„Ákveðnar í að njóta hverrar mínútu“
Íslands- og bikarmeistarar KA/Þórs í handbolta þreyta frumraun sína í Evrópukeppni síðdegis í dag, þegar liðið mætir Kósóvómeisturum KHF Istogu í borginni Istog. Liðin mætast aftur á morgun á sama stað, og telst það heimaleikur KA/Þórs.
„Það eina sem við höfum séð er einn leikur liðsins í Evrópukeppninni í fyrravetur og þetta virðast ótrúlega sterkar stelpur,“ sagði Martha Hermannsdóttir, fyrirliði KA/Þórs, í samtali við Akureyri.net um mótherja dagsins. Hún segir KHF dæmigert lið frá Balkanskaganum; sóknir þess séu oft langar og í liðinu séu mjög góðar skyttur. „Ein þeirra er sérstaklega lunkin og gerði 15 mörk í leiknum sem við höfum horft á.“
Þolinmæði mikilvæg
Akureyringum er kunnugt um að fjórir bestu leikmenn KHF á síðasta keppnistímabili eru enn í herbúðum liðsins, en meira er ekki vitað með vissu. „Við verðum að einbeita okkur að því að leika eins og við viljum helst; að spila góða vörn og reyna að fá eins mörg hraðaupphlaup og við getum. Við höfum mikið rætt um hve mikilvægt er að halda haus og verða ekki óþolinmóðar þótt þær vilji halda hraðanum niðri. Vonandi tekst okkur að koma þeim á óvart.“
Stelpurnar okkar tóku létta æfingu í keppnishöllinni í morgun, allar eru við hestaheilsu og tilbúnar í slaginn, að sögn Mörthu.
Spenntar, en rólegar
Rut Jónsdóttir á marga Evrópuleiki að baki með dönskum félagsliðum og Martha tók tvívegis þátt í Evrópukeppni með Haukum á sínum tíma. Aðrar stíga fyrstu sporin á þessum vettvangi í dag.
„Ungu stelpurnar eru spenntar en mjög rólegar. Þær eru orðnar svellkaldar eftir alla úrslitaleikina sem við höfum spilað!“ segir Martha. „Við minnum sífellt hver aðra á að margar vildu vera í okkar sporum og við erum ákveðnar í að njóta hverrar mínútu. Það er mikilvægt fyrir stelpurnar að soga í sig allt sem hægt er, því þetta er mikil reynsla fyrir þær,“ segir Martha og bætir við að spennandi verði að sjá hvar íslenskur handbolti standi miðað við lið á meginlandinu, eins og mótherjana í dag.
Leikurinn hefst klukkan 16.00 að íslenskum tíma. Seinni leikurinn verður á sama tíma á morgun og hægt verður að horfa á hann í beinni útsendingu á EHF TV, sjónvarprás Handknattleikssambands Evrópu.