Fara í efni
Eyjafjarðarsveit

Fótboltamenn góðir í snjókasti og körfubolta

Mynd: Rúnar Þór Björnsson

GAMLA ÍÞRÓTTAMYNDIN – 53

Aðstaða til þess að æfa og leika knattspyrnu er víðast hvar býsna góð nú til dags en svo hefur ekki alltaf verið á Akureyri frekar en annars staðar. Ekki eru nema liðlega tveir áratugir síðan íþróttahúsið Boginn var tekið í notkun, í janúar 2003, og þá fyrst voru akureyrskir knattspyrnumenn öruggir um að geta æft í skjóli fyrir veðri og vindum á velli í fullri stærð.

Gamla íþróttamyndin að þessu sinni segir meira en mörg orð um það við hvaða aðstæður knattspyrnumenn bjuggu stundum á árum áður. Myndin er tekin á Sanavellinum og birtist í Morgunblaðinu 12. mars 1995 með umfjöllun um undirbúning karlaliða bæjarins fyrir Íslandsmótið sem hófst tveimur mánuðum síðar. Þarna eru, frá vinstri, Þórsararnir Halldór Ómar Áskelsson, Nói Björnsson, Arnar Bill Gunnarsson, Elmar Sindri Eiríksson og Hreinn Hringsson.

Aðstæður aldrei verri

Steinþór Guðbjartsson blaðamaður Morgunblaðsins sagði lið á Stór-Reykjavíkursvæðinu í hefðbundnum gír en hið sama ætti ekki við um félögin á Norðurlandi. Nói Björnsson, þjálfari Þórs, kvaðst hafa verið viðloðandi íþróttina í 20 ár og sagði aðstæður á Akureyri aldrei hafa verið verri.

„Við erum að dunda okkur í járnum, að lyfta, og svo reynum við að hlaupa á milli skaflanna en við getum nánast ekkert annað gert. Við æfum inni einu sinni í viku, í einn og hálfan tíma í senn, en það þýðir ekkert að hugsa um að spila fótbolta hérna,“ hefur Morgunblaðið eftir Nóa, sem heldur áfram: „Við höfum reyndar verið að reyna það á bílastæðum en það gengur ekki. Við erum að undirbúa okkur fyrir knattspyrnutímabilið en það verður að segjast eins og er að ástand manna bendir til annars. Við erum þokkalegir í snjóbolta og ágætir i körfubolta.“

Bara í sjónvarpinu!

Landsliðskempan Pétur Ormslev, sem lengi gerði garðinn frægan með Fram, var ráðinn þjálfari KA árið áður og hann kynntist nýjum heimi við það að flytja norður, að eigin sögn. „Ég vissi að aðstæður hér eru erfiðar en þetta er ekkert í líkingu við það sem ég á að venjast. Ég hef aldrei séð svona snjóalög nema í sjónvarpi,“ sagði Pétur í Morgunblaðinu

Mannhæðaháir skaflar voru við flestar götur á Akureyri á þessum tíma og því hægara sagt en gert að hlaupa úti, hvað þá að spila með bolta, sagði Steinþór í Morgunblaðinu. Engu að síður sagði Pétur að auk kraftæfinga, lyftinga og inniæfinga væri mikið lagt upp úr hlaupum „og það þykir gott að geta hlaupið á auðri göngugötunni,“ sagði þjálfari KA. Í Morgunblaðinu er einmitt mynd af Pétri og lærisveinum hans í göngugötunni.

  • Sanavöllur, malarvöllur sem var í flæðarmálinu á milli athafnasvæða Slippstöðvarinnar og Útgerðarfélags Akureyringa, hefur tvisvar komið við sögu á gamalli íþróttamynd hér á Akureyri.net og fróðlegt væri fyrir ungu kynslóðina að skoða þá umfjöllun:

Grjótharður völlur en frábært útsýni

Nói og Donni á „gamla, góða“ Sanavellinum


Smellið á síðuna úr Morgunblaðinu til að stækka hana