Fara í efni
Evrópukeppni í handbolta

Nágrannaslagir í blaki og körfubolta í kvöld

Amandine Toi og Gísli Marteinn Baldvinsson verða bæði á ferðinni í kvöld, Amandine á Sauðárkróki en Gísli Marteinn á Húsavík.

Tvö boltalið frá Akureyri heimsækja nágranna sína í kvöld. Karlalið KA í blaki mætir til Húsavíkur og leikur gegn Völsungi í Unbroken-deildinni og kvennalið Þórs í körfuknattleik fer vestur á bóginn og mætir liði Tindastóls á Sauðárkróki.

Þórsstelpurnar eru í harðri toppbaráttu í Bónusdeildinni í körfuboltanum, sitja nú í 2. sæti eftir glæstan sigur á Íslands-, deildar- og bikarmeisturum Keflavíkur í síðustu umferð. Tindastóll er ekki langt undan, en þessi lið hafa fylgst nokkuð að í sigrunum í vetur, allt þar tíl í 13. umferðinni þegar Þór vann Keflavík, en Tindastóll tapaði fyrir val. Þór hefur unnið níu leiki af 13, en Tindastóll átta og situr í 4. sætinu. Þór vann fyrri leik liðanna í deildinni í Íþróttahöllinni á Akureyri í haust með sjö stiga mun, en leikurinn í kvöld er fyrsta viðureign þessara liða á Sauðárkróki í efstu deild kvenna.

Körfuknattleiksdeild Þórs tilkynnti í gær um nýjan leikmann í herbúðum liðsins. Adda Sigríður Ásmundsdóttir er á leiðinni til Þórs og kemur frá Snæfelli sem dró lið sitt úr keppni í 1. deildinni í desember. Í stuttri tilkynningu á Instagram-síðu körfuknattleiksdeildar Þórs segir að Adda Sigríður sé ungur og efnilegur bakvörður, en hún er fædd 2008 og því á 17. aldursári. Hún kemur frá Stykkishólmi og hefur leikið undanfarin tímabil með Snæfelli, bæði í 1. deild og efstu deild. Hún er 174 sm á hæð og spilaði með U16 landsliðinu í fyrrasumar ásamt því að vera í æfingahóp U18 landsliðsins fyrir næsta sumar.

  • Bónusdeild kvenna í körfuknattleik
    Íþróttahúsið á Sauðárkróki kl. 19:15
    Tindastóll - Þór

Búast má við nokkrum fjölda úr stuðningsliði Þórs á Krókinn í kvöld og því væntanlega von á hörkuleik og mikilli stemningu í húsinu enda um alvöru nágrannaslag að ræða.

Nágrannaslagur í blakinu

Karlalið KA er einnig á leið í nágrannaslag í kvöld þegar liðið mætir Völsungi á Húsavík. Liðin hafa mæst tvisvar í deildinni það sem af er tímabili, í bæði skiptiin á heimavelli KA. Þar hafa KA-menn haft betur, 3-0 í bæði skiptin.

  • Unbroken-deild karla í blaki
    PCC-höllin á Húsavík kl. 18:30
    Völsungur - KA