easyJet
Koma easyJet yljaði í kuldanum – MYNDIR
01.11.2023 kl. 09:30
Fluggeggjarar! Hörður Geirsson og Njáll Trausti Friðbertsson biðu spenntir með símann á lofti, tilbúnir að taka mynd, nokkrum andartökum áður en vél easyJet lenti á Akureyrarflugvelli. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson
Nýr kafli í sögu norðlenskrar ferðaþjónustu hófst í gær þegar fyrsta flugvél breska flugfélagsins easyJet lenti á Akureyrarflugvelli fyrir hádegi, eins og Akureyri.net fjallaði ítarlega um. Vélin flutti breska ferðamenn frá Gatwick flugvelli í London og næstu fimm mánuði verður flogið á milli þessara áfangastaða tvisvar í viku, á þriðjudögum og laugardögum.
Sólin skein í tilefni dagsins en mjög kalt var í veðri; kuldaboli beit í margan fingurinn þar sem spenntir gestir stóðu með símann eða myndavél á lofti til að fanga augnablikið þegar vélin lenti eftir aðflug til norðurs. Bros var á vörum þrátt fyrir kuldann því koma þessarar fyrstu vélar breska félagsins yljaði viðstöddum verulega um hjartarætur.