Fara í efni
Eyjafjarðarsveit

Hyggjast leigja út rekstur Kaffi kú

Veitingahúsið Kaffi kú í Eyjafjarðasveit hefur notið mikilla vinsælda árum saman en vegna breyttra aðstæðna hyggjast eigendurnir nú leigja út reksturinn.

Hjónin Einar Örn Aðalsteinsson og Sesselja Barðdal opnuðu veitingastaðinn fyrir 11 árum á bænum Garði, þar sem er stórt mjólkurbú. Staðurinn er sambyggður fjósinu en rekinn sem sér eining, ótengd búinu, segir Einar.

„Í Covid stoppinu fengum við hjónin atvinnutilboð sem við gátum ekki hafnað. Vegna gríðarlegra vinsælda staðarins á sumrin finnst okkur samt erfitt að loka bara og hætta, þess vegna erum við að leita að fólki sem getur haldið áfram og byggt ofan á það sem gert hefur verið,“ segir Einar.

Einar segir að fótunum hafi verið kippt undan staðnum í nóvember 2019 þegar erlendir hópar hættu að láta sjá sig vegna Covid „en á móti kemur að staðurinn hefur gengið enn betur á sumrin en áður, vegna þess hve Íslendingar fóru að ferðast mikið meira innanlands en þeir höfðu gert. Þegar rofar til eru miklir möguleikar á að gera staðinn að heilsársstað eins og hann hafði verið í þrjú ár áður en Covid skall á.“

Einar nefnir að með rekstri veitingastaðarins fylgir annað eldhús. „Það er nánast fullbúið, hugsað til framleiðslu á matvöru til smá- eða heildsölu.“