Fara í efni
Dvalarheimilin

Mögnuð tölfræði Þórs – Valur í heimsókn í kvöld

Maddie Sutton gefur aldrei tommu eftir í leikjum. Hér hefur hún náð boltanum og sendir hann frá sér þótt í undarlegri stellingu sé, í sigurleik (77:71) gegn þáverandi Íslandsmeisturum Vals á heimavelli 12. desember á síðasta ári. Myndir: Skapti Hallgrímsson

Þór og Valur mætast í Íþróttahöllinni á Akureyri í kvöld í 10. umferð Bónusdeildar kvenna í körfubolta og fyrstu umferð seinni hluta deildarinnar. Leikurinn hefst kl. 19:15.

Þessi lið enduðu á svipuðum slóðum í lok deildarkeppninnar síðastliðið vor, Valur náði 5. sætinu undir lokin og Þórsstelpurnar urðu að sætta sig við 6. sætið, en bæði fóru áfram í úrslitakeppnina. Valur vann Íslandsmeistaratitilinn árið áður.

Fyrir leikinn í kvöld er Þór í 4. sæti deildarinnar, hefur unnið fimm leiki og tapað fjórum, en Valur er í næstneðsta sæti deildarinnar, hefur unnið þrjá leiki og tapað sex. Deildin er mun jafnari í ár en í fyrra eins og áður hefur komið fram í umfjöllun hér. Fjögur lið eru jöfn á botninum með þrjá sigra. Auk Vals eru það Hamar/Þór, Grindavík og Aþena. Þar fyrir ofan er Stjarnan með fjóra sigra og svo Tindastóll og Þór með fimm sigra. Hver sigur er því mikilvægur og stutt frá botni og upp að toppbaráttunni.

  • Bónusdeild kvenna í körfubolta
    Íþróttahöllin á Akureyri kl. 19:15
    Þór - Valur

„Næststærsta“ þrennan í sögu deildarinnar

Mikið hefur verið rætt og ritað um hina bandarísku Maddie Sutton og frammistöðu hennar með Þórsliðinu í vetur. Akureyri.net fjallaði um þrennuna sem hún náði í sigri liðsins á Njarðvíkingum.

Tölfræðigúrúinn í körfuboltaheiminum, Óskar Ófeigur Jónsson, skrifaði um það á Vísi daginn eftir að þrennan sem Maddie náði væri sú „næststærsta“ í sögu úrvalsdeildarinnar. Hún varð aðeins önnur konan til að ná þremur tölfræðiþáttum yfir 16, en hún skoraði 18 stig, tók 24 fráköst og átti 17 stoðsendingar. Sú eina sem hefur gert betur er Danielle Rodriguez (30-19-17), en það var einmitt einnig í leik gegn Njarðvík 2018 þegar Dani spilaði með Stjörnunni. 

Amandine Toi, með boltann, er sjötti stigahæsti leikmaður Bónusdeildar kvenna að meðaltali í leik og með fimmtu bestu nýtinga leikmanna deildar í þriggja stiga skotum. Maddie Sutton, til hægri, er efst í þremur tölfræðiþáttum þegar deildin er hálfnuð.

Maddie efst í þremur tölfræðiþáttum

Úr því hér er verið að velta upp tölfræðiþáttum er ekki úr vegi að líta almennt yfir tölfræðiþætti Bónusdeildar kvenna núna þegar hún er hálfnuð og skoða stöðu Þórsliðsins og nokkurra leikmanna á tölfræðilistunum. Allar tölur sýna meðaltal í leik það sem af er leiktíðinni, það er í níu leikjum (nema prósentutölurnar á neðsta listanum).

Auk meðaltalstölfræðinnar hér að neðan má geta þess að Maddie er efst á lista yfir fjölda tvenna í leikjum, en hún hefur náð tvennu í öllum leikjum liðsins það sem af er tímabilinu. Með tvennu er átt við að ná tveggja stafa tölu í tveimur af tölfræðiþáttum, stigaskori, fráköstum eða stoðsendingum. 

Það mæðir líka mikið á Maddie í leikjum liðsins því hún er efst á lista yfir spilaðar mínútur, fær hvíld í 21 sekúndu að meðaltali í leik, spilar 39:39 mínútur að meðaltali. Það hefur líka áður komið fram í umfjöllun hér að hópurinn er fámennur hjá Þórsliðinu þannig að á topp tíu yfir spilaðar mínútur eru þrjár úr Þór, Maddie, Esther Fokke og Amandine Toi. Eva Wium Elíasdóttir er í 11. sæti á þeim lista og með næst flestar spilaðar mínútur af íslenskum leikmönnum, 34:12 í leik.

Eva Wium Elíasdóttir hittir best allra leikmanna Bónusdeildarinnar úr 2ja stiga skotum og vítaskotum.

Einstaklingstölfræði

  • Stoðsendingar:
    1. Maddie Sutton, 8,33
  • Fráköst:
    1. Maddie Sutton, 17,11
  • Framlagspunktar:
    1. Maddie Sutton, 33
  • Stigaskor:
    6. Amandine Toi, 23,33
    9. Esther Fokke, 20,22
    18. Maddie Sutton, 15,22
    21. Eva Wium Elíasdóttir, 13,56

    (5. sæti af íslenskum leikmönnum)
  • Plús/mínus
    10. Natalia Lalic, 5,60

Liðatölfræði – staða Þórsliðsins

  • Stigaskor:
    1. sæti: 90,11 
  • Stoðsendingar:
    2. sæti: 19,89
  • Fráköst
    5. sæti 41,56
  • Framlagspunktar
    2. sæti: 104,78
  • Fjöldi áhorfenda
    3. sæti: 168,25

Varðandi fjölda áhorfenda má geta þess að liðin fyrir ofan Þór eru Keflavík og Njarðvík, en aðsókn að innbyrðis viðureign þessara liða í Keflavík og aðsókn að vígsluleik Njarðvíkinga í nýja íþróttahúsinu í Njarðvík hafa talsverð áhrif á meðaltalið.

Þær hitta líka ágætlega

  • Hittni úr 2ja stiga skotum
    1. Eva Wium Elíasdóttir, 72,73%
    4. Maddie Sutton, 61,45%
    9. Amandine Toi, 55,17%
  • Hittni úr 3ja stiga skotum
    5. Amandine Toi, 41,18%
    7. Esther Fokke, 39,83%
  • Skot í teig
    2. Maddie Sutton, 60%
    9. Amandine Toi, 50,9%
  • Víti
    1. Eva Wium Elíasdóttir 87,8%
    6. Maddie Sutton, 79,55%