Fara í efni
Eyjafjarðarsveit

Kýrin Edda komin á stall við Saurbæ

Finnur Aðalbjörnsson verktaki og hans menn koma Eddu fyrir á stöpli sínum steinsnar norðan Sólgarðs í landi Saurbæjar í dag. Listamaðurinn Beate Stormo, skapari kýrinnar, fylgist spennt með í fjarska. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Kýrin Edda er nú komin á stallinn sinn á nafnlausa hólnum norðan við Sólgarð í landi Saurbæjar í Eyjafjarðarsveit.

Tæki og starfsmenn frá Finni ehf. voru mætt heim að Kristnesi til Beate Stormo, skapara kýrinnar, upp úr hádeginu í dag, hífðu Eddu upp á vörubílspall og fluttu fram að Sólgarði þar sem járnkýrin stendur nú stolt á hólnum góða og mun standa um ókomna tíð, horfandi yfir hina blómlegu byggð Eyjafjarðarsveitarinnar.

Akureyri.net var á staðnum og myndaði gjörninginn. Formleg vígsla listaverksins hefur reyndar ekki farið fram á nýja staðnum, en er á dagskrá síðar í sumar.

  • Myndasyrpa frá flutningi Eddu á framtíðarheimilið verður birt á Akureyri.net síðar í dag. 

Listamaðurinn, Beate Stormo, og María Pálsdóttir, sem unnið hefur ötullega að Eddu-verkefninu, glaðar í bragði eftir að kýrin var hífð á stall sinn í landi Saurbæjar eftir hádegi í dag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Edda stendur nú þar sem Örnólfur Eiríksson ýtti upp beinagrindum fyrir 47 árum eins og sagt var frá hér á Akureyri.net fyrir skemmstu. En mögulega er hóllinn svo ekki nafnlaus. Í örnefnasjá Landmælinga Íslands eru merkt inn á þennan stað örnefnin Hrafnskinn og Hrafnskinnarhóll.

Kýrin Edda geymir nú söguna Örnólfs og stendur vörð um beinin.

Eru það ekki bara ágæt sögulok?

Beate Stormo við Eddu sína eftir að kúnni var komið fyrir á stalli sínum í landi Saurbæjar. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson


Skjáskot úr örnefnasjá Landmælinga Íslands. 

Höfðu ekki heyrt um mannabeinin

Þegar Akureyri.net hafði veður af sögunni um mannabeinin voru framkvæmdir við hólinn vegna undirbúnings fyrir komu kýrinnar þegar komnar vel á veg og stallurinn tilbúinn fyrir komu Eddu. Gestir sem vilja heimsækja kúna í fyllingu tímans geta nýtt bílastæði við Sólgarð og gengið yfir heimreiðina að Saurbæ, þá hina sömu og kom við sögu þegar mannabeinin fundust. Lagður hefur verið stígur upp á hólinn og auðvelt að komast að fótstalli Eddu. 

Við þá vinnu sem nú hefur farið fram á hólnum, lagning göngustígs og steyptu undirstöðurnar sem komið hefur verið fyrir, varð ekkert vart við þessi mannabein í hólnum. Við vinnslu sögunnar um mannabeinin hafði Akureyri.net samband við listakonuna, fulltrúa Ferðamálafélags Akureyrar og sveitarstjóra Eyjafjarðarsveitar og hafði ekkert þeirra heyrt um þessi mannabein áður. Finnur Yngvi Kristinsson, sveitarstjóri Eyjafjarðarsveitar, sagði til að mynda í svari við fyrirspurn frá Akureyri.net að engin athugasemd hafi borist um þetta til sveitarfélagsins honum vitandi og hann hafi ekki haft veður af neinu slíku hjá þeim sem unnu við undirbúning staðarins fyrir komu Eddu. 

Rónni ekki raskað

Beinin hvíla því enn óhreyfð frá því á níunda áratug liðinnar aldar þegar þau, eftir sögn Örnólfs Eiríkssonar, voru grafin að nýju á þeim stað þar sem þau komu upp, eftir að hafa verið geymt í tveimur strigapokum í Rússajeppa í nokkra daga og svo að líkindum í Saurbæjarkirkju í nokkur ár. 

Kýrin Edda mun væntanlega ekki raska ró þeirra sem þarna voru grafin, en hvað svo gerist á nýársnótt eða þrettándanum þegar kýrin kann mögulega að hefja upp raust sína og mæla á mannamáli er ekki gott að segja. Ef til vill ætti Akureyri.net að vera með útsendara á staðnum þegar þar að kemur.

Á MORGUN Mannabeinin vöktu forvitni vinnumannsins