfrelsisins mun valda íslenskum fyrirtækjum sem eiga í viðskiptum við skemmtiferðaskipin, sérstaklega á landsbyggðinni og oft í bæjum sem ekki eru í alfaraleið ferðamanna,“ segir meðal annars í bréfinu. 

- - -

UM BRÉFRITARANA:

  • Meðal aðildarfélaga Cruice Iceland er Hafnasamlag Norðurlands, ferðaskrifstofur og fleiri þjónustufyrirtæki á Akureyri sem eiga viðskipti við skemmtiferðaskip og farþega þeirra. Hafnir víða um land eru einnig aðilar að samtökunum.
  • AECO eru Samtök leiðangursskipa á norðurslóðum (The Association of Arctic Expedition Cruice Operators), alþjóðleg samtök fyrir minni leiðangursskip sem taka 12-500 farþega. 
  • CLIA eru Alþjóðasamtök skemmtiferðaskipa (Cruise Lines International Association) og sameina alþjóðlegt samfélag skemmtiferðaskipa, þar á meðal skipafélög, leiðandi hafnir, áfangastaði og skipasmíðastöðvar ásamt fjölmörgum ferðaþjónustufyrirtækjum sem sérhæfa sig í skemmtiferðaskipum.