Fara í efni
Eyjafjarðarsveit

Hús dagsins: Hólakirkja

Fremstu byggðir Eyjafjarðar kúra undir skjóli brattra hlíða, rúmlega 1000 metra hárra fjalla, Eyjafjarðardals og afdala hans. Skammt norðan við þar sem Torfufellsfjall klýfur Eyjafjarðardalinn eru geysileg framhlaup beggja vegna Eyjafjarðarár. Annars vegar eru það Leyningshólar vestan ár en austan ár og eilítið utar nefnast Hólahólar. Eru þeir kenndir við bæinn og kirkjustaðinn, sem standa við norðurjaðar hólanna. Hins vegar er bæjarnafnið Hólar væntanlega til komið vegna hólanna. Hólar standa við Hólaveg en þar er um að ræða 12 kílómetra veg sem tengir byggðina austanmegin ár (Austurkjálka) við Eyjafjarðarbraut vestri. Að bænum liggur um 80 metra heimreið en frá bæjarhlaðinu eru um 38 kílómetrar til Akureyrar. Á Hólum stendur snotur timburkirkja sem á stórafmæli á þessu ári, 170 ára. Og til þess að setja þennan árafjölda í eitthvert samhengi má nefna, að frá áramótum til 17. júní, eru u.þ.b. 170 dagar. Og fyrst minnst er á þjóðhátíðardaginn má einnig nefna, að við lýðveldisstofnun var Hólakirkja 91 árs!

Á Hólum hefur verið búið frá Landnámsöld en þar mun fyrstur hafa búið Þorsteinn, bróðir Víga Glúms á síðari hluta 10. aldar. Á Hólum er talið, að kirkja hafi verið byggð á upphafsárum kristni hérlendis og þar hafi afkomendur téðs Þorsteins verið að verki. Mun sú kirkja hafa verið helguð Jóhannesi skírara. Elstu lýsingar á kirkju á Hólum eru frá 1729 og þar er Hólakirkja torfkirkja, þiljuð í hólf og gólf. Stærðar er ekki getið að öðru leyti en að hún er sögð með 8 sperrum, bitum og skammbitum, en Benjamín Kristjánsson (1970:114) telur ljóst, að hún hafi verið svipuð að stærð og núverandi kirkja. Þessa kirkju leysti ný af hólmi árið 1774 en hún var einnig þiljuð torfkirkja, 16 álnir milli stafnbita og 7,75 álnir á breidd. Um miðja 19. öldina var hin 75 ára gamla torfkirkja orðin næsta hrörleg. Árið 1851 kallaði Hallgrímur Thorlacius, prófastur á Hrafnagili, eigandi kirkjunnar til þá Ólaf Briem, timburmeistara á Grund og Ólaf Egilsson á Gilsá til að meta ástand hennar. Og úrskurður þeirra var sá, að kirkjan væri ónýt og byggja þyrfti nýja. Og úr varð, að Ólafur Briem hófst handa við kirkjusmíði á Hólum haustið 1852 og fullbyggð var kirkjan árið 1853.

Hólakirkja er timburhús með háu risi. Stendur hún á lágum steinhlöðnum grunni. Á veggjum er timburklæðning, nánar tiltekið slagþil og bárujárn á þaki. Inngangur, klukkur og kross eru á mæni vesturhliðar, með öðrum orðum snýr framhlið kirkjunnar til vesturs en fyrir því var löngum rótgróin hefð. Á bakhlið, eða kór, eru þrír gluggar, þar af einn undir rjáfri en þrír gluggar eru á hvorri hlið. Tveir smáir gluggar eru einnig á framhlið. Þá er kvistur á þaki suðurhliðar. Grunnflötur Hólakirkju er 10,58x5,90m.

