Dagur Gautason er á leið til Montpellier
Handboltamaðurinn Dagur Gautason, sem leikið hefur með ØIF Arendal í Noregi síðustu misseri, er á leið til stórliðs Montpellier í Frakklandi. Fram kemur á vef dagblaðsins Midi Libre í Montpellier að samkomulag sé í höfn en beðið sé staðfestingar frá franska handboltasambandinu. Forráðamenn Montpellier Handball, eins og liðið kallast, vonast til þess að Dagur verði orðinn löglegur fyrir bikarleik sem fram fer næsta laugardagskvöld, að sögn blaðsins.
Dagur, sem er 24 ára, hóf ferilinn í KA en gekk til liðs við ØIF Arendal sumarið 2023. Hann hefur leikið gríðarlega vel með norska liðinu og var til dæmis kjörinn besti vinstri hornamaður norsku deildarinnar á síðasta keppnistímabili.
Montpellier er eitt af þremur stærstu liðum Frakklands og er í þriðja sæti þegar 15 leikir eru að baki í deildarkeppninni. Nantes og PSG eru efst og jöfn með 28 stig en Montpellier er með 25 stig.
Hornamaðurinn meiddist
Níu leikmenn úr herbúðum Montpeller Handball tóku þátt í heimsmeistaramótinu sem lauk um helgina og það er einmitt vegna alvarlegra meiðsla eins þeirra – Svíans Lucas Pellas – sem forráðamenn félagsins lögðust í símann, eins og franska blaðið orðar það, til þess að útvega sér annan öflugan vinstri hornamann. Leitin bar árangur og nýi leikmaðurinn er væntanlegur til Montpellier á þriðjudag, segir blaðið: Íslendingurinn Dagur Gautason.
Lucas Pellas lék með Svíum á HM en varð fyrir því óláni að slíta hásin þar sem hann var skokka heima í Svíþjóð að mótinu loknu, að því er forseti Montpellier greindi blaðamönnum frá í morgun.
Þegar leikmannalisti Montpellier Handball er skoðaður er augljóst að liðið er mjög sterkt. Þessir níu leikmenn liðsins tóku þátt í HM:
- Frakkarnir Rémi Desbonnet, markvörðurinn Charles Bolzinger og Karl Konan
- Svíarnir Pellas og Sebastian Karlsson
- Bryan Monte frá Brasilíu
- Egyptinn Ahmed Hesham
- Veron Nacinovic frá Króatíu
- Spánverjinn Djorde Cikusa