Fara í efni
Eyjafjarðarsveit

Mannabeinin vöktu forvitni vinnumannsins

Séð heim að Saurbæ og Saurbæjarkirkju af hólnum margumtalaða. Mynd: Haraldur Ingólfsson

Hóllinn sá hefur sögu að geyma og nú stendur risakýrin Edda á stalli og horfir yfir blómlegar byggðir Eyjafjarðarsveitar. Akureyri.net sagði fyrir stuttu frá því þegar Örnólfur Eiríksson vann á jarðýtu við gerð heimreiðar að Saurbæ og kom niður á beinagrindur á hól norðan Sólgarðs. Þetta var sumarið 1976.

Páll Rúnar Pálsson var vinnumaður í sveit að Saurbæ þegar beinin komu í ljós eftir að Örnólfur hafði ýtt efsta laginu, torfi og mold, ofan af hluta hólsins. Örnólfur vann þá við að gera nýja heimreið að Saurbæ. Hún hafði verið sunnan við Sólgarð, en var færð norður fyrir samkomuhúsið þetta sumar.

Notaði tækifærið eftir seinni mjaltir

„Ég man þegar jarðýtan var að gera nýja heimreið að Saurbæ og ýtustjórinn kom heim að bæ með lærlegg úr manni! Gleymi því aldrei!“ segir Páll Rúnar þegar hann rifjar upp atburðina sumarið 1976. Hann var þá á 15. ári og mannabeinin vöktu forvitni hans. Páll Rúnar segir beinafundinn ekki hafa vakið mikinn áhuga fólksins á bænum eða í sveitinni, en honum fannst þetta áhugavert. „Mest þótti mér merkilegt að finna ungbarnagrindina þvert yfir höfuð fullorðinna manneskju,“ segir Páll Rúnar. Hann kveðst muna nákvæmlega hvar beinagrindurnar liggja og geta gengið beint að þeim stað.


Skjáskot úr kortasjá Loftmynda ehf. sem sýnir Saurbæ, Sauræjbarkirkju, Sólgarð og hólinn þar sem beinin fundust og er nú orðinn framtíðardvalarstaður járnkýrinnar Eddu. Innfelld mynd: Páll Rúnar Pálsson. 

„Þarna sópaði ég ofan af tveimur beinagrindum fullorðinna og einu nýfæddu barni sem lá þvert yfir höfuðgafl annarrar þeirra. Þetta var 1976 þegar ég var í sveit í Saurbæ, og hafði ekkert annað að gera á kvöldin en að grafa upp beinagrindur.“ Hann kveðst hafa notað tækifærið á kvöldin, eftir seinni mjaltir, og rannsakað málið, eins og hann orðar það. Hann tók nokkrar myndir, en þær hafa ekki komið í leitirnar. Gætu leynst í gömlu albúmi einhvers staðar ofan í kassa.

Talin vera frá 13. öld

Páll Rúnar telur að fornleifafræðingar hafi komið norður haustið 1976 og talið að beinin væru frá 13. öld. Í því sambandi er rétt að rifja upp úr fyrri umfjöllun að klaustur var í Saurbæ í nokkra áratugi undir lok 12. aldar og fyrstu tvo til þrjá áratugi 13. aldar.

Nú er hóllinn orðinn heimkynnum Eddu, járnkýrinnar stórfenglegu sem Beate Stormo skapaði og sauð saman, eins og Akureyri.net sagði frá í gær í máli og myndum.


Edda horfir heim að Saurbæ og lætur sér fátt um finnast á meðan Finnur og hans menn hífðu hana af palli á stall. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.