Fara í efni
Ferðaþjónusta

Ný fríhöfn opnuð í gær á Akureyrarflugvelli

Myndir: Skapti Hallgrímsson

Ný fríhöfn var opnuð á Akureyrarflugvelli í gærkvöldi þegar hópur ferðalanga kom með flugi frá Alicante á Spáni. Lengi vel var lítil fríhöfn á flugvellinum sem Flugfélag Norðurlands byrjaði með á sínum tíma og Icelandair rak síðan til fjölda ára, en fríhöfn hefur ekki verið opin undanfarið vegna gagngerra breytinga sem standa yfir í flugstöðinni.

Isavia innanlandsflugvellir reka nýju fríhöfnina og gerður var þjónustusamningur við Fríhöfnina ehf. í Keflavík varðandi vörur. Vöruúrval er meira en áður, skv. upplýsingum Hjördísar Þórhallsdóttur, flugvallarstjóra og umdæmisstjóra Isavia, og þjónusta betri því verslunin verður alltaf opin þegar vél í millilandaflugi kemur eða fer.

Rýmið er ekki mjög stórt en mun stærra en gamla verslunin. Flestir farþeganna nýttu sér fríhöfnina í gær og Hjördís sagði eitt blasa við strax, að fjölga þyrfti sjálfsafgreiðslukössum sem nú eru tveir. Annars var hún mjög ánægð með hvernig til tókst.