Fara í efni
easyJet

Alþjóðlegt flug verði tryggt til framtíðar

vél easyJet á Akureyrarflugvelli í morgun. Ljósmynd: ISAVIA/Þórhallur Jónsson

Ráðherra ferðamála hyggst stofna starfshóp sem hefur það að markmiði að tryggja beint alþjóðaflug um Akureyrarflugvöll til framtíðar. Hópurinn á að taka til starfa 1. desember, að því er Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands, sagði í ávarpi við komu fyrstu vélar breska flugfélagsins easyJet til Akureyrar í morgun.

„Markmið hópsins verði að tryggja alþjóðlegt flug um Akureyrarflugvöll til framtíðar og koma með tillögur að aðgerðum vegna þessa, skipuleggja markaðsstarf og tryggja að framboð á þjónustu, svo sem gistingu, sé nægilegt til að mæta þörfum flugfélaganna utan háannatíma,“ sagði Arnheiður.

Þáttaskil í flugsögunni

„Það markar þáttaskil í flugsögu Íslands að easyJet hefji beint flug frá London til Akureyrar utan sumartíðar í ferðaþjónustu,“ er haft eftir Lilju Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra, sem einnig er ráðherra ferðamála, í tilkynningu Markaðsstofunnar.

„Flug líkt og þetta eykur tækifæri á að nýta inniviði í ferðaþjónustu betur og lengur á ársgrundvelli og bætir búsetuskilyrði á Norðurlandi, enda er greiður aðgangur að alþjóðaflugi hluti af því að búa í nútímasamfélagi. Menningar- og viðskiptaráðuneytið mun halda áfram að styðja við uppbyggingu alþjóðaflugs til Akureyrar en á næstu misserum verða stigin skref til að auka enn frekar slagkraftinn í þeirri vinnu enda fjölmörg tækifæri í því fólgin. Ég óska Norðlendingum til hamingju með þennan áfanga og hlakka til að fylgja honum eftir í góðri samvinnu við heimamenn,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir.