Fara í efni
easyJet

Icelandair: 20% fljúga heim samdægurs

Ein sjálfvirku myndavélanna á Akureyrarflugvelli sem munu „lesa“ númer á þeim bílum sem koma og fara. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Um fimmtungur farþega í innanlandsflugi – 20% – fer fram og til baka samdægurs. Fjölmennasti hópurinn er í burtu lengur en þrjá daga, 28% farþega.

Þetta kemur fram í svari Icelandair við fyrirspurn Austurfréttar, sem birti frétt um málið í dag. Flugfélagið flýgur frá Reykjavík til Egilsstaða, Akureyrar og Ísafjarðar.

Í lok júní var byrjað að innheimta bílastæðagjöld við flugvellina á Egilsstöðum, Akureyri og í Reykjavík. Upphaflega hugðist Isavia innanlands hefja gjaldtöku að fimm klukkustundum liðnum en eftir að fyrirkomulagið var gagnrýnt harðlega varð niðurstaðan sú að ókeypis er að leggja fyrstu 14 klukkustundirnar.

85% til baka sama dag?

Ingibjörg Isaksen, þingmaður Norðausturkjördæmis og þingflokksformaður Framsóknar, fagnaði ákvörðun Isavia á sínum tíma og upplýsti að  85% þeirra sem nýttu sér flugsamgöngur frá Egilsstöðum kæmu heim aftur samdægurs, skv. óformlegum mælingum á Egilsstaðaflugvelli. Breytingin næði því til stórs hluta þeirra sem nýti sér þjónustuna.

Njáll Trausti Friðbertsson, flugumferðarstjóri og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, dró hins vegar niðurstöður hinna óformlega mælinga mjög í efa. Hann sagði í færslu á Facebook: „Þetta finnst mér harla ólíklegt, það að þessar „óformlegu mælingar“ geti verið réttar. Nauðsynlegt að fá það fram hvernig staðið var að þessum „óformlegu mælingum“. Nú þegar þegar þetta atriði virðist vera orðið eitthvað lykilatriði í málinu. Grunar að þetta standist ekki nokkra skoðun.“

Skv. upplýsingum frá Icelandair sem Austurfrétt birti í dag er niðurstaða umræddra mælinga víðsfjarri raunveruleikanum.