Frá æsku og uppvexti Ólafs Briem (1808-1859) á Grund var sagt í greininni um Saurbæjarkirkju. Ólafur nam trésmíðar í Danmörku á árunum 1825-31 og kom heim að námi loknu og hóf vinnu við smíðar. Hann reisti verslunar- og íbúðarhús víða á Norðurlandi auk þess sem hann stýrði byggingum eða vann við byggingar alls átta kirkna. Fáein hús Ólafs Briem standa enn, Saurbæjar- og Hólakirkja og hluti Gránufélagshúsanna við Strandgötu á Akureyri mun vera Skjaldarvíkurstofa Ólafs Briem. Ólafur hafði verkstæði sitt á Grund og endurbætti þar nokkuð húsakost. Kirkju reisti hann á Grund árið 1842 en sú vék rúmum 60 árum fyrir núverandi kirkju. Þar var að verki annar stórhuga maður, Magnús Sigurðsson, löngum kenndur við Grund. (Svo vill reyndar til, að þegar barnungur Magnús Sigurðsson horfði um 1855 löngunaraugum frá Öxnafelli, austan Eyjafjarðarár, yfir að Grund og ákvað, að hann skyldi eignast þessa jörð er hann yrði stór, var eigandi og ábúandi Grundar einmitt Ólafur Briem). Ólafur gegndi ýmsum embættisstörfum, var m.a. hreppstjóri og auk þess tók hann þátt í hinum annálaða Þjóðfundi árið 1851. Var hann kjörinn þangað sem annar þingmaður Eyfirðinga, en einnig fór á fundinn Eggert, bróðir Ólafs, sýslumaður á Espihóli. Alls fóru níu manns úr Eyjafirði á Þjóðfundinn. Ólafur Briem var annálaður fyrir kveðskap. Ein af mörgum vísna hans er eftirfarandi:

Þó hann rigni, þótt ég digni,
Þó að aldrei lygni meir,
áfram held ég alls óhrelldur
yfir keldur, mold og leir.

Síðar lagði Hannes Hafstein út af þessari vísu og hér má heyra hana í flutningi Guðmundar Óla Scheving.

Eins og gjarnt er um hagyrðinga brást Ólafur Briem oft við ýmsum aðstæðum og uppákomum með stökum. Hér má nefna tvennt. Eitt sinn er Ólafur var að flytja tilkynningu yfir kirkjugestum á Grund eftir predikun heyrði hann hrotur frá einum þeirra. Varð þá til þessi vísa:

Hvað mun bóndinn hafast að
um helgidaganætur,
hrotur sem á helgum stað
heyrast til sín lætur?

Mun sá sofandi hafa vaknað við vondan draum. Svo var það eitt sinn, er Ólafur var sem embættismaður að annast arfskipti vildi svo til, að meðal erfingja voru þrír prestar, sem rifust áberandi mest. Ekki fer sögum af málalokum en á einhverri stundu kvað Ólafur

Metur kæran Mammon sinn
margur hempugálginn,
í þeim nærir andskotinn
ófriðsemdar nálginn.

Ekki er ólíklegt, að margar vísur hafi heyrst við byggingarstörf Ólafs. Ólafur Briem lést 15. janúar 1859, nýorðinn fimmtugur en hann var fæddur 29. nóvember 1808.

Sem fyrr segir lauk smíði Hólakirkju sumarið 1853 og 7. nóvember var hún vísiteruð í fyrsta skiptið. Var henni þar lýst á eftirfarandi hátt:

Guðshús þetta er milli þilja á lengd 16 álnir, 7 þumlungar, hvar af kórinn er af máli þessu 6 álnir og 5 þumlungar, á breidd 8 álnir og 3 kvartil; á hæð frá gólfi og upp undir bita 3 álnir og 11 þumlungar og frá neðri bitabrún í sperrukverk 4 ¾ alin, allt að innan mælt. Sperrur eru níu og jafnmargir bitar. Húsið er umhverfis af bindingsverki klætt að utan með slagborðum og að innan allt þiljað með plægðu pósta standþili. Þakið er tvöfalt, súðþak að innan en rennisúð að utan. [...] Í kirkjunni allri er nýtt þilgólf plægt á þéttum aurstokkum. Í framkirkjunni eru 7 baksláarsæti hverju megin fyrir utan tvo krókbekki, sem eru sinn á hvorri hlið,sömuleiðis sitt hverju megin í kirkjunni og myndar skilrúm milli kórs og kirkju bak þeim (Kristmundur Magnússon, Hjörleifur Stefánsson, Þóra Kristjánsdóttir og Gunnar Bollason 2007:100). Er kirkjan talin „yfir höfuð allt prýðilega byggð.“ Hins vegar leið ekki á löngu að ýmissa vankanta færi að gæta, t.d. vantaði tröppur og svo virðist sem það hafi dregist að tjarga kirkjuna til vatnsvarnar. Þó getur prófastur þess, að verið sé að tjarga kirkjuna árið 1856 en hvort því verki var ekki lokið eða tjörgunin ófullnægjandi því árin á eftir mælist prófastur enn til tjörgunar. Þá var þakleki þrálátur og virtist þar veiki hlekkurinn vera kvisturinn. Þá gerðist það ítrekað í ofsafengnum sunnanáttum, að rúður brotnuðu þegar möl og jafnvel grjót fauk á þær. Árið 1860 voru settir hlerar á suðurhliðina og tröppur við inngöngudyr og tveimur árum síðar var hún tjörguð (Kristmundur, Hjörleifur, Þóra og Gunnar 2007:111).

Hólakirkja er mögulega fyrsta upphitaða kirkjan hérlendis. Það var árið 1862 að settir voru í hana tveir vindofnar og þótti það aldeilis tíðindum sæta en kirkjur voru löngum óupphitaðar. Frá þessu var skýrt í Norðanfara: Það er sannarlega nýlunda og hér á landi dæmalaus, að sóknarpresturinn til Miklagarðs og Hóla í Eyjafirði, séra Jón Thorlacius* í Saurbæ, hefur nú í haust keypt til Hólakirkju, sem er af timbri, tvo vindofna, er hann hefur látið setja í hana, annan í kórinn en hinn í framkirkjuna, til þess að hita upp, þá messað er og kaldast þykir (úr Norðanfara; Benjamín Kristjánsson 1970:117). Við getum rétt ímyndað okkur hvernig það hefur verið fyrir kirkjugesti til sveita, eftir margra kílómetra göngu eða ferð á hestbaki að sitja í frostköldum kirkjum: Allir, sem reynt hafa að sitja hér í kirkjum á vetrardag og ekki síst í hörku og harðviðrum, vita hvað það er kalt og næstum óþolandi. Og þegar menn koma þangað sveittir og illa til reika og norpa þar svona á sig komnir meira og minna aðsettir eða skjálfandi alla messugerðina út, er naumast að menn geti veitt athygli því, er presturinn prédikar, enda hafa vandkvæði þessi aftrað mörgum frá því að sækja kirkju á vetrum[...] (Úr Norðanfara; Benjamín Kristjánsson 1970:117-118). Vindofnar þessir yljuðu kirkjugestum Hóla í tæpa tvo áratugi en árið 1880 var skráð að þeir væru orðnir ónýtir. En það dróst aldeilis von úr viti, að gert yrði við þá eða fengnir nýir: Í tæplega hálfa öld stóðu ofnarnir ónýtir í Hólakirkju og hafa líklega verið orðnir eins og hvert annað húsgagn í kaldri kirkjunni þegar þeim var skipt út árið 1928! Af „hitamálum“ Hólakirkju er það að segja, að einn kolaofn kom í stað ofnanna frá 1862 og var hann notaður til ársins 1960 er hann var fluttur á Sigurhæðir, hús Matthíasar Jochumssonar á Akureyri og mun þar enn safngripur (sbr. Kristmundur, Hjörleifur, Þóra og Gunnar, 2007:112). Fjórum árum síðar var leitt rafmagn í kirkjuna og leysti það kolakyndinguna af hólmi.

Svo virðist sem þakleki og aðrir vankantar hafi verið þrálátt vandamál í Hólakirkju en árið 1883 fóru fram á henni endurbætur sem miðuðu m.a. að upprætingu leka, auk ýmiss annars. Þá var kirkjan máluð árið 1890 en hafði fram að því verið tjörguð. En tjöruleifar gátu gert skráveifur undir málningu sérstaklega í sólskini og hitum. Upp úr aldamótum voru viðraðar hugmyndir um að bárujárn kunni að vera endanleg lausn við leka og það var sett á um 1905. En ekki reyndist sú lausn algild, upprunalegar þakklæðningar, skarsúð og rennisúð hafa líklega verið orðnar skemmdar af fúa, svo timbrið hélt ekki þaknöglum og inn streymdi snjór í hríðarveðrum. Þakið virðist þó hafa haldið vatni eftir þessar aðgerðir. Næstu ár og áratugi fóru fram endurbætur á grunni, á 100 ára afmælinu 1953 vísiteraði biskup hana og sagði hana í mjög góðu ástandi. Segir m.a. að kirkjan „hafi aðdáanlega vel staðið af sér tímans tönn og er enn í ágætu ástandi nærri því eins og frá henni var gengið fyrir 100 árum. Hefur sér Hallgrímur ekkert til sparað að gera kirkjuna sem bezt úr garði, og var smíði hennar öll hin vandaðasta bæði traust og snotur“ (Benjamín Kristjánsson 1970:116). Þetta kann að virðast í mótsögn við það sem fram kemur hér að framan, að kirkjan hafi verið sílekandi og hvorki haldið vatni né vindi! En höfum í huga, að fyrrgreind upptalning nær yfir 100 ára tímabil og kirkjan orðin 30-50 ára þegar þessir vankantar fara að láta á sér kræla. Og höfum einnig í huga byggingarefni, verkþekkingu og byggingartækni þess tíma. Auk þess var öllum viðgerðum og viðhaldi sinnt mjög samviskulega og árið 1953 hafði sökkull nýlega verið endurbættur. Hversu vel sem hús eru byggð nagar þau tímans tönn; um fjörutíu árum síðar var ástand Hólakirkju talið mjög bágborið og vart orðið við fúa í fótstykki, burðarviði og klæðningu. Var þá kallaður til hinn annálaði húsasmíðameistari Sverrir Hermannsson en hann á heiðurinn af endurbótum margra gamalla timburhúsa á ofanverðri 20. öld.

Skemmst er frá því að segja, að á árunum 1991-95 var kirkjan endurnýjuð nánast gjörsamlega frá grunni- og raunar grunnurinn líka því í viðgerð fólst einnig viðgerð á sökkli. Umsjón með framkvæmdum hafði sem fyrr segir, Sverrir Hermannsson, eftir forskrift og teikningum Hjörleifs Stefánssonar arkitekts. Árið 1991 var byrjað á norðurhlið kirkjunnar, suðurhlið og gaflar voru endurnýjaðir árið eftir og 1993 var komið að þakinu. Árið 1995 voru kirkjutröppur endurnýjaðar og kirkjan máluð að utan (sbr. Kristmundur, Hjörleifur, Þóra og Gunnar, 2007:117-118). Þá var hún máluð að innan 1997 og þar var að verki Snorri Guðvarðsson málarameistari, sem löngum hefur sérhæft sig í málun gamalla kirkna. Allar endurbætur Hólakirkju í lok síðustu aldar voru unnar þannig, að sem mest væri nýtt af gömlu efni sem hægt var. Þá má geta þess, að raflagnir og rafmagnstafla voru einnig endurnýjaðar en mikilvægi þess skal aldeilis ekki vanmetið þegar í hlut eiga gamlar timburkirkjur. Því ef eitthvað kemur upp á í gömlum og úr sér gengnum raflögnum í meira en 150 ára gömlum timburhúsum þarf víst ekki að spyrja að leikslokum.

Nú er ekki annað að sjá, en hin aldna timburkirkja að Hólum sé sem ný, enda nokkuð stutt frá gagngerum endurbótum og kirkjunni ævinlega vel við haldið. Kirkjan, sem er fremsta kirkja Eyjafjarðar, nýtur sín einstaklega vel á snotru bæjarstæðinu og kirkjugarðurinn umhverfis hana er einnig til prýði. Ræktarleg reyni- og birkitré standa vörð um hið 170 ára gamla guðshús, kannski þykir einhverjum, að þau skyggi á hana en af þeim er engu minna prýði en kirkjunni sjálfri. Samkvæmt vefsíðu Eyjafjarðarsveitar rúmar Hólakirkja 120 manns í sæti og er bændakirkja sem þýðir að hún er eign bænda, væntanlega Hólabænda. Hólakirkja var friðlýst 1. janúar 1990. Meðfylgjandi myndir eru teknar 29. ágúst 2020 og 7. október 2023.

*(Nú gæti einhver lesandi staldrað við séra Jón Thorlacius í Saurbæ, árið 1862. Kom það ekki fram í greininni um Saurbæjarkirkju, að Einar Thorlacius hafi setið í Saurbæ á þessum tíma? En hér er ekki um að ræða nafnarugling hjá undirrituðum, enda þótt mörg fordæmi séu fyrir slíku, heldur var það svo á þessum tíma, að tveir prestar, feðgarnir Einar Thorlacius (1790-1870) og Jón Einarsson Thorlacius (1816-1872), sátu í Saurbæ. Væntanlega hefur Jón verið tekinn að mestu við prestskapnum, enda Einar faðir hans kominn yfir sjötugt þegar þetta var).

Heimildir: 

Benjamín Kristjánsson. 1968. Eyfirðingabók I. Akureyri: Bókaforlag Odds Björnssonar.

Benjamín Kristjánsson. 1970. Eyfirðingabók II. Akureyri: Bókaforlag Odds Björnssonar.

Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon. 1993. Byggðir Eyjafjarðar 1990. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.

Kristinn Magnússon, Hjörleifur Stefánsson, Þóra Kristjánsdóttir og Gunnar Bollason. 2007. Saurbæjarkirkja. Í Jón Torfason og Þorsteinn Gunnarsson (ritstj.): Kirkjur Íslands. 10. bindi. bls. 105-137. Reykjavík: Þjóðminjasafn í samvinnu við Húsafriðunarnefnd, Fornleifavernd, Biskupsstofa, Minjasafnið á Akureyri og Byggðasafn Dalvíkur.

Ýmsar upplýsingar af m.a. timarit.is, manntal.is og minjastofnun.is.