Engin heilsugæslustöð á tjaldsvæðisreitnum
Skipulagsráð Akureyrarbæjar hefur gert breytingar á tillögu um deiliskipulag fyrir tjaldsvæðisreitinn og er nú ekki lengur gert ráð fyrir byggingu heilsugæslustöðvar við gatnamót Þingvallastrætis og Byggðavegar.
Drög að deiliskipulagi fyrir tjaldsvæðisreitinn voru kynnt á tveimur fundum í nóvember í fyrra, fyrst á fundi með fagaðilum og síðan með íbúum og öðrum. Fljótlega eftir þessa fundi var málið sett í bið vegna óvissu um byggingu heilsugæslustöðvar á svæðinu.
Tillaga að breyttu deiliskipulagi var tekin fyrir í skipulagsráði í gær með ýmsum breytingum sem gerðar hafa verið til að koma til móts við athugasemdir og ábendingar sem komu fram á kynningarfundunum. Í breyttri tillögu er nú gert ráð fyrir blandaðri landnotkun þar sem áður var hugmyndin að ný heilsugæslustöð yrði byggð.
Tillöguna eins og hún var lögð fram í nóvember ásamt umfjöllun um hana má sjá í frétt frá 7. nóvember 2023.