Fara í efni
Dvalarheimilin

Frá bæjarstjórn til bæjarráðs til bæjarstjórnar

Málefni er varða skipulag og áformaðar breytingar á deiliskipulagi Spítalavegar vegna hugmynda SS Byggis um að byggja fjölbýlishús vestan Tónatraðar, neðan undir Sjúkrahúsinu á Akureyri, fóru frá bæjarstjórn með samþykkt tillögu meirihlutans þann 1. október, en var á fundi bæjarráðs í morgun vísað aftur til bæjarstjórnar til ákvörðunar um það hvort halda eigi áfram með málið.

Akureyri.net fjallaði um málið eftir bæjarstjórnarfundinn 1. október. Í þeirri umfjöllun er meðal annars að finna krækju á umræður á bæjarstjórnarfundinum. Þar gagnrýndu tveir fulltrúar úr minnihlutanum, þær Sunna Hlín Jóhannesdóttir (B) og Hilda Jana Gísladóttir (S) stjórnsýslu bæjarins í tengslum við málið.

Bæjarstjórn samþykkti þann 7. febrúar 2023 að kynna drög að deiliskipulagi og samsvarandi tillögur um breytingar á aðalskipulagi vegna áforma um byggingu fjölbýlishúsa við Tónatröð.

Á bæjarstjórnarfundinum 1. október felldi meirihluti bæjarstjórnar tillögu Sunnu Hlínar um að draga til baka ákvörðunina frá 7. febrúar 2023 um kynningu. Þess í stað var samþykkt tillaga meirihlutaflokkanna um að vísa málinu til bæjarráðs á þeim grundvelli hve langur tími er liðinn frá ákvörðun meirihluta bæjarstjórnar um að vinna að breytingu á deiliskipulaginu, án árangurs, til að fara yfir fjárhagshliðina á verkefninu og taka ákvörðun um framhaldið.

Bæjarráð kallar aftur á móti eftir ákvörðun bæjarstjórnar um það hvort halda eigi áfram með breytingu á skipulagi svæðisins. Stóra Tónatraðarmálið er því aftur á leið til bæjarstjórnar eftir að bæjarstjórn hafði vísað því til bæjarráðs fyrr í mánuðinum.