Fara í efni
Ferðaþjónusta

Bærinn býður ekki í Landsbankahúsið

Ljósmynd: Þórhallur Jónsson

Akureyrarbær mun ekki bjóða í hús Landsbankans við Ráðhústorg. Húsið er til sölu og eftir að það var auglýst komu fram hugmyndir um að sveitarfélagið keypti húsið; að Ráðhús bæjarins yrði loksins við Ráðhústorg.

„Við fórum mjög vandlega yfir málið. Skoðuðum húsið og kostnaðarmat, þarfagreining fyrir ráðhús lá fyrir og niðurstaða okkur var sú að kostnaðurinn við endurbætur og viðbyggingar við húsið yrði of mikill,“ sagði Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri við Akureyri.net í dag.

„Kostnaðurinn yrði töluvert meiri en gert er ráð fyrir vegna byggingar við núverandi ráðhús og endurbætur á því,“ sagði Ásthildur. Hún nefndi engar tölur en sagði um þannig upphæðir að ræða að þegar sveitarfélagið væri ekki sterkara á svellinu en raun ber vitni væri ekki skynsamlegt að ráðast í það verkefni að kaupa og breyta Landsbankahúsinu við Ráðhústorg.