Fara í efni
Dvalarheimilin

Auka rekjanleika sjávarafurða

Arna Bryndís Baldvins McClure og Hermann Óskar Hermannsson, forritari sem heldur utan um alla þróunarvinnu og samvinnu við samstarfsfélaga Sea Thru. Hundurinn heitir Grettir og er svo sannarlega hluti af teyminu, að sögn Örnu.

Sea Thru ehf. er íslenskt (norðlenskt)-pólskt samstarfsverkefni sem snýr að því auka rekjanleika sjávarafurða í gegnum alla virðiskeðjuna. Æ algengara er að fiskur sem veiddur er í Evrópu sé fluttur til Kína eða annarra fjarlægra landa til vinnslu og síðan aftur til Evrópu þar sem hann er seldur. 

 

  • Sea Thru er eitt sex nýsköpunarverkefna sem DriftEA valdi í svokallaðan Hlunn og fá þau verkefni heildstæða aðstoð og ráðgjöf næstu 12 mánuði
  • Akureyri.net kynnir umrædd verkefni um þessar mundir, eitt í viku hverri. Quality Console var til umfjöllunar í síðustu viku en áður hafði verið fjallað um Komplíment, Grænafl og verkefnið ÍBA 55+

  • DriftEA er miðstöð frumkvöðla og nýsköpunar sem tók starfa á Akureyri í vetur
  • Alls fengu 14 verkefni inngöngu fyrr í vetur í nýsköpunarhraðal sem nefnist Slipptaka. Næsta skrefið að Slipptöku lokinni er Hlunnurinn sem er að sænskri fyrirmynd en DriftEA er í samstarfi við sænska frumkvöðlasetrið Sting

 

„Neytendur geta ekki með nokkru móti vitað hvort fiskurinn sem þeir kaupa hefur ferðast heimshorna á milli áður eður ei; einu upplýsingarnar sem þeir fá er að fiskurinn kom frá Evrópu, en upprunareglur koma ekki í veg fyrir slíkar merkingar, þrátt fyrir fullvinnslu í til dæmis Kína,“ segir Arna Bryndís Baldvins McClure við Akureyri.net. Hún átti hugmyndina að Sea Thru.

„Íslenskt sjávarfang er eftirsóknarvert. Í nýlegu viðtali lýsti stjórnarformaður Ísfélagsins því hvernig aðilar sem vinna íslenskan fisk erlendis, í bland við fisk frá Noregi og Rússlandi, selja afurðir sínar sem íslenskar og fái þannig hærra verð. Það blasir því við að það er þörf, bæði fyrir neytendur og framleiðendur, að upplýsingar um „ferðalag“ fisksins séu aðgengilegar.“ 

Sea Thru vill bjóða upp á gagnsæi þannig að neytandinn geti vitað hvort varan sem hann sé að kaupa hafi verið á heimshornaflakki, eins og hún orðar það. „Með því að veita neytendum aðgang á auðveldan hátt að þessum upplýsingum er þeim gert kleift að taka upplýsta ákvörðun. Jafnframt stuðlar aukinn rekjanleiki og gagnsæi að því að þeir framleiðendur sem stunda sjálfbærari fullvinnslu sjávarafurða fái sanngjarnara verð fyrir sínar vörur,“ segir Arna.

  • SVONA ER FYLGST MEÐ „FERÐALAGINU“
  • Verkefnið gengur út á að rekja ferðalag sjávarafurða í gegnum alla virðiskeðjuna, þ.e. frá upphafi og þar til afurðin er komin í verslun.
  • Beðin um að útskýra þetta í stuttu máli, segir Arna: „Við gerum það með því að tengjast kerfum aðila í hverju skrefi í gegnum virðiskeðjuna og tengja saman. Segja má að við séum nokkurs konar Google Maps fyrir fiskinn.“
  • Á myndinni að ofan sést hvernig þetta kemur til með að birtast notendum, í snjalltæki. „Vegna þessa höfum við verið svo heppin að öflug fyrirtæki í virðiskeðjunni hafa ýmist lýst skriflega yfir samstarfi eða gert samning við okkur um samstarf. Er það ómetanlegt fyrir okkur og þróun verkefnisins.“

 

Viðtökurnar vonum framar

„Við hjá Sea Thru erum stolt af íslenskum sjávarútvegi enda í fremstu röð hvað varðar nýtingu og meðferð sjávarfangs. Slíkt kemur ekki af sjálfu sér. Vilji sjávarútvegsfyrirtækjanna til samstarfs við nýsköpunarfyrirtæki og með frumkvöðlum hefur þar skipt miklu máli. Enda ófá fyrirtækin sem hafa sprottið upp í kringum sjávarútveginn. Viðtökurnar sem við hjá Sea Thru höfum fengið og samstarfið við alla aðila í virðiskeðjunni hefur gengið vonum framar,“ segir Arna Bryndís.

Hugmyndin að Sea Thru kviknaði hjá Örnu í janúar 2023 og í apríl sama ár viðraði hún hana við pólskan skólabróður sinn, Damian Wieczorek. Þau stunduðu þá nám við IESE háskólann í Barcelona, Damien þótti hugmyndin áhugaverð og fljótlega slóst í hópinn æskufélagi hans, Aleksander Barys, kallaður Olek.

Undirbúningsvinnan hófst sumarið 2023 og vorið 2024 sóttu Arna og Olek sjávarútvegssýninguna í Barcelona sem hér eftir verður að árlegum viðburði hjá þeim, að sögn Örnu. Í janúar á þessu ári bættist svo Ísfirðingurinn Hermann Óskar Hermannsson við hópinn en hann er forritari og heldur utan um alla þróunarvinnu og samvinnu við samstarfsfélaga Sea Thru.

Arna Bryndís Baldvins McClure og forritarinn Hermann Óskar Hermannsson. Hundurinn heitir Grettir og „gegnir oft hlutverki skrifstofustjóra þegar við erum að vinna í Drift eða annars staðar! Honum þykir sérstaklega skemmtilegt að fá að koma með í vinnuna, hvar svo sem við erum að vinna hverju sinni,“ segir Arna.

Bakgrunnur meðlima Sea Thru er ólíkur: Arna hefur starfað hjá sjávarútvegsfyrirtækinu Samherja í rúman áratug og Hermann nokkru skemur í tengdri starfsemi. Olek og Damian hafa fjármálabakgrunn en auk þess er Olek með reynslu úr tæknigeiranum.

„Ég er afar þakklát þeim frændum Þorsteini Má og Kristjáni að skapa þá umgjörð sem felst í starfsemi Driftar EA en hún hefur gert okkur kleift að leggja grunninn að Sea Thru. Einnig hefur félagið hlotið stuðning frá Samtökum sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra, sem skiptir okkur miklu máli. Fyrir mig persónulega er það sérstaklega ánægjulegt að hafa tækifæri til að félagið sé hér á Akureyri á mínum æskuslóðum. Afi minn, Birgir Ágústsson, og bræður hans voru miklir frumkvöðlar í bænum. Þá var amma mín í móðurætt, Elín Antons, einnig mikill frumkvöðull og kvenskörungur hér í Eyjafirðinum. Það skiptir mig því miklu að fá tækifæri til að byggja Sea Thru upp hér á svæðinu,“ segir Arna.