Fara í efni
Eyjafjarðarsveit

Tíndu beinin í tvo strigapoka

Nafnlausi hóllinn, heimreiðin að Saurbæ og hluti af stíg sem lagður hefur verið upp að framtíðarstæði járnkýrinnar Eddu. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Fótstallur kýrinnar Eddu, nafnlaus hóll norðan við heimreiðina að Saurbæ, jarðýta að verki og mannabein sem komu í ljós við efnistöku úr hólnum. Örnólfur Eiríksson frá Arnarfelli rifjaði upp, í viðtali við Akureyri.net í gær, þegar hann sneiddi ennisbein af einni hauskúpunni með ýtutönninni sumarið 1976. En hvað varð um beinin?

Örnólfur, Daníel Sveinbjörnsson í Saurbæ og Brynjólfur Jónsson vegaverkstjóri voru Örnólfi til aðstoðar eftir að beinin fundust.

„Þeir koma svo með tvo strigapoka og við tíndum upp öll bein sem við sáum,“ segir Örnólfur. Hann kveðst síðan hafa hrært í moldinni með ýtunni, ýtt í rólegheitum og þeir Brynjólfur og Daníel gengið hvor sínu megin við tönnina og tínt bein sem komu upp. Ákveðið var að hætta efnistökunni ofan af hólnum og Örnólfur færði sig annað með ýtuna. En þarna voru greinilega tvær beinagrindur sem lágu óhreyfðar, auk beinanna sem þeir höfðu tínt upp þar sem voru tvær hauskúpur þannig að beinagrindurnar voru að minnsta kosti fjórar.


Örnólfur Eiríksson vildi ekki að sagan um beinin myndi gleymast. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Örnólfur segir Daníel hafa haft samband Þór Magnússon þjóðminjavörð, en þessum beinafundi hafi verið sýndur lítill áhugi. Eitt atriði vakti sérstaka athygli þeirra við þennan beinafund, en það var að beinagrindurnar sneru með höfðalagið í austur, andstætt því sem venjan er við greftrun fólks í kristni þar sem höfðalagið snýr í vesturátt svo ásjóna látinna megi horfa til austurs í von upprisunnar. Hvers vegna sneru þessar beinagrindur á hinn veginn? Eru þær frá heiðnum sið? Sakamenn sem grafnir voru utan garðs?

Beinin geymd og gantast með þau

Örnólfur heldur síðan áfram með sitt verk, klárar að ýta upp fyrir veginum. Hann segir að strigapokarnir með beinunum hafi verið settir í bílinn, Rússajeppa, hjá Binna verkstjóra og þar hafi þeir verið í einhverja daga. Hann hafi svo líklega þurft að losna við pokana úr bílnum og telur Örnólfur að þá hafi þeim verið komið fyrir í rafstöðvarskúr sem tilheyrði vegavinnuflokknum.

„Vegagerðin var með vinnuskúra við Djúpadalsána. Þar voru eldhússkúr, mötuneyti og rafstöð. Binni þurfti að losna við pokana úr bílnum, henti þeim inn í rafstöðvarskúrinn og þar voru þeir lengi. Binni var spaugsamur og svolítið hrekkjóttur, skemmtilegur maður,“ segir Örnólfur. Hann lýsir því síðan að einhverju sinni hafi þeir verið í kaffi og þarna hafi verið tvær ráðskonur við vinnu. Binni hafi þá laumast inn í skúrinn með lærlegg úr pokanum, farið laumulega aftan að annarri ráðskonunni og borið lærlegginn við læri konunnar. „Þær urðu varar við þetta, blossuðu upp og ráku hann út úr skúrnum með þetta beinarusl. En þá sagði Binni: Þetta passaði alveg, ég vissi að þetta væri kerling.“ Þeir höfðu nefnileg velt nokkuð fyrir sér stærð beinagrindanna, meðal annars út frá því hvort þær væru síðan í heiðni og fólk lágvaxnara þá en nú. Örnólfur segir að Binni hafi svo stundum talað um kerlinguna í rafstöðvarskúrnum og velt fyrir sér hvernig henni liði. „Svo vissi ég nú ekkert meira af þessum beinum, hvað varð af þeim.“


Suðurhlið hólsins þar sem Örnólfur fór yfir með ýtuna. 

Grafin aftur á sama stað

Örnólfur kveðst svo hafa frétt af því síðar, líklega um tíu árum frá beinafundinum að þessir pokar hafi verið geymdir í einhvern tíma í Saurbæjarkirkju. Mögulega hafi Daníel tekið við pokunum hjá Brynjólfi og komið þeim í geymslu. Hann telur sennilegt að sóknarnefnd Saurbæjarkirkju hafi gengið í það að losna við pokana. Þá hafi beinin einfaldlega verið grafin aftur í hólnum þar sem þau komu upp. „Það voru fengnir menn til að gera þetta og einhver mold sett ofan á. Ég man að ég sá traktor með sturtuvagn sem var að sturta mold þarna, en ég kom ekkert nálægt því. Þannig að ég veit ekki annað en að þetta sé þarna, þessi bein hafi verið grafin þarna aftur.“

Sveinbjörn Daníelsson, sonur Daníels Sveinbjörnssonar sem Örnólfur segir frá, kveðst ekki vita til þess að hóllinn hafi haft nafn. Örnólfur mundi ekki heldur til þess og ekki er heldur hægt að ráða það af upptalningu á örnefnum í landi Saurbæjar í bókinni Örnefni í Saurbæjarhreppi eftir tvo kennara úr hreppnum, Angantý H. Hjálmarsson og Pálma Kristjánsson, sem kom út 1957. Hér hefur enda verið talað um nafnlausa hólinn.

Sveinbjörn kveðst sjálfur hafa séð beinin sem Örnólfur segir frá. Sveinbjörn var þá á fertugsaldri og mokaði sjálfur ofan af tveimur beinagrindum og telur að önnur þeirra hafi verið af barni. Hann telur þó að beinin hafi ekki verið tekin heldur einfaldlega mokað yfir þau strax aftur, en segir þó að minnið gæti verið að svíkja sig.

Klaustur í Saurbæ í nokkra áratugi

Sveinbjörn bendir á í sambandi við beinafundinn að klaustur hafi verið í Saurbæ og telur líklegt að þarna hafi verið grafreitur eða kirkjugarður. Klaustur var sannarlega í Saurbæ í nokkra áratugi, frá því seint á 12. öld og fyrstu tvo til þrjá áratugi 13. aldar, sbr. heimildir um Saurbæjarklaustur í grein Janusar Jónssonar, Um klaustrin á Íslandi, í Tímariti Hins íslenzka bókmenntafélags, 1. janúar 1887, bls. 240-241. Um þetta klaustur eru þó til takmarkaðar heimildir. Mögulega tengjast beinin klaustrinu. Mögulega ekki. Mögulega enn eldri ef lega beinagrindanna bendir til heiðinna legstaða. Mögulega fáum við aldrei að vita meira um þessi bein. 


Skjáskot úr nefndri drein í Tímariti Hins íslenzka bókmenntafélags þar sem sagt er frá Saurbæjarklaustri. Timarit.is.