Fara í efni
Eyjafjarðarsveit

Beate um Eddu: „Ég er ánægð með útkomuna“

Beate Stormo flutti skemmtilegt ávarp við athöfnina. Myndir: Haraldur Ingólfsson.

Listaverkið Edda, risakýrin sem stendur nú á Hrafnskinnarhóli við Sólgarð norðan heimreiðarinnar að Saurbæ í Eyjafjarðarsveit var formlega vígt í gær. Fjölmenni var við athöfnina í dýrindis veðri, einmitt veðrinu sem listakonan Beate Stormo lýsti sem kjörveðri fyrir smíðina þar sem suða með gasi er erfið í vindi og vondu veðri.

Flutt voru ávörp og Kirkjukór Eyjafjarðarsveitar söng. Listakonan sjálf ávarpaði gesti, lýsti verkinu og verkferlinu, þakkaði fjölmörgu samstarfsfólki og sagði skemmtilega sögu af sjálfri sér þegar hún var yngri fékk að gjöf kálf til reiðar þegar hana langaði í hest. Séra Jóhanna Gísladóttir blessaði verkið og jós mjólk, en tók þó fram að ekki væri venjan að blessa dauða hluti. Listaverk eru hins vegar lifandi samtal milli höfundarins og þeirra sem njóta. Edda stendur keik sem tákn búsældar og dugnaðar sveitunga sinna í Eyjafjarðarsveitinni. 

Frá vígsluathöfninni. Meðlimir úr stjórn Ferðamálafélags Eyjafjarðarsveitar, en félagið stóð fyrir söfnun þegar ákveðið var að ráðast í þetta verk. Lengst til hægri er listakonan sjálf, Beate Stormo og Finnur Yngvi Kristinsson, sveitarstjóri Eyjafjarðarsveitar, við hlið hennar.

Akureyri.net var á staðnum og ræddi stuttlega við listakonuna að athöfninni lokinni. Við athöfnina taldi Beate upp langan lista af fólki sem lagði hönd á plóg við smíði kýrinnar. Hún vann þetta sem sagt ekki ein.

„Nei, þetta er ekki einnar konu verk, af því að þetta er stórt og þetta eru margir bútar. Ég hélt í upphafi að ég gæti kannski gert meira ein, en ég sá það mjög fljótlega að um leið og járnið er orðið 1,50 að lengd þá er þetta orðið það þungt, bara til að hald því á sínum stað. Hún er þrívíð, sem þýðir að hún bungar út í allar áttir eins og kýr gera, þá þarf endalaust að máta hvern einasta bút. Maður þarf að máta og rétta hann við, máta og beygja aðeins meira og máta. Þannig hver bútur í þessu verki er mátaður um tuttugu sinnum. Einhver þarf að halda, einhver þarf að strika hvar á að beygja og svo þarf að beygja og þá er gott að hafa einn í hvorn endann járninu,“ segir Beate. Hún fékk aðstoð víða að, frá vinum og vandamönnum, Íslendingum og útlendingum, og sumt af þessu fólki rambaði í fangið á henni fyrir tilviljun - eða ekki.

Hvar og hvernig fannstu fólk til að vinna þetta með þér?

„Nú gæti ég komið með langa sögu. Þessi Svisslendingur, sem er um það bil eini maðurinn sem gæti smíðað þetta höfuð, hann rambaði inn á hlað til okkar uforvarande fyrir tíu árum síðan. Þá var hann nýmenntaður frá Sviss í eldsmíði. Í Evrópu er það einhver gömul hefð að fara út í heiminn í tvö ár og snúa ekki heim fyrr en að því loknu. Hann var í svona reisu, var á Íslandi og ég sá að þetta var ótrúlega fær maður. Þannig að þegar ég teiknaði þessa kú hugsaði ég, þarna er maðurinn sem ég ætla að skrifa og spyrja, getur þú komið og gert þetta höfuð. Af því að hann gerir brynjur, miðlaldabrynjur, alklæðnað úr járni þannig að hann er svo vanur að forma plötujárn. Þannig að ég bara skrifaði honum tölvupóst og hann sagði bara, já, ég kem.“

Höfuð Eddu, júgrið og halinn eru sem sagt formuð og smíðuð af svissneskum brynjumeistara. Og það voru fleiri tilviljanir, ef svo má segja.


Séra Jóhanna Gísladóttir blessaði verkið - þó að vísu sé ekki vaninn að blessa dauða hluti. En listaverk eru lifandi samtal listakonunnar og þeirra sem njóta þess að vera í návist Eddu, sjá hana, snerta og upplifa.

„Þessi sænska kona kom bara í hlaðið einn góðan veðurdag á ferð um Ísland á leið á smíðahátíð á Akranesi. Og hugsaði bara, þetta er einmitt konan sem kann að vinna með stóra hluti, hefur reynslu af að gera stórt. Stórt er allt öðruvísi en að vinna eitthvað lítið, eins og ég er mest vön að vinna. Þetta er eiginlega meira og minna allt svona, þetta eru rauðir þræðir sem ég hef bara togað í og hafa verið út lagðir, einhvern veginn. Það er ótrúlegt að finna hvernig leiðir fléttast saman.“

Þannig má spyrja hvort um tilviljanir hafi verið að ræða, allt kemur saman á réttum tíma og leiðir þetta verk af sér. En hve nákvæmur og hvernig var undirbúningurinn fyrir smíðavinnuna - þú talar um þegar þú varst að teikna kúna.

„Það var býsna nákvæmt. Ég segi teikna, en ég teiknaði ekki mikið. Ég var búin að smíða hest úti í Svíþjóð fyrir mörgum árum síðan. Hann var flatur, í fullri stærð, sem sagt 1,45 í herðakamb, en algjörleg flatur og ég kallaði hann Skugga. Hann leit svolítið út eins og Edda, var með svona krúsídúllur, en ekki með texta. Alltaf var hugmyndin að það væri gaman að gera svona dýr alveg í þrívídd, ekki bara flatt. Þegar ég var spurð um þetta verkefni þá hugsaði ég, þetta verður að vera í svona stíl, eins og hesturinn Skuggi. Svo teiknaði ég, en flöt teikning segir ekki svo mikið þannig að ég fór út í fjós hjá mér og fann kú, eldri kú, sem var svolítið sigin og útstæð bein, stórbeinótt eins og ég vildi hafa hana. Ég mældi hana nákvæmlega, fór inn á eldhúsborðið, skalaði hana niður um tíu og gerði svo leirfígúru. Ég teiknaði svo munstrið á fígúruna og síðan var hún þrívíddarskönnuð inn í tölvu og þar voru gerðar sneiðmyndir af henni. Þar kom einmitt Haraldur sonur minn inn, í tölvuvinnslu. Maður sér kannski ekki mikla tölvuvinnslu þegar maður horfir á þetta, en það var svolítil tölvuvinnsla í þessu til að það sé hægt að smíða hana í þrívídd. Þá þurfti ég sneiðmyndir til að ég gæti búið til ramma utan um hana til að beygja járnið inn í. Það er erfitt að útskýra þetta, væri betra að sýna þér þetta heima.“


Hjónin Helgi Þórsson og Beate Stormo virða verkið fyrir sér á meðan þau hlýða á kór og gesti syngja Ísland ögrum skorið.

Geturðu metið vinnustundirnar að baki þessu verki?

„Ég hef verið að hugsa þetta. Ég er búin að vera nákvæmlega tvö ár frá fyrsta hamarshöggi, ekki teiknivinnan og það. Þó að ég hafi ekki smíðað á hverjum einasta degi í tvö ár þá hefur verið smíðað í höfðinu í tvö ár.“ Beate hefur svo verið með tvo erlenda járnsmiði, hinn svissneski Simon var í þrjá mánuði og hin sænska Lina í tvo mánuði. Inn á milli hefur fjöldi fólks hér á landi tekið þátt í að smíða verkið. „Já, það eru óteljandi vinnustundir. Ég er ekki með tölu á það.“

Hvernig er þá tilfinningin að vera laus við Eddu úr höfðinu og hafa þá pláss fyrir eitthvað annað og næsta verk?

„Veistu, það er gott. Það er gott að ljúka verkinu og ég er ánægð með útkomuna. Hún lítur út eins og mig dreymdi um að hún gæti litið út. Og mér finnst mér hafa heppnast það sem ég ætlaði mér. Og það er mjög góð tilfinning. Svo þessar góðu umsagnir sem fólk segir um hana, er bara gott í hjartað. Af því að hún fær góðar viðtökur, fólk er með stór orð um þessa kú.“


Einu sinni var Edda hugmynd, svo tvívíð teikning á blði, síðan leirfígúra í höndunum á Beate, þvínæst tölvuskannaðar sneiðmyndir. Í tvö ár var hún að mótast úr smíðajárni undir hamarshöggum og suðutækni Beate og samverkafólks hennar, en nú stendur hún fullsköpuð á hólnum og listakonan er ánægð með útkomuna.