Fara í efni
Eyjafjarðarsveit

Hús dagsins: Syðra-Gil

Undir Súlutindum er óhemju mikið fjalllendi, sem nær langt norður fyrir tindana sjálfa. Kallast þar Súlumýrar. Þar eru þó ekki einungis mýrar heldur miklar kletta- og hamraborgir allt frá ysta odda Löngukletta við Glerárdalsöxl ofan Akureyrar og langleiðina að Kristnesi, frá láglendi og upp undir fjallsrætur. Sunnarlega í þessum klettaholtum skerst mikið gil í hlíðina og heitir það því skemmtilega nafni Gilsárgil; um það rennur nefnilega áin Gilsá. Áin kann hins vegar að draga nafn sitt af jörðinni Gili, sem væntanlega er nefnd eftir gilinu! Og einmitt sunnan við þetta gil á háum hól, stendur skemmtilegt hús á tilkomumiklu bæjarstæði. Það er prýtt burst norðanmegin, sem kallast einstaklega skemmtilega á við Súlutinda. Hér er um að ræða íbúðarhúsið á Syðra-Gili, en téðri jörð Gili, var skipt í Ytra og Syðra-Gil fyrr á öldum.

Syðra-Gil stendur, sem fyrr segir, á háum hól í brekkunum sunnan Gilsárgils, nokkurn veginn miðja vegu milli Akureyrar og Hrafnagils. Frá hlaði bæjarins eru 7,5 km í Miðbæ Akureyrar, en aðeins tæpir 3 kílómetrar frá sveitarfélagamörkunum við Kjarnaskóg. Þess má líka geta, að frá Wilhelmínugötu syðst í Naustahverfi er styttra að Syðra-Gili, en frá sama stað að Norðurtorgi, yst á Akureyri!

Hversu langt má rekja sögu jarðarinnar Syðra-Gils eða Gils verður ekki ráðið, en væntanlega er jörðin byggð úr landi Kristness, kannski ekki löngu eftir landnám. Fyrst mun jarðarinnar getið í rituðum heimildum árið 1318 (sbr. Axel Kaaber, Bergþóra Góa Kvaran, Birkir Ingibjartsson, Hildur Guðmundsdóttir, Olga Árnadóttir, Sólveig Guðmundsdóttir Beck, Steinunn Eik Egilsdóttir og Þuríður Elísa Harðardóttir 2012: 117). Upprunalega var um eina jörð að ræða, Gil, sem síðar skiptist í Ytra- og Syðra-Gil. Jörðin var eign Möðruvallaklausturs framan af öldum en mun hafa komist undir Hrafnagilskirkju um aldamótin 1500. Vitað er upp á dag, hvenær Möðruvallaklaustur, með Sigurð „príor“ í forsvari seldi Einari ábóta á Munkaþverá jörðina Gil. Það var 22. febrúar 1452 og var um skipti að ræða, þ.e. Gil var selt í skiptum fyrir jörðina Gásir í Glæsibæjarhreppi (sbr. Stefán Aðalsteinsson 2019:184). Einhvern tíma seint á 15. öld eða snemma á þeirri 16. hefur jörðin komist í eigu Hrafnagilskirkju og mögulega seint á 16. eða einhvern tíma á 17. öld var jörðinni skipt í tvennt um ána Gilsá, þar sem syðri jörðin varð Syðra-Gil og nyrðri jörðin Ytra-Gil. Árið 1712 var jörðin enn eign Hrafnagilskirkju. Hvenær jörðin komst í einkaeigu liggur ekki fyrir, en Hrafnagilskirkja var lögð af árið 1863. Árið 1889 fluttust að Syðra Gili þau Friðrik Friðriksson frá Kroppi og Lilja Guðmundsdóttir frá Nolli í Grýtubakkahreppi. Áttu þau fjögur börn, þau Sigurlínu Margréti, Ólöfu Indíönu, Hermund og Friðrik. Við lát Friðriks árið 1913 tóku bræðurnir tveir við búskapnum og ári síðar komu þeir upp nýju íbúðarhúsi í stað torfbæjar, sem staðið hafði hér frá fornu fari.

Um eitthvert skeið á 19. öld var lögferja yfir Eyjafjarðará við Syðra-Gil en var hún flutt að Stokkahlöðum árið 1866 vegna grynninga í ánni (sbr. Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon 1993:794). Grynningarnar virðast þó ekki hafa verið varanlegar á þessum slóðum, því um tveimur áratugum síðar var ferja komið upp við Ytra Gil, sem starfrækt var til þangað til Eyjafjarðará var brúuð árið 1923. Þess má reyndar geta, að þegar farið var að huga að brúarsmíði yfir Eyjafjarðará voru tveir möguleikar teiknaðir upp og skoðaðir. Annars vegar þrjár brýr yfir óshólmana, sem urðu ofan á en hinn möguleikinn var ein löng brú við Gilsbæina. Enda þótt óshólmabrýrnar væru mun dýrari kostur mælti verkfræðingurinn Jón Þorláksson eindregið með þeim kosti, og réði þar væntanlega nálægðin við Akureyri (sbr. Hjörtur E. Þórarinsson 1994:336). Það má hins vegar velta fyrir sér hvernig ýmislegt hefði þróast öðruvísi, ef brúin hefði verið reist við Gil en ekki á óshólmunum. Kannski hefði Akureyrarflugvöllur verið lagður sunnar, og flugbrautin náð lengra til suðurs. Mögulega hefði þetta haft áhrif á það, í hvaða átt þéttbýli byggðist. En kannski hefði þetta einfaldlega engu breytt, nema hvað miklu lengra væri fyrir þá sem komu t.d. úr Þingeyjarsýslum til Akureyrar eða íbúa Kaupangssveitar til Akureyrar. Löngu síðar reis þó annars konar brú á þessum slóðum, en sú var ekki ætluð fyrir farkosti eða fólk heldur var um ræða pípubrú fyrir heitt vatn frá Laugalandi.

Íbúðarhúsinu að Syðra-Gili má skipta í tvær álmur, þó ekki sé það sérlega stórt. Syðri hlutinn er einlyft timburhús með lágu, portbyggðu risi og útskoti eða bakbyggingu með einhalla þaki til vesturs. Nyrðri hlutinn er steinsteyptur, einlyftur með háu risi. Suðurhluti snýr stafni mót suðri en norðurhluti snýr austur-vestur og myndar norðurhlutinn því nokkurs konar burst eða kvist á húsinu. Syðri hluti hússins er klæddur steinblikki, bárujárn er á þaki en nyrðri hluti hússins er múrsléttaður að mestu. Í flestum gluggum eru krosspóstar af einhverju tagi. Grunnflötur hússins mælist nærri 11x7m (ónákvæm mæling af kortavef).

Syðra-Gilshúsið reistu þeir Hermundur og Brynjólfur Friðrikssynir, sem fyrr segir, árið 1914. Væntanlega hefur þar verið um að ræða syðri hluta hússins. Austurhluti þessa húshluta, þ.e. sá hluti hússins sem er undir risþaki er æði mjór, sem gæti bent til þess, að húsið hafi verið reist sem „framhús“ á torfbæ. Það þarf þó ekki endilega að vera: Í umfjöllun um Syðra-Gil í Eyðibýli á Íslandi er húsið sagt byggt í þremur áföngum, þ.e. tvisvar byggt við það, og vesturhluti hússins sagður mögulega viðbygging við torfbæ. Það hlýtur að vera skúrbyggingin með einhalla þakinu. Þannig gæti fremri hluti syðri hluta, þ.e. húsið með risþakinu verið byggður við síðar eða komið í stað torfbæjar. Síðast var byggt við húsið 1927 og þar var um að ræða norðurhlutann, sem er steinsteyptur. Í Byggðum Eyjafjarðar sem teknar voru saman á árunum 1970-73, er húsið sagt byggt 1927 og þar væntanlega miðað við byggingu norðurhlutans. Það er freistandi að giska á, að þegar þeir bræður Brynjólfur og Hermundur, byggðu steinsteyptu álmuna við húsið til norðurs hafi þeir samhliða járnvarið suðurhlutann. Timburhluti hússins er klæddur steinblikki en sú klæðning var móðins á timburhúsum á Akureyri og nærsveitum á 3. og 4. áratug 20. aldar. Þegar skoðuð er saga húsa í þéttbýli liggur að öllu jöfnu fyrir hvenær viðbyggingar og aðrar breytingar voru gerðar í bókunum bygginganefnda. Þegar um er að ræða eldri íbúðarhús í dreifbýli er annað uppi á teningnum, enda voru sjaldnast starfandi sérstakar bygginganefndir til sveita á fyrri hluta 20. aldar eða fyrr.

Síðla árs 1933 voru húseignir á Syðra-Gili metnar til brunabóta. Íbúðarhúsinu var lýst á eftirfarandi hátt: „Íbúðarhús, kjallari og port auk stofuhæðar, 3 herbergi og forstofa auk rishæðar. Skúr áfastur við íbúðarhús“ (Brunabótafélag Íslands 1933: nr. 24). Íbúðarhúsið var sagt 11,5x4m að grunnfleti og 5,5m á hæð en skúrinn 7,5x3,5m og 2,2m á hæð. Íbúðarhús og skúr úr steinsteypu og timbri, járnklæddar að hluta. Þessar byggingar mynda væntanlega eina heild, þ.e.a.s. íbúðarhúsið sem enn stendur, en voru engu að síður metnar sem aðskilin hús. Veggir og loft voru úr timbri en steingólf í eldhúsi, húsið kynt með kolamiðstöð og steinolía til ljósa. Alls voru sex byggingar (þar af nokkrar sambyggðar) skráðar að Syðra Gili þennan nóvemberdag árið 1933, íbúðarhús og skúr voru úr timbri, steini og járni en einnig voru sambyggð fjós og hlaða og skemma úr torfi og grjóti að Syðra Gili. Þá var þar einnig eldhúskofi með hlóðum, úr torfi og grjóti, 3,5x2m að grunnfleti. Þessar byggingar eru væntanlega löngu horfnar. Alls voru byggingarnar metnar á 8070 krónur, þar af íbúðarhús og skúr á 7400 kr. Árið eftir, 1934 (skv. Fasteignaskrá) munu þeir Brynjólfur og Hermundur hafa reist fjós og hlöðu úr steinsteypu og stendur síðarnefnda byggingin enn, vestan við íbúðarhúsið.

Þeir Brynjólfur og Hermundur Friðrikssynir bjuggu hér um áratugaskeið ásamt ráðskonu sinni, Árnýju Sigurðardóttur. Árið 1966 tók Eiríkur Helgason frá Ytra-Gili við búinu og var hann jafnframt síðasti ábúandi Syðra-Gils. Af einhverjum ástæðum er Syðra-Gil sums staðar sagt fara í eyði árið 1966 en hver sá sem flettir Byggðum Eyjafjarðar sem gefin var út árið 1973 sér, að það er ekki alls kostar rétt: Árið 1970 er Eiríkur Helgason búsettur á Syðra-Gili og telur bústofn hans 80 fjár og 8 kýr. Túnstærð er 9,81 hektarar og töðufengur um 500 hestar. Þar er húsið sagt byggt 1927 og 300 m3 að stærð (sbr. Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson, Sveinn Jónsson 1973: 265). Samkvæmt bókinni Eyðibýli á Íslandi var síðast búið í íbúðarhúsinu að Syðra-Gili árið 1972. Eiríkur Helgason hélt hins vegar áfram að nýta tún Syðra-Gils en hann og kona hans, Ingunn Tryggvadóttir, voru bændur á Ytra-Gili um áratugaskeið. Árið 1990 voru tún Syðra-Gils, sem nýtt voru af Ytra-Gilsbændum, 14,1 hektarar (sbr. Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon 1993:728). Snemma á 2. áratug þessarar aldar fór rannsóknarhópur um landið og „vísiteraði“ eyðibýli líkt og biskupar kirkjur, mörg slík um landið. Afrakstur þessarar vinnu kom út á bókum, Eyðibýli á Íslandi. Syðra-Gil heimsótti hópurinn árið 2012 og grípum hér niður í skýrslu hópsins: […]Nýjasti hluti hússins, norðurbyggingin, frá um 1927 er steyptur og hefur alltaf verið óupphitaður. E.t.v. var elsti hluti hússins, sem er skv. eigendum vesturhluti hússins, gömul viðbygging við torfbæ. Útveggir hússins eru nokkuð heilir. Að sögn eigenda er fótstykki hússins að hluta til fúið í timburhluta hússins, en grindin er ekki farin að skekkjast. Gluggar eru allir glerjaðir og karmar, póstar og fög eru á sínum stað. Útihurðir eru heilar sem og þak. […] Hurða- og gluggabúnaður er í húsinu sem og raflagnir. Gamlir rafmagnsofnar eru í húsinu (Axel Kaaber, Bergþóra Góa Kvaran, Birkir Ingibjartsson, Hildur Guðmundsdóttir, Olga Árnadóttir, Sólveig Guðmundsdóttir Beck, Steinunn Eik Egilsdóttir og Þuríður Elísa Harðardóttir 2012: 117). Eigandi hússins, sem vísað er til, er téð Ingunn Tryggvadóttir, á Ytra-Gili.

Miðað við þá staðreynd, að ekki hefur verið búið í íbúðarhúsinu að Syðra-Gili í meira en hálfa, virðist húsið í nokkuð góðu ásigkomulagi. Samkvæmt fasteignaskrá er húsið skráð sem geymsla en það er ekki óalgengt að eldri íbúðarhús til sveita fái það hlutverk eftir að búsetu lýkur. Húsið er aldursfriðað, þar sem það er byggt fyrir 1923, en bæjarstæðið er einstaklega skemmtilega staðsett. Séð frá þjóðvegi kallast húsið skemmtilega á við Súlutinda. (Kannski myndi það fullkomna sjónræna heild við tindana, ef byggð yrði önnur burst við húsið sunnanmegin). Það er að sjálfsögu ekki hægt að tala um neina götumynd á þessum slóðum en Syðra-Gil er sannkölluð prýði í bæjaröðinni milli Akureyrar og Hrafnagils. Þá má geta þess, að hlaðan frá 1934 vestan við íbúðarhúsið er nokkuð merkileg bygging en hún mun vera með fyrstu byggingum hérlendis, sem steypt er með mótaflekum (sbr. Axel Kaaber, Bergþóra Góa Kvaran, Birkir Ingibjartsson, Hildur Guðmundsdóttir, Olga Árnadóttir, Sólveig Guðmundsdóttir Beck, Steinunn Eik Egilsdóttir og Þuríður Elísa Harðardóttir 2012: 117). Hinar öldnu byggingar á bæjarhólnum, íbúðarhúsið og hlaðan, eru reyndar ekki þær einu í landi Syðra-Gils. Töluvert neðan við, á austustu og neðstu bökkum Gilsárgils nokkurn veginn beint á móti Ytra-Gili, stendur nýleg vélageymsla sem reist var 2017. Myndirnar eru teknar 21. sept. 2019, 13. apríl 2024, 26. júní 2023 og 8. júlí 2024.

Heimildir:

Axel Kaaber, Bergþóra Góa Kvaran, Birkir Ingibjartsson, Hildur Guðmundsdóttir, Olga Árnadóttir, Sólveig Guðmundsdóttir Beck, Steinunn Eik Egilsdóttir og Þuríður Elísa Harðardóttir. 2012. Eyðibýli á Íslandi. Rannsókn á eyðibýlum og yfirgefnum húsum í Norður- Þingeyjarsýslu, Suður Þingeyjarsýslu og Eyjafjarðarsýslu. Reykjavík: Eyðibýli – áhugamannafélag.

Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson, Sveinn Jónsson. 1973. Byggðir Eyjafjarðar II. bindi Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðarsveitar.

Brunabótafélag Íslands. Hrafnagilshreppsumboð. Virðingabók 1933-1939. Varðveitt á Héraðsskjalsafninu á Akureyri. HsksjAk. F-117/H1. Aðgengilegt á vef Héraðsskjalasafnsins: https://issuu.com/heradsskjalasafnakureyri/docs/f_117_h1_hrafnagilshreppur_1933_1939?fr=sNGUzYjQ5OTgzNzk

Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon. 1993. Byggðir Eyjafjarðar 1990. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.

Hjörtur E. Þórarinsson. 1994. Saga Sýslunefndar Eyjafjarðarsýslu 1874-1989. Akureyri: Héraðsnefnd Eyjafjarðar.

Stefán Aðalsteinsson. 2019. Eyfirðingar framan Glerár og Varðgjár. Akureyri: Sögufélag Eyfirðinga. Bernharð Haraldsson, Birgir Þórðarson, Haukur Ágústsson og Kristján Sigfússon skipuðu ritnefnd og bjuggu til prentunar